Sigríður Ingibjörg Jónsdóttir fæddist á Ísafirði 9. október 1947. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. ágúst síðastliðinn. Foreldrar Sigríðar Ingibjargar voru Jón Helgason matsveinn, f. á Ísafirði 27. september 1909, d. 26. október 1981, og Fanney Þorgerður Gestsdóttir, húsmóðir og klæðskeri, f. í Reykjavík 15. febrúar 1924, d. 9.1. 2000. Fanney Þorgerður var alin upp á Hamri á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp, en fósturmóðir hennar, sem var einnig ömmusystir hennar, var Sigríður Guðmundsdóttir, gift Hávarði Guðmundssyni. Faðir Fanneyjar Þorgerðar var Gestur, sonur Sigfúsar Bjarnasonar frá Eyjum í Strandasýslu og konu hans Salome Þorbjörnsdóttur, en móðir hennar var Guðný, dóttir Þorgils Þorgilssonar frá Skálavík í Ísafjarðardjúpi og konu hans Guðrúnar Guðmundsdóttur. Jón Helgason var sonur Helga á Hallbjarnareyri Elíassonar og Guðmundu Sturlínu Maríasdóttur á Ísafirði Benónýssonar, Gunnarssonar. Móðir Guðmundínu var Guðrún Sturludóttir, hreppstjóra í Görðum í Aðalvík, Bárðarsonar, bónda á Hóli í Bolungarvík Sturlusonar bónda í Þjóðólfstungu, Sturlusonar. Móðir Bárðar var Ingibjörg Bárðardóttir, ættföður Arnardalsættarinnar, Illugasonar. Móðir Guðrúnar var Judit Bjarnadóttir, bónda í Görðum, Halldórssonar, hreppstjóra á Látrum, Bjarnasonar. Börn þeirra Fanneyjar Þorgerðar og Jóns eru auk 1) Sigríðar Ingibjargar, sem var þeirra elst: 2) Hávarður Jónas, fiskverkamaður í Sandgerði, f. 17.8. 1949, kvæntur Huldu Jóhannsdóttur, húsmóður og fiskverkakonu, á fjögur börn. 3) Jens Sturla, matsveinn Ísafirði, f. 28.9. 1950, kvæntur Jórunni Sigurðardóttur sjúkraliða, og eiga þau þrjú börn, þau skildu. 4) Garðar Gunnar sjómaður, f. 28.9. 1950, fórst á sjó 29.11. 1974, kvæntur Sesselju Ingólfsdóttur, húsmóður, hjúkrunarfræðingi og ljósmóður og eiga þau tvö börn. 5) Þorfinnur Helgi, f. 4.5. 1957, lést í frumbernsku.

Sigríður Ingibjörg kvæntist Ásgeiri Hreindal Sigurðssyni 13.4. 1968. Ásgeir er sonur Sigurðar Kristjánssonar, húsgagnasmíðameistara og listmálara frá Miðhúsum í Garði, f. 14.2. 1897, og konu hans Kristjönu Bjarnadóttur, húsmóður frá Hraunsmúla í Staðarsveit, f. 3.9. 1910. Sigríður og Ásgeir skildu. Sigríður Ingibjörg giftist Þóri Þórissyni, yfirdeildarstjóra hjá Landssímanum, 11.10. 1997. Þór er sonur Þóris Valdemarssonar, þúsundþjalasmiðs við Kristneshælið, f. á Stóra-Hamri í Eyjafjarðarsýslu 30.10. 1906, d. 28.2. 1988, og konu hans Guðrúnar Kristjánsdóttur húsmóður, f. í Eyrarhúsum í Tálknafirði 3.10. 1919, d. 13.6. 1995. Börn Sigríðar og Ásgeirs eru: 1) Fanney Elín, húsmóðir og starfsmaður á leikskóla, f. 23.11. 1967, gift Þorsteini Halldórssyni heildsala og eru börn þeirra Helgi Pétur, f. 20.8. 1987, Ágúst Ólafur, f. 16.9. 1980, Kristjana Ragnheiður, f. 20.3. 1992, og Steinunn Ingibjörg, f. 1.2. 1998. 2) Ingibjörg, húsmóðir og starfsmaður á gæsluvellli, f. 14.8. 1971, sambýlismaður Árni Þór Hallgrímsson badmintonþjálfari og eru börn þeirra Jóhann Páll, f. 24.5. 1990, María, f. 25.10. 1993, og Sigríður, f. 23.5. 1996. 3) Sigurður lagermaður, f. 30.4. 1973, og eru börn hans Ída María, f. 12.2. 1997, og Halldór Þór, f. 2.4. 2000, sambýliskona Stefanía Halldórsdóttir, húsmóðir og landfræðingur.

Sigríður Ingibjörg ólst upp hjá foreldrum sínum á Ísafirði. Til Reykjavíkur fluttist hún síðan til að stunda nám við Húsmæðraskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi 1965. Vann Sigríður Ingibjörg að því loknu í Hattabúð Soffíu Pálma 1965-68 og stundaði síðan húsmóðurstörf eftir að hún gifti sig. Hún starfaði síðan í verslun KRON við Snorrabraut 1977-82. Þaðan réðst hún til starfa í eldhúsinu á Droplaugarstöðum við Snorrabraut frá árinu 1982. Þá starfaði hún óhemjumikið innan Starfsmannafélagsins Sóknar og sat meðal annars í stjórn Sóknar frá árinu 1989 allt þar til félagið sameinaðist öðrum félögum í Eflingu. Þar sat hún í stjórn þar til hún varð frá að hverfa vegna veikinda.

Útför Sigríðar Ingibjargar verður gerð frá Grafarvogskirkju á morgun, mánudaginn 27. ágúst, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi. (23. Davíðssálmur.)

