Bláa lónið er vinsæll ferðamannastaður, skyldi Seltjarnarnesið verða álíka vinsælt í framtíðinni?
Bláa lónið er vinsæll ferðamannastaður, skyldi Seltjarnarnesið verða álíka vinsælt í framtíðinni?
NOKKUR sveitarfélög og aðrir aðilar hér á landi hafa í bígerð að koma á heilsutengdri ferðaþjónustu, sér í lagi hvað snertir nýtingu jarðhita til ferðaþjónustu með tilliti til baðlækninga. Stykkishólmur er kominn einna lengst í þróuninni.

NOKKUR sveitarfélög og aðrir aðilar hér á landi hafa í bígerð að koma á heilsutengdri ferðaþjónustu, sér í lagi hvað snertir nýtingu jarðhita til ferðaþjónustu með tilliti til baðlækninga. Stykkishólmur er kominn einna lengst í þróuninni. Þar er verið að leggja lokahönd á viðskiptaáætlun og ef fjárfesting næst er ætlunin að hugmyndin um að gera Stykkishólm að heilsubæ nái vonandi fram að ganga eftir tvö ár, að sögn Ásthildar Sturludóttur, starfsmanns Heilsueflingar í Stykkishólmi. Nýlega fékkst vottun á heita vatnið í Stykkishólmi frá Fresenius-stofnuninni í Þýskalandi, sem telur vatnið afar heilnæmt, að sögn Ásthildar. Hrefna Kristmannssdóttir, deildarstjóri hjá Orkustofnun, vann meðal annarra skýrslu sem út kom í fyrravor á vegum Orkustofnunar, Orkusjóðs og Útflutningsráðs, um nýtingu jarðhita til ferðaþjónustu, einkum með tilliti til baðlækninga. Hún segir hugmyndir vera uppi á Seltjarnarnesi, þar sem vatn er af sömu gerð og í Stykkishólmi og á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem eru kjöraðstæður hvað ýmsa þjónustu varðar. Möguleikar eru fyrir hendi á fjölda annarra staða eins og til dæmis við Húsavík , við Mývatn þar sem stofnað hefur verið Baðfélag Mývatnssveitar og gerð hefur verið viðskiptaáætlun og tilraunir gerðar, í Öxarfirði, í Borgarfirði, auk ýmissa staða í Skagafirði, á Vestfjörðum, á Suðurlandi og Reykjanesi.

Ráðstefna í desember

Heilsutengd ferðaþjónusta er á mikilli uppleið á alþjóðavísu, að sögn Elíasar Gíslasonar hjá Ferðamálaráði Íslands. "Fólk hefur meiri tíma og peninga nú en áður, auk þess sem það hugsar sífellt meira um eigið útlit og heilsu. Mörgum hentar því að slá tvær flugur í einu höggi; huga að heilsunni og skoða sig um. Meðal annars má nefna Heilsuhælið í Hveragerði sem telst til heilsutengdrar ferðaþjónustu auk Bláa lónsins sem er stærsta einstaka fjárfestingin á þessu sviði hér á landi."

Í undirbúningi er, að sögn Elíasar, ráðstefna við Bláa lóniðum heilsutengda ferðaþjónustu í byrjun desember og er ætlunin að fá bæði innlenda og erlenda aðila til að tala þar.