VEIRUSÝKING hefur látið á sér kræla seinnihluta sumars og virðist það taka fólk nokkra daga að hrista hana af sér, að sögn Atla Árnasonar, læknis á Læknavaktinni.

VEIRUSÝKING hefur látið á sér kræla seinnihluta sumars og virðist það taka fólk nokkra daga að hrista hana af sér, að sögn Atla Árnasonar, læknis á Læknavaktinni.

Atli kvað einhvers konar víruspest í gangi sem hefði stungið sér niður af og til en ekki væri um faraldur að ræða. Eitthvað væri líka um að fólk fengi hálsbólgu og niðurgangspestir.

Ekki óvanalega mikið af pestum miðað við árstíma

"Það er ekkert óvanalega mikið af pestum núna miðað við árstíma en þessi veirusýking hefur verið svolítið leiðinleg." Atli segir að meira hafi verið um veikindi um og kringum verslunarmannahelgina, eins og vill verða þegar hópur fólks kemur saman á afmörkuðu svæði. Tilfellum hafi farið fækkandi síðan þá en pestin sé þó enn að stinga sér niður hjá fólki.

"Fólk hefur verið að hrista pestina af sér á fjórum til fimm dögum en einkennin eru þessi venjulegu, hiti, beinverkir, stíflað nef og hósti. Við ráðleggjum fólki að fara vel með sig og leita læknis ef bati gengur óeðlilega fyrir sig, en yfirleitt hristir fólk þetta af sér af sjálfsdáðum."