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég

langa ævi.

(23. Davíðssálmur.)

Með söknuði kveðjum við Siggu mágkonu mína og minnumst þeirra góðu stunda sem við áttum með henni. Við biðjum góðan Guð að vernda og styrkja Dadda, Fanneyju, Ingibjörgu, Sigga, maka þeirra og börn, einnig bræður hennar og fjölskyldur þeirra. Blessuð sé minning þín Sigga mín og Guð geymi þig.

Sigrún og börn.

Skjótt hefur sól brugðið sumri. Skuggi sorgar byrgði skyndilega fyrir skin síðsumarssólarinnar þegar Sigga mágkona og frænka okkar varð að lúta í lægra haldi eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Það er komið að kveðjustund og minningarnar streyma fram. Þegar við hugsum um samferð okkar í þá rúmu þrjá áratugi sem leiðir okkar lágu saman koma einungis upp í hugan bjartar og hlýjar minningar. Sigga ólst upp á Ísafirði með foreldrum sínum og systkinum í Mjallagötunni. Þegar hún hafði slitið barnsskónum flutti hún suður og stofnaði sitt eigið heimili sem alla tíð bar vott um dugnað og myndarskap.

Mín fyrstu kynni af Siggu voru þegar hún kom vestur í heimsókn á æskustöðvarnar og var undirrituð þá farin að venja komur sínar í Mjallagötuna. Þá komu vel í ljós mannkostir Siggu, hún bankaði á dyrnar hjá bróður sínum, opnaði dyrnar og sagði: "Ætlarðu ekki að koma niður og sýna hana." Já, þannig var Siggu rétt lýst, hún var heil og óskipt í öllu er hún tók sér fyrir hendur. Hún var jafnan glaðsinna og græskulaus gamanyrði lágu henni létt á tungu enda dró hún að sér marga góða og trausta vini sem studdu þétt við bakið á henni í veikindum hennar. Það þarf ekki að orðlengja það að frá upphafi urðum við bestu vinkonur, því í návist Siggu var svo þægilegt og sjálfsagt að vera. Hógværð hennar og umhyggja gerði hana að kjölfestu í lífi margra og ekki síst okkar mæðgnanna þegar dró ský fyrir sólu í lífi okkar.

Elsku Sigga, á kveðjustund er okkur efst í huga þakklæti fyrir samfylgdina við þig, allt það sem þú miðlaðir af trausti og vináttu og deildir með okkur í gleði og sorg. Megi blíðar og góðar minningar um traustan vin færa fjölskyldu þinni birtu og yl um ókomna tíð.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Sesselja, Helga og Gerður.

Nú þegar dimma fer á kvöldin og myrkrið minnir okkur á að haustið sé í nánd með hnignun alls gróðurs, er komið að annarri kveðjustund.

Hún Sigga vinkona mín er dáin, eftir langvinn og erfið veikindi, hefur hún kvatt okkur öll, sem nú syrgjum við brottför hennar.

Leiðir okkar Siggu lágu saman á vinnustað fyrir rúmum 13 árum, og með okkur tókst fljótlega góð vinátta, sem aldrei hefur fallið skuggi á, enda var hún ein besta og elskulegasta manneskja sem ég hef hitt, án þess að ég hafi umgengist svo mikið af vondu fólki um dagana.

Hún Sigga mín var hjartahlý og hreinskiptin, og naut trausts bæði vinnuveitanda og samstarfsfólks, hún var trúnaðarmaður á vinnustað og sat í stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar í mörg ár. Auk þess sá hún um veitingar fyrir félagið við námskeiðsslit og var ein aðalmanneskjan í veitingaliðinu á 1. maí og á spilakvöldum Sóknar og Framsóknar, það var verulega gott að vinna með henni á slíkum stundum því hún var vel verki farin og skipulögð til verka, dugleg og ósérhlífin. Þá má ekki gleyma Sóknarferðunum, því hún Sigga var góður og skemmtilegur ferðafélagi, ég minnist ferða í Herðubreiðarlindir, Öskju og um hluta af Þingeyjarþingi. Vestfjarðaferð, ferð í Þjórsárdal og síðustu ferðina okkar sem við fórum fyrir tæpu ári að Kirkjubæjarklaustri og niður um Meðalland. Í þessum ferðum tíndi Sigga steina í steinasafnið sitt, óð berfætt í lækjum og grunnum bergvatnsám, á kvöldin var farið í gönguferð með vasapela, eða kíkt á bar ef hann var til staðar.

Ég minnist líka haust-, vetrar- og vorkvölda þegar farið var út að borða eða kíkt á ball, jafnvel að hvort tveggja væri gert, þó var einn skemmtistaður sem við áttum eftir að heimsækja, en það bíður þar til við hittumst síðar.

Stóra happið hennar Siggu var að kynnast honum Þór, þau áttu saman nokkur góð ár, þó þau væru alltof fá. Það var svo mikil gleði og hamingja sem einkenndi afmælis- og brúðkaupsveisluna fyrir tæpum fjórum árum, engum datt í hug að svo skammur tími væri eftir.

Það var líka mikil gleði yfir yngsta barnabarninu, honum litla Þór, sem amman talaði mikið um, því þó henni þætti vænt um öll ömmubörnin sín þá var auðheyrt að hann var í mestu dálæti hjá henni.

Nú að leiðarlokum, þegar svo margs er að minnast, leitar hugur minn líka til fjölskyldunnar sem svo mikið hefur misst.

Kæri Þór, Sigurður, Ingibjörg, Fanney og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur, megi almættið styrkja ykkur á þessum erfiðu sorgartímum.

Sveinn.

Sigrún og börn.