Nemendur og leiðbeinendur á námskeiðinu í Eyjum sem koma fram á tónleikunum í dag.
Nemendur og leiðbeinendur á námskeiðinu í Eyjum sem koma fram á tónleikunum í dag.
MEISTARANÁMSKEIÐ (masterclass) stendur nú yfir í Vestmannaeyjum. Það hófst 18. ágúst og því lýkur með lokatónleikum í Höllinni í dag, sunnudag, og hefjast tónleikarnir kl. 13.

MEISTARANÁMSKEIÐ (masterclass) stendur nú yfir í Vestmannaeyjum. Það hófst 18. ágúst og því lýkur með lokatónleikum í Höllinni í dag, sunnudag, og hefjast tónleikarnir kl. 13.

Að sögn Áshildar Haraldsdótur, upphafsmanns að námskeiðinu, hefur það tekist mjög vel og er hún ánægð með allan aðbúnað í Tónlistarskólanum í Vestmannaeyjum þar sem börnin sem sækja námskeiðið hafa dvalið allan tímann við æfingar og nám og að auki hefur hópurinn gist í Tónlistarskólanum. Á námskeiðinu eru 18 nemendur sem lengra eru komnir í námi, og er þetta mjög mikilvæg reynsla fyrir krakkana. Í hópnum eru 10 flautuleikarar, 6 fiðluleikarar og einn leikur á selló. Hópurinn æfir og kemur fram sem einleikarar og kammerhópur. Fimm af nemendum hópsins eru frá Vestmannaeyjum hinir eru frá Reykjavík og suðvesturhorni landsins. Masterclass-námskeiðið hóf göngu sína árið 2000 og fékk þá styrk frá Menningarborgarsjóði. Ferð hópsins til Eyja er styrkt af Vestmanneyjabæ og Tónlistarskólanum. Börnunum hefur liðið mjög vel í Eyjum og sinna helst ekki öðrum áhugamálum en tónlistinni að sögn Áshildar, og fóru aðeins fjögur þeirra á lundapysjuveiðar eitt kvöldið. Kennarar á námskeiðinu auk Áshildar, eru hinar landsþekktu tónlistarkonur Sigrún Eðvaldsdóttir og Nína Margrét Grímsdóttir og kennarar frá Tónlistarskólanum í Vestmannaeyjum, þau Michell Gaskell og skólastjóri skólans Guðmundur H. Guðjónsson, organisti í Landakirkju.

Fjölbreytt dagskrá hefur verið á tónlistardögunum. Tónleikar með Kristni Sigmundssyni og Jónasi Ingimundarsyni voru haldnir í safnaðarheimili Landakirkju sl. laugardag og í dag sunnudag verða lokatónleikar í Höllinni og hefjast þeir kl. 13:00 en þar koma fram Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari og nemendur masterclass 2001.

Vestmannaeyjum. Morgunblaðið.