**** Leikstjórn og handrit: Troy Duffy. Aðalhlutverk: Willem Dafoe, Sean Patrick Flanery, Norman Reedus og Billy Connolly. Bergvík. (108 mín.) Bönnuð innan 16 ára.

Ég held að umfjöllun þessi verði að snúast um þá einstöku ánægju sem felst í því að uppgötva lítið meistaraverk sem aldrei kom í bíó, týndist í heimalandinu og enginn hefur heyrt minnst á. Ánægjan sem felst í því að stilla væntingum í hóf áður en áhorf hefst og gera sér síðan grein fyrir því, með hverri mínútu sem líður, að fyrir augunum á manni er fullslípuð og undurfögur perla að koma í ljós, gersemi sem auðveldlega getur fallið í skuggann af frægari myndum (og myndum með þýðari titil). Undirrituð byrjaði eiginlega strax að hafa áhyggjur af því hversu fáir eiga eftir að sjá þennan framúrskarandi trylli. Hefndarenglarnir eru án efa sú kvikmynd sem mest um vert er að sjá þessa dagana á myndbandaleigum bæjarins.

Að því sögðu nokkur orð um myndina sjálfa. Hún tilheyrir kvikmyndagrein þeirri sem kenna má við leikstjórann unga Quentin Tarantino en er í rauninni fyrsta myndin sem ég sé í þeirri holskeflu Pulp Fiction-líkja sem tröllriðið hefur heimsbyggðinni sem einhverju bætir við frumgerðina, sem fer handan hennar og öðlast þannig frumleika og frumstæðan kraft sem engu er líkur. Þetta er skipun: Leigja þessa mynd!

Heiða Jóhannsdóttir