** Leikstjóri: Craig Saphiro. Handrit: Carol Ann Hoeffner. Aðalhlutverk: Mary-Kate og Ashley Olsen. Myndform. (90 mín.) Öllum leyfð.

OLSEN-SYSTURNAR leika hér systur sem fá það göfuga hlutverk að fljúga til London sem fulltrúar fyrir skólann sinn til að taka þátt í samkeppni á vegum Sameinuðu þjóðanna. Keppni þessi hefur það að markmiði að auka skilning og umburðarlyndi gagnvart öðrum þjóðum. Hefðbundin hugðarefni unglinga verða þó ofan á hjá stelpunum, strákamál, skemmtanir og vitleysisgangur en allt leysist þó á farsælan hátt.

Systurnar sem leika þær stöllur eru ósköp sjarmerandi en myndin sjálf hins vegar heldur léttvæg og húmorinn einfeldningslegur og á köflum þreytandi. Langt og asnalegt atriði sem byggist upp á hrakförum með klósettpappír sýnir kannski metnað leikstjórans í hnotskurn, en kannski hafa einhverjir áhorfendur haft gaman af þessu.

Heiða Jóhannsdóttir