Helga Kress.
Helga Kress.
Helga Kress, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, sendi nýlega frá sér mikið greinasafn, Speglanir, sem spannar stóran hluta fræðimannsferils hennar.

Helga Kress, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, sendi nýlega frá sér mikið greinasafn, Speglanir, sem spannar stóran hluta fræðimannsferils hennar. ÞRÖSTUR HELGASON ræddi við hana um femínískar bókmenntarannsóknir og þær blendnu viðtökur sem þær hafa fengið hérlendis, íslenska bókmenntafræði sem Helga segir einkennast af teoríufjandskap, Íslendingasögurnar sem hún segir að séu skopsögur, sprottnar af hlátri og slúðri kvenna, höfund Njálu sem hún segir vera tilbúning karlabókmenntafræðinnar og þöggunina sem hún segir erfiðasta við að eiga.

HELGA Kress er vafalítið áhrifamesti femínistinn í íslenskri bókmenntafræði. Hún var fyrst til þess að kynna femínískar bókmenntarannsóknir hérlendis í byrjun áttunda áratugarins og fékk óblíðar móttökur hjá bókmenntastofnuninni. Margir urðu til þess að mótmæla er hún virtist sjá kvennakúgun í flestum verkum samtímahöfunda af karlkyni. Hún sneri sér síðan að íslenskri kvennabókmenntasögu og samhliða því rannsóknum á Íslendingasögum sem hún segir sprottnar af hlátri og slúðri kvenna og fjalla um niðurrif karlmennskunnar og hetjuímyndarinnar. Hún hefur svo haldið því fram að íslensk bókmenntafræði sé fyrst og fremst eins konar karlagrobb þar sem íslenskir karlar í minnimáttarstöðu gagnvart útlendingum hafi verið að slá sér upp á karlmannlegum verkum íslenskra snillinga á miðöldum sem aldrei voru til. Svo virðist sem Helga hafi alltaf verið upp á kant við íslenskan bókmennta- og fræðiheim en hún hefur haldið sínu striki og gefið út fjórar bækur um bókmenntarannsóknir sínar, nú síðast greinasafnið Speglanir á síðasta ári. Hún hefur ritstýrt fjölda bóka með skrifum um og eftir konur, meðal annars Stúlku, með úrvali ljóða eftir íslenskar konur og ýtarlegum bókmenntasögulegum inngangi um ljóðagerð íslenskra kvenna frá upphafi. Þá hefur hún þýtt eitt af brautryðjendaverkum femínismans, Sérherbergi, eftir Virginiu Woolf. Hún hefur verið kennari í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands frá 1980 og gegnir þar nú prófessorsstöðu.

Ég hitti Helgu að máli á heimili hennar vestur í bæ. Hún segist hafa notað tímann til þess að taka til áður en ég kom frekar en að undirbúa viðtalið. "Dæmigert fyrir konu," segir hún og hlær.

Hún kveðst ekki góð í formlegum viðtölum, henni gangi betur að tala við hóp af nemendum. Ég segi henni að hún geti alveg litið á þetta sem kennslustund. Hún er efins og segir að nemendurnir verði að vera fleiri en einn og áhugasamir á svipinn. Ég sé það í hendi mér að Helga gengur ekki að neinu sem gefnu. Ég kem mér beint að efninu.

Að leiðrétta íslenska bókmenntasögu

Helga kveðst fyrst hafa komist í kynni við femínisma og femínískar bókmenntarannsóknir í Noregi, en þangað fór hún með börn sín tvö árið 1973 til að vera sendikennari í íslensku við Háskólann í Björgvin þar sem hún dvaldist í sex ár.

"Það var mjög gott að vera í Björgvin," segir hún. "Við háskólann þar fór fram mikil umræða um kvennabókmenntir og femínisma yfirleitt. Slík umræða var ekki til staðar í Háskóla Íslands þegar ég var þar við nám í íslenskum fræðum, og síðar um þriggja ára skeið lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Ég hafði aldrei heyrt minnst á þessi fræði í námi mínu og var alveg ómeðvituð um þau þegar ég fór til Björgvinjar.

Rauðsokkur voru þá að vísu byrjaðar baráttu sína hér en ég tók lítinn sem engan þátt í henni þótt ég gæti ekki annað en fylgst með af áhuga. Og ég hafði valið mér mjög hefðbundið efni til að skrifa um kandídatsritgerð, viðurkenndan karlhöfund, Guðmund Kamban. Ég hef ekki lesið mikið í þessari ritgerð eftir að hún kom út í ritröðinni Studia Islandica en ég man að ég var í vandræðum með aðferðafræðina og lagði töluverða áherslu á að finna dönskuslettur í verkum höfundarins. Einnig var ég í vandræðum með að finna lýsingarorð til að skreyta með ritgerðina og fór í smiðju til viðurkenndra bókmenntasögufræðinga, svo sem Kristins E. Andréssonar og Sigurðar Nordals, til að finna þau. Síðar komst ég að því að lýsingarorð eru "aumasta kategoría tungumálsins" eins og Roland Barthes heldur fram. Þau eru yfirleitt tóm að merkingu og koma ekki í stað greiningar eins og margir halda. Samt er í þessari ritgerð nokkuð góður inngangskafli um íslensku rithöfundana sem fóru til Danmerkur til að hasla sér völl í útlöndum og er þetta að því er ég best veit fyrsta rannsóknin á því áhugaverða efni, þótt ég fylgdi henni síðan ekki nægilega eftir. Þennan kafla kallaði ég, hefðinni trú, "Væringja", og setti ekkert spurningarmerki við það af hverju þetta voru aðeins karlar. Ég var ekki með neina sjálfstæða stefnu, var ekki búin að finna mér neitt rannsóknasvið. En í Björgvin opnaðist fyrir mér nýr heimur, ekki bara hvað varðaði bókmenntir, heldur líka sjálfa mig. Ég hafði ekki áður hugsað fræðilega um stöðu kvenna. Ég hef samt alltaf verið femínisti, er fædd femínisti og alin þannig upp hjá einstæðri móður. Í Háskóla Íslands var mikið karlasamfélag. Þegar ég var að byrja í námi var ég um tíma eina konan í deildinni og ég var vandlega sett út á jaðarinn.

Strákarnir sem voru þarna fyrir og mér þótti bæði merkilegir og gáfaðir voru með klúbb sem þeir kölluð "gotneskuklúbbinn". Þeir hittust einu sinni í viku eða svo og lásu saman gotnesku. Mér datt ekki annað í hug en ég mætti að vera með en það var misskilningur. Þeir vildu ekki fá slíkt aðskotadýr sem konu í félagsskapinn. Mér tókst nú samt að læra gotnesku og stóð mig yfirleitt frekar vel í skólanum. Meðal annars fékk ég þau hrósandi ummæli á lokaprófi hjá einum prófessornum að ég væri bæði valkyrja og hefði karlmannsvit. En að hafa karlmannsvit var það mesta hrós sem hægt var að viðhafa um konu. Í lokaprófinu var ég komin átta mánuði á leið með dóttur mína, svo að kynferðið fór ekki á milli mála. Ég var mjög ánægð með að hafa karlmannsvit og sá ekkert athugavert við þessa málnotkun fyrr en með augum femínismans síðar." Og íslenskar bókmenntir hafa væntanlega litið öðruvísi út frá þeim sjónarhóli. Hvað fannst þér brýnasta verkefnið þegar þú horfðir heim?

"Mig langaði til að leiðrétta íslenska bókmenntasögu frá grunni og endurskrifa hana. Ég hef líka alltaf verið stríðin og finnst gaman að stríða körlum með vitleysunum í þeim."

"Vertu suverén"

Helga byrjaði verkefnið á því að skrifa um samtímabókmenntir og segist einkum hafa verið að gagnrýna það hvernig karlhöfundar lýstu konum í verkum sínum. Fyrsta greinin sem hún birti um kvennarannsóknir í bókmenntum var á norsku og heitir "Kvinne og samfunn i noen av dagens islandske prosaverker." Greinin var byggð á fyrirlestri sem Helga hélt á ráðstefnu "International Association for Scandinavian Studies" í Reykjavík sumarið 1974 og birtist ári síðar í ráðstefnuritinu. Í greininni er fjallað um hlutverk kynja í verkum nokkurra samtímahöfunda, meðal annars Indriða G. Þorsteinssonar. Helga segir í formála að Speglunum að greinin hafi vakið töluverð viðbrögð, "einkum hjá karlrithöfundum sem þótti á einhvern hátt að sér vegið." Hún bendir á smásögu eftir Indriða sem birtist sama ár en þar sé vikið að mjög svo ókvenlegum kvenbókmenntafræðingi með nafni sem sýnir að ekki fer á milli mála við hvern er átt. Jökull Jakobsson segir Helga að hafi fylgt í fótspor Indriða og notað sömu aðferð í skáldsögu ári síðar "með kafla um svipaðan kvenbókmenntafræðing sem er ekki bara ókvenleg, heldur einhvers konar kynskiptingur með skegg og situr fyrir konum í gufubaði!" Hún segir að þetta vandræðalega gufubað hafi síðan verið túlkað sem allegorísk goðsögn um véfréttina í Delfi, "en það held ég að sé nú að seilast einum of langt í lærdómi!"

Í framhaldi af þessari frumraun Helgu skrifaði hún nokkrar greinar í Skírni um konur í bókmenntum að beiðni og hvatningu ritstjórans Ólafs Jónssonar.

"Þessar greinar vöktu líka viðbrögð. Fyrsta greinin fjallaði um hefðbundna og borgaralega hlutverkaskiptingu kynjanna í annars samfélagslega róttækri skáldsögu eftir Véstein Lúðvíksson. Höfundurinn svaraði með grein í Tímariti Máls og menningar undir titlinum "Mikil vísindakona smíðar sér karldjöful" þar sem hann veittist meir að fræðikonunni en fræðum hennar.

Einnig andmælti Halldór á Kirkjubóli, einn aðalhugmyndafræðingur Framsóknarflokksins, þessari grein í Tímanum og notaði sömu persónulegu aðferðina. Þarna gátu karlarnir sameinast gegn konunni! Ég var að gera drög að svargrein þegar ég fékk bréf frá Halldóri Laxness þar sem hann meðal annars víkur að skrifum þeirra félaga og segir að sér hafi dottið í hug að ég ætlaði að fara að svara þessu. "En það skaltu ekki gera," sagði hann, "því að ef þú ætlar að fara að svara öllu því skítkasti sem þú átt eftir að verða fyrir á ævinni, þá gerirðu ekkert annað." "Vertu súverén," bætti hann svo við, það er að segja hefðu þig yfir þetta. Ég var mjög fegin þessu ráði, henti pistlinum í ruslið og hef síðan ekki hirt um að taka þátt í svokölluðum "ritdeilum" sem eru sjaldnast annað en persónulegt þras. Íslendingar eiga nefnilega mjög erfitt með að gera greinarmun á mönnum og málefnum og reyna að gera persónur tortryggilegar í stað þess að ræða málefnið.

Ég gat þó ekki annað en skrifað langa grein um kerlingabókanafngiftina í Tímarit Máls og menningar en þar hafði Sigurður A. Magnússon haldið því fram að þessi nafngift, sem um tíma var mjög vinsælt skammaryrði um lélegar bókmenntir, væri ekki niðrandi um konur eða bækur eftir þær, eins og ég hafði bent á í inngangi að safninu Draumur um veruleika. Sögur um og eftir íslenskar konur sem ég tók saman og kom út haustið 1977.

Það er annars athyglisvert að Tímarit Máls og menningar sem var róttækt menningartímarit, meðan það var og hét, reyndist ekki svo þegar um femínisma var að ræða og varð aðalvettvangur skrifa gegn femínskum viðhorfum og bókmenntarannsóknum. Sósíalistarnir sem að því stóðu virtust sjá einhverja ógn í femínismanum, einhverja ögrun við karlmennskuna í vinstribaráttunni. Þar með er ekki sagt að aðrir hafi verið neitt betri! Maður gerir bara meiri kröfur til þeirra sem eru róttækir og vilja samfélagsbreytingar, að minnsta kosti ég."

Vald tungumálsins

Elsta greinin í Speglunum er ein þessara greina sem Helga skrifaði í Skírni og fjallar um stöðu kvennarannsókna í bókmenntum á þeim tíma sem greinin er skrifuð, það er 1977.

"Aðferðafræði við femínískar bókmenntarannsóknir var mikið á döfinni á þessum tíma og margar spurningar sem þurfti að svara um hvaða aðferðum ætti að beita. Þar tókust á þrjár meginstefnur, forskriftarstefnan svokölluð, hugmyndafræðistefnan, og vitundargreiningin. Hér á landi töldu margir að fræðin snerust eingöngu um það hvernig konum ætti að lýsa í bókmenntum og hvað þær mættu gera. Helst ættu þær að vera sterkar og frjálsar, forstjórar og skipstjórar eða í öðrum karlastörfum. Fræðin ættu þannig að gefa forskrift að bókmenntaverkum sem yrðu að hlíta henni. Þetta var auðvitað alls ekki þannig, heldur var megináhersla lögð á að rannsaka þær hugmyndir sem komu fram í bókmenntum um stöðu og hlutverk kvenna og einnig hvernig konur sjálfar lýstu reynslu sinni og upplifun í eigin bókmenntum. En síðan hafa rannsóknirnar þróast frá því að athuga stöðu kvenna í samfélaginu til þess að athuga stöðu þeirra í tungumálinu. Er þar gengið út frá þeirri kenningu að það sé í tungumálinu sem vitund okkar mótast og hugmyndirnar um okkur sjálf í heiminum."

En hefur skilgreiningin á kvennabókmenntunum eitthvað breyst við þessa breyttu nálgun?

"Kvennabókmenntir sem hugtak eru sem áður einfaldlega bókmenntir eftir konur. En þær eru hins vegar ekki eina viðfangsefni femínískra bókmenntarannsókna heldur konan í tungumáli hvaða texta sem er, óháð því eftir hvort kynið hann er. Og reyndar er ekki bara verið að athuga konuna í textanum, heldur einnig og ekki síður kvenleikann sem í honum birtist og vandamál kynferðisins sem slíks. En konur og kvenleiki eru tvö mismunandi en þó skyld hugtök. Karlar geta nefnilega verið kvenlegir, eins og til að mynda skáld og aðrir listamenn, og þeir hafa í sér kvenlega eiginleika sem karlmennskan leitast oft við að bæla. Ýmsir táknfræðingar, eins og til dæmis Roland Barthes, ganga svo langt að segja að skáldlegt mál sé í raun kvenlegt, að í skáldskapnum sé kvenleikinn að verki. Þegar ég fyrir nokkrum árum ræddi um þetta í opinberum fyrirlestri í Háskólanum reis upp viðurkenndur karlrithöfundur meðal áheyrenda og mótmælti því kröftuglega að hann væri kona! Gott ef hann barði ekki í borðið. Honum þótti það augljóslega töluverð svívirðing að vera kvenkenndur. En þetta er nú ekki meint svo bókstaflega, heldur er hér um að ræða ákveðinn greinarmun á hinu formlega og karllega tungumáli samfélagsins, kerfisins, karlveldisins, sem leitast við að hafa eina og ákveðna merkingu, og svo hinum kvenlega, flæðandi og margradda tungumáli skáldskaparins. Þessi ótti rithöfundarins við að vera sagður kvenlegur kemur hins vegar heim og saman við rannsóknir mínar á íslenskum fornbókmenntum sem sýna að karlarnir í þeim óttast varla annað meir en vera sagðir kvenlegir. Þá svíður undan tungumálinu, ef svo má segja.

Þegar ég skrifaði fyrstu grein mína um íslenskar fornbókmenntir árið 1977 sem nefnist "Ekki höfum vér kvennaskap" og fjallaði um karlmennsku og kvenhatur í Njálu, var ég uppteknari af því að athuga þá samfélagslegu afstöðu til kynja sem sagan lýsir en stöðu kynjanna í tungumálinu og textanum sem slíkum. Þetta var fyrir tíma táknfræðinnar en hún skipti sköpum í rannsóknum mínum og áherslum. Í greininni gekk ég út frá höfundarhugtakinu fremur en textanum sjálfum og tók því ekki eftir því mikla háði á karlmennskuna sem felst í tungumáli sögunnar. Þessi grein sem er endurbirt í safninu Fyrir dyrum fóstru frá 1996 er því allt öðru vísi en aðrar og síðari greinar í því safni sem allar fjalla um íslenskar fornbókmenntir. Í henni leit ég á Njálu sem hetjusögu, andstætt til að mynda Fóstbræðrasögu sem ég skrifaði um á svipuðum tíma og leit á sem skopstælingu á sögur eins og Njálu. Síðan sá ég að einnig Njála er skopsaga. Það þarf í raun ekki annað en lesa textann vel og taka mark á honum til að sjá að í sögunni er ekki síður en í Fóstbræðrasögu verið að gera grín að karlmennsku og hetjuskap, eins og reyndar öllum öðrum Íