Karl Sigurðsson fæddist á Akranesi 27. nóvember 1930. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigurður Eðvarð Hallbjarnarson útgerðarmaður, f. 28.7. 1887, d. 3.7. 1946, og Ólöf Guðrún Guðmundsdóttir kona hans, f. 30.12. 1894, d. 18.1. 1983. Systkini Karls eru: 1) Magnús Eðvarð, f. 12.7. 1913, d. 2.2. 1946. 2) Sigrún, f. 28.11. 1914, d. 22.2. 1986. 3) Guðrún Lovísa, f. 30.3. 1916. 4) Guðmundur Ásgrímur, f. 20.1. 1919, d. 19.4. 1983. 5) Þórður, f. 2.9. 1920. 6) Aðalheiður, f. 13.1. 1924, d. sama dag. 7) Rafn Eðvarð, f. 20.9. 1928, d. 15.11. 1933. 8) Ólafur Eðvarð, f. 12.1. 1926, d. 13.6. 1964. 9) Leifur, f. 22.7. 1929, d. 19.8. 1998. 10) Agnes, f. 24.11. 1931. 11) Rafn Eðvarð, f. 20.8. 1938.

Hinn 28.11. 1954 kvæntist Karl Kristínu G. Sigurðardóttur, f. 26.7.1933. Hún er dóttir Sigurðar Elíassonar trésmíðameistara í Kópavogi og Maríu Magnúsdóttur konu hans. Fyrir hjónaband eignaðist Karl Sigrúnu Höllu, f. 30.7. 1951, móðir hennar er Álfhildur Ólafsdóttir, f. 24.8. 1933. Eiginmaður Sigrúnar er Kristján Sveinsson, f. 6.5. 1949, börn þeirra eru Álfhildur, f. 15.12. 1975, Karl Kristinn, f. 17.2. 1979, d. 10.4. 2000, og Sveinn, f. 7.12. 1984. Synir Karls og Kristínar eru: a) Sigurður, f. 27.6. 1955, kvæntur Ellen Maríu Ólafsdóttur, f. 21.6. 1957, börn þeirra eru Guðbjartur Ólafur, f. 12.3. 1985, og Kristín Ósk, f. 12.3. 1985; b) Magnús Þór, f. 16.2. 1959, kvæntur Margréti Halldóru Þórarinsdóttur, f. 3.10. 1958, börn þeirra eru Þórarinn Björn, f. 23.6. 1981, Hallbjörn, f. 23.9. 1983, Kristinn, f. 29.2. 1988, og Katrín María, f. 10.1. 2000.

Karl ólst upp á Akranesi, lauk þar barna- og gagnfræðanámi. Hann fór snemma til sjós, starfaði sem 2. matsveinn og búrmaður á Dettifossi. Hann fór til Kaupmannahafnar til að læra matreiðslu í Teknologisk Institut og útskrifaðist árið 1954 með ágætiseinkunn. Á námsárum sínum var hann lærlingur á Fredriksberg Selskabslokaler.

Að námi loknu bjó hann í Reykjavík. Karl var aðstoðarbryti og bryti á Gullfossi, Brúarfossi og Goðafossi. Var hann formaður brytafélagsins í fjögur ár. Árið 1963 fór hann í land, flutti til Akraness og stofnaði verslunina Skagaver og rak hana ásamt Baldri Guðjónssyni í rúm 30 ár. Karl var um fimm ára skeið formaður Kaupmannafélags Akraness. Hann var virkur félagi í Oddfellowreglunni og gekk í stúku nr 3 Hallveigu 1959. Síðar flutti hann sig í st. nr. 8 Egill á Akranesi.

Árið 1997 fluttu Karl og Kristín að Gullsmára 7 í Kópavogi.

Útför Karls fer fram frá Kópavogskirkju á morgun, mánudaginn 27. ágúst, og hefst athöfnin klukkan 15.

Hljóðnar nú haustblær húsið við rótt. Dvelur við dyrnar drungaleg nótt. Fljúga þá fuglar flestir sinn veg, kvakandi kvíðnir kvöldljóðin treg.

Hljóðnar nú haustblær húsið við rótt.

Dvelur við dyrnar drungaleg nótt.

Fljúga þá fuglar flestir sinn veg,

kvakandi kvíðnir kvöldljóðin treg.

Það er vissulega með miklum trega sem ég kveð nú tengdaföður minn, Karl Sigurðsson, hinstu kveðju. Vinskapur okkar varð sterkari og einlægari með hverju árinu sem leið og aldrei komu upp vandamál í samskiptum okkar á þessu langa árabili. Það eru forréttindi að hafa fengið að ganga í gegnum lífið með vísan stuðning og vináttu slíks manns.

Minn tregi er þó fullur þakklætis til Kalla, eins og hann var ævinlega kallaður, því annan eins heiðursmann og ljúfling hef ég ekki hitt fyrir á lífsleiðinni. Það var einfaldlega þægilegt að umgangast hann og mikið hefur hann kennt mér í afstöðumati mínu til manna og málefna.

Kalli var mikill fagmaður, hvort sem um var að ræða verslunarrekstur eða vinnu við framreiðslu matar, enda sýnir starfsframi hans sem bryti hjá Eimskipi, m.a. á Gullfossi, að hér fór yfirburða fagmaður.

Ég efast ekki um að mótun hans í uppeldi sínu hjá vinnusömum og heiðarlegum foreldrum hafði hér mikil áhrif. Skilaboðin úr foreldrahúsum voru þau að menn skyldu einfaldlega ekki troða öðrum um tær því mun áhrifameiri leiðir væru færar til að skila árangri með natni, iðni og ósérhlífni.

Við Sigrún hófum búskap okkar á fertugasta afmælisdegi hans, og svo náin voru samskiptin að ég held að hann hafi komið á heimili okkar hvern einasta virkan dag í afar langan tíma á daglegri ferð sinni í bankann, drukkið sinn kaffibolla og spjallað um málefni líðandi stundar. Okkur duldist samt aldrei að þetta var hans aðferð til að fullvissa sig um að allt væri í lukkunnar velstandi hjá dóttur, tengdasyni og litlu fjölskyldunni þeirra.

Svífur burt sumar sólar í lönd,

kveður létt kossi klettótta strönd,

ljósu frá landi leysir sitt band,

byltist þung bára bláan við sand.

Hann fylgdist mjög spenntur með þegar Álfhildur okkar fæddist og endaði á því að vera viðstaddur fæðinguna með mér, slík var umhyggjan fyrir frumburði okkar og dóttur sinni.

Hann hélt á Kalla nafna sínum undir skírn án þess að hann vissi hvað hann ætti að heita, fyrr en á því augnabliki sem hann var vatni ausinn, og hann dáði strákinn alla tíð. Sorg hans var afskaplega mikil þegar Karl yngri var hrifinn frá okkur svo snögglega fyrir rúmu ári. Það hafa því orðið fagnaðarfundir þegar þeir hittust á ný vinirnir.

Þau systkinin Álfhildur og Kalli unnu hjá afa sínum í Skagaveri og fór ávallt vel á með þeim, og þó að Sveinn okkar ynni ekki hjá afa sínum fer ekki framhjá neinum manni að afi hans hafði djúp áhrif á hann með umhyggju sinni og elsku.

Margs er að minnast frá svo löngu tímabili og hugurinn hvarflar jafnvel aftur til þess tíma þegar skátamótin voru haldin í Botnsdal en þá leituðum við nokkrir skátafélagar til Kalla, með leiðsögn varðandi matvæli, magn þeirra og samsetningu fyrir skátamótin.

Frá því árið 1974 störfuðum við Kalli saman í Oddfellow-reglunni þar sem hann var mjög virkur og sá hann í áratugi um veisluhald og matargerð af sinni alkunnu snilld fyrir stúkuna okkar.

Við fórum tveir saman í tveggja vikna ferð til Mallorca og áttum þar dýrðardaga, sem seint gleymast, og einnig er hann fór með okkur fjölskyldunni í sumarhús í Hollandi. Endalaust má dvelja við atvik og atburði sem við gengum saman í gegnum og það er notaleg tilfinning að líta yfir farinn veg okkar Kalla þar sem hvergi glittir í annað en vináttu og væntumþykju.

Mér er einnig ljúft að minnast heimboðanna til þeirra Kalla og Stínu, bæði á Kirkjubrautina og á Dalbrautina, og einnig er við heimsóttum þau í sumarbústað þeirra, Karlstungu í Vesturhópi, og fórum saman út á vatn að veiða. Þar var einfaldlega stjanað við okkur, og þegar þau lögðu saman hjónin, hvort sem það var við matargerð, garðrækt eða hvað sem var annað, þá lét árangurinn ekki á sér standa og nutum við fjölskyldan endalaust af þeim mikla nægtabrunni.

Undir það síðasta komu mannkostir Kalla afar sterklega í ljós. Æðruleysið gagnvart hinum óhagganlega dómi var einstakt, og ljúfmennskan og umhyggjan fyrir okkur sem eftir myndum standa gaf svo glögga mynd af því heilsteypta ljúfmenni sem hann var.

Breiðir svo húmið hljóðlátan væng,

milt eins og móðir mjúkri hjá sæng.

Fjúka um foldu fölnandi blóm,

hlýða á haustsins helkaldan dóm.

(Sigríður I. Þorgeirsdóttir)

Hafðu heila þökk, kæri vin, minning þín lifir.

Kristján Sveinsson.

Kvöldroða slær á himininn, litfögur ský þjóta um loftið. Við finnum að sumarið er að fjarlægjast, gott sumar hér á suðvesturhorni landsins. Það er söknuður í huga, góður vinur, Karl Sigurðsson - Kalli í Skagaveri eins og hann var oftast kallaður hér á Akranesi - hefur kvatt okkur. Hann var hvíldinni feginn, hafði barist við erfið veikindi um langan tíma, en naut góðrar hjúkrunar síðustu vikurnar á heimili sínu og á Líknardeildinni í Kópavogi, en þar fannst honum annað heimili sitt meðan hann dvaldi þar.

Hann var yfirvegaður og æðrulaus til hinstu stundar, fyrst og síðast þakklátur eiginkonu, fjölskyldu og starfsfólki Líknardeildarinnar, sem annaðist hann af einstakri umhyggju.

Karl var fæddur á Akranesi 27. nóvember 1930. Hann ólst upp í stórum systkinahópi á Akranesi, þar sem sjórinn með öllum sínum margbreytileika var miðdepill daglegs lífs. Ýmist gefandi mikinn afla og auðsæld, eða ógnandi með því að hrifsa til sín fyrirvinnur heimila og ástvini. Þetta umhverfi mótaði Kalla, eins og aðra unga menn í sjávarplássum. Hann var kraftmikill og áræðinn að hverju sem hann gekk.

Kalli stundaði almenna vinnu á unglingsárum, lauk gagnfræðaprófi 1947, fór síðan til Kaupmannahafnar og lærði matreiðslu. Hann fór ungur í siglingar, sigldi til fjarlægra hafna og kynntist framandi fólki. Hann var um árabil matsveinn og bryti á skipum Eimskipafélags Íslands, m.a. í fimm ár á Gullfossi, flaggskipi Eimskipafélagsins, þar sem gómsætur matur og glæsileiki skipaði öndvegi. Voru störf hans þar sérstaklega rómuð.

Árið 1963 ákvað hann að segja skilið við sjómennskuna og nýta reynslu sína á nýjum vettvangi. Það ár stofnaði hann, ásamt Baldri Guðjónssyni, matvöruverslunina Skagaver að Kirkjubraut 54 á Akranesi. Árið 1983 byggðu þeir síðan stórmarkaðinn Skagaver og ráku það fyrirtæki til ársins 1994, er þeir seldu verslunina og hættu báðir störfum.

Leiðir okkar Kalla hafa legið saman á Akranesi um tugi ára. Ég minnist hans fyrst í skátastarfi í hópi ungra pilta og stúlkna sem höfðu hugsjónir og markmið skátahreyfingarinnar að leiðarljósi. Þessi hópur lagði stund á markvissa þjálfun hugar og handa til undirbúnings góðra verka. Farið var í tjaldútilegur og ferðir um nágrennið til þess að æfa ratvísi, skyndihjálp, kynnast landinu og gróðrinum, en ekki síður til þess að æfa hvaðeina sem komið gæti að liði ef slys bæri að höndum eða annar vandi sem þyrfti að leysa. Á fullorðinsárum störfuðum við saman um árabil í Hjálparsjóði skáta á Akranesi.

Árið 1980 fluttum við hjónin að Dalbraut 17, en handan götunnar bjuggu þau Karl og Kristín Sigurðardóttir, eiginkona hans, Kalli og Stína, eins og þau voru venjulega nefnd. Þau áttu fallegan garð við húsið sitt og voru áhugafólk um garðrækt. Á vorin var Kalli oftast fyrstur í götunni til vinnu í garðinum. Hann var natinn við gróðurinn, hugsaði vel um tré og blóm, þegar tími gafst til frá annasömu starfi við rekstur stórverslunar, og fús að gefa nágrönnum sínum góð ráð við ræktunarstörfin.

Karl gekk í Oddfellowregluna 1959. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir stúkuna nr. 8, Egil á Akranesi, og leysti þau af hendi af alkunnum dugnaði og samviskusemi. Við Egilsbræður nutum sérstaklega góðs af hæfileikum hans og reynslu sem matreiðslumanns. Hann annaðist veitingar og gestamóttökur fyrir stúkuna um áratuga skeið af alkunnri snilld. Sögðu sumir gestir, sem áður sigldu með Gullfossi, að þeir upplifðu á ný glæsiborðin þar.

Fyrir fjórum árum fluttu þau Kalli og Stína búferlum í Gullsmárann í Kópavogi. Þá fækkaði samfundum, en alltaf hélt hann sambandi við okkur Egilsbræður og sótti fundi eftir því sem heilsan leyfði.

Við sendum Stínu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur um leið og við þökkum Karli Sigurðssyni mikil og góð störf hans fyrir stúkuna okkar. Blessuð sé minning hans.

Bragi Þórðarson.

Kristján Sveinsson.