Björgvin Þór Jóhannsson fæddist í Reykjavík 22. janúar 1951. Hann lést á heimili sínu, Bræðratungu 22 í Kópavogi, 18. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans eru Jóhann Bessason, f. 28. maí 1926, og Arnheiður Björgvinsdóttir, f. 19. maí 1927. Systkini Björgvins eru: Ósk Sólveig, f. 30. október 1946, Bessí, f. 5. febrúar 1948, Ásta, f. 3. febrúar 1950, og Bessi, f. 3. desember 1959. Björgvin kvæntist 23. des 1972 Marianne Susanne, f. 21. september 1951. Börn þeirra eru: 1) Gunnhildur, f. 28. apríl 1973, sonur hennar er Óskar Örn, f. 12. október 1998; 2) Jóhann, f. 22. apríl 1977, unnusta hans er Sigurjóna S. Sigurjónsdóttir, f. 26. september 1978.

Björgvin var sjúkraliði og þroskaþjálfi að mennt. Hann starfaði í 10 ár sem forstöðumaður Skálatúnsheimilisins í Mosfellsbæ, en lengst af gegndi hann starfi hjúkrunarfræðings við Hrafnistu í Reykjavík. Björgvin notaði öll tækifæri sem gáfust til að sérmennta sig á sínu sviði, bæði hérlendis og erlendis. Hann sótti m.a. nám við Michigan-háskóla í Bandaríkjunum árið 1986 og fékk til þess Fulbright-styrk.

Útför Björgvins fer fram frá Fosssvogskirkju á morgun, mánudaginn 27. ágúst, og hefst athöfnin klukkan 15.

Ég þakka þau ár sem ég átti, þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfin úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sig.)

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Elsku besti pabbi minn, þakka þér fyrir hve kærleiksríkur, örlátur og hjálpsamur þú varst. Ávallt reiðubúinn að rétta hjálparhönd. Þín verður mjög sárt saknað og aldrei verður hægt að fylla það tómarúm sem þú skilur eftir.

Ég trúi ekki hve lánsöm ég er að hafa átt þig að.

Elska þig og sakna svo mikið.

Þín dóttir,

Gunnhildur.

Elsku Björgvin.

Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,

heyrirðu storminn kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er.

(Valdimar Hólm Hallstað.)

Það er með miklum söknuði sem ég kveð Björgvin Þór Jóhannsson tengdaföður minn sem mig langar að minnast með fáeinum orðum. Glaðværð, greiðvikni, umhyggjusemi fyrir öðrum eru orð sem koma fyrst upp í hugann. Björgvin var einn af þeim sem var sífellt að hjálpa öðrum og gat ekki neitað neinum sem til hans leituðu. Í staðinn vildi hann oft líka gleyma sjálfum sér. Hann vissi alltaf hvenær manni leið illa og það áður en maður vissi það sjálfur. Björgvin mat ég mikils og hafði hann mikil áhrif á mig. Hann hjálpaði mér oft á erfiðum tímum og var þá vanur að segja, "Sigga mín, ástandið er aldrei það slæmt að það gæti ekki verið verra." Þessi orð munu ávallt fylgja mér. Hann hafði þann einstaka hæfileika að láta manni líða betur enda sjaldan lognmolla þar sem hann var á ferð. Hlátrasköll og gleði er það sem einkenndi Björgvin og heyrðust þau langar leiðir. Björgvin var allt í öllu alls staðar. Ef hann var ekki að vinna aukavaktir, ferðast út um allan heim eða hjálpa vinum og kunningjum var hann að sinna fjölskyldunni, þvo bílana á heimilinu, fara út með hundana og svo mætti lengi telja. Veit ekki hvort hann svaf nokkurn tímann. En nú hefur þögnin yfirtekið rödd hans og hlátur og þú, Björgvin, ert farinn yfir móðuna miklu og veit ég að þú ert í góðum höndum þar sem vel verður tekið á móti þér. Við Jói höfum einmitt verið að ræða það okkar á milli að nú séu feður okkar loksins búnir að hittast og sitja eflaust brosandi og vaka yfir okkur.

Elsku Björgvin, takk fyrir allt, ég gleymi þér aldrei og nú þegar ég kveð þig langar mig að biðja góðan guð að styrkja og vaka yfir honum Jóa mínum, Súsí, Gunnu, Óskari og öðrum aðstandendum.

Þín tengdadóttir,

Sigurjóna.

Þínum anda fylgdi glens og gleði

gamansemin auðnu þinni réði

því skaltu halda áfram hinum megin

með himnaríkisglens við mjóa veginn.

Ég vona að þegar mínu lífi lýkur

ég líka verði engill gæfuríkur

þá skoðum skýjabreiður saman

og skemmtum okkur, já það verður

gaman. (Lýður Ægisson.)

Elsku besti afi minn, ég sakna þín svo mikið, mig langar að róla með þér á leikvellinum, kubba hús og moka sand.

Þú varst svo góður við mig. Ég ætla að biðja guð um að passa þig og vernda þar til við hittumst næst. Ég sendi þér marga fingurkossa, hlýju og faðmlög, elsku afi minn. Elska þig svo mikið.

Þinn prins,

Óskar Örn.

Mánudaginn 27. ágúst verður til moldar borinn Björgvin Þór Jóhannsson er varð bráðkvaddur á heimili sínu laugardaginn 18. ágúst sl. Ég kynntist honum og hans góðu konu, Marianne Jóhannsson, og börnunum þeirra er dóttir þeirra Gunnhildur og sonur minn Hjörtur Scheving fóru að draga sig saman vorið 1993 en þau gengu í hjónaband árið 1996.

Í Spámanninum segir: "Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guðs síns? Aðeins sá, sem drekkur af vatni þagnarinnar, mun þekkja hinn volduga söng.

Og þegar þú hefur náð ævitindinum, þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna.

Og þegar jörðin krefst líkama þíns, muntu dansa í fyrsta sinn."

Björgvin kom mér fyrir sjónir sem kærleiksríkur maður, glaðsinna í viðmóti og hjálpsamur í garð annars fólks og hallaði þá ekki á Marianne í þeim efnum. Þau voru að mínu mati samstiga um tilgang og leiðir á lífsins göngu. Sá vegur er ekki alltaf beinn og breiður því á honum eru ýmsar hindranir er við mennirnir glímum við og reynum að vinna bug á. Á annan veg var Björgvin hlédrægur einfari og varð að komast frá fánýti hversdagsins og vera einn með sjálfum sér.

Það urðu okkur mikil vonbrigði er börn okkar slitu samvistir á sl. ári. Þá reyndi mikið á ykkur hjónin sem og mig er rita þessar línur. Á heimili ykkar á Bræðratungu 20 í Kópavogi voru haldnir margir fundir, þá sá ég best hvern mann þú hafðir að geyma sem og Marianne. Tók þetta mikla orku frá okkur öllum, enda málið flókið og jafnframt viðkvæmt á stundum. Síðan hef ég komið alloft á heimili ykkar og alltaf verið tekið með opnum örmum og kærleik í hjarta.

Ég átti góða stund með þér og fjölskyldu þinni laugardaginn 18. ágúst sl. en að kvöldi þess dags sofnaðir þú frá þessu lífi. Við ræddum saman yfir kaffibolla um lífsgátuna, mismunandi örlög manna á þessari jörð.

Ég vissi það, Björgvin minn, að þú hefðir að leiðarljósi trú, von og kærleika og sá á góða heimkomu vísa.

Marianne, Gunnhildi, barnabarni mínu Óskari, Jóhanni og öllum hans ástvinum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Ljósgeisli augna þinna er slokknaður og þú hverfur frá þessari jörð, frá þeirri mold sem allir eru sprottnir frá.

Dauðinn er blanda tíma og eilífðar.

Þegar góður maður deyr eygjum við

eilífðina gegnum tímann.

(Goethe.)

Blessuð sé minning þín.

Eyjólfur Magnússon Scheving.

Gunnhildur.