Á Keili er að finna dagbók sem mikið hefur verið notuð.
Á Keili er að finna dagbók sem mikið hefur verið notuð.
MÉR sýnist vera í tísku að ganga á Keili þetta árið, að minnsta kosti hefur þeim stórfjölgað sem skrifa í dagbókina," segir Helgi Guðmundsson, smiður í Vogum á Vatnsleysuströnd, en hann hefur um árabil haft dagbók á toppi Keilis, sem þeir sem ganga...

MÉR sýnist vera í tísku að ganga á Keili þetta árið, að minnsta kosti hefur þeim stórfjölgað sem skrifa í dagbókina," segir Helgi Guðmundsson, smiður í Vogum á Vatnsleysuströnd, en hann hefur um árabil haft dagbók á toppi Keilis, sem þeir sem ganga á fjallið geta skrifað í. "Fyrsta bókin var sett á fjallið árið 1976. Hún var þar í fimm ár og í hana voru skráðir 1.277, þar af fjórir hundar. Síðan þurfti ég að skipta um bækur á tveggja ára fresti þar til í ár og í fyrra, nú dugar ein bók ekki fyrir allan þann fjölda sem skrifar á ári." Hann segist hafa skipt um bók í sumar og eftir sex daga hafi 116 manns verið skráðir í bókina, bæði Íslendingar og útlendingar.

Veðrinu lýst og fjallað um pólitík

Hann segir bókina gjarnan vera fulla af skilaboðum og að fólk skrifi um allt mögulegt. "Gjarnan er verið að lýsa veðrinu en sumir fara jafnvel út í pólitík. Til dæmis eru alltaf einhverjir sem virðast ekki hafa sætt sig við byggingu álversins í Straumsvík. Fólk virðist almennt hafa ótrúlega mikla þörf fyrir að skrifa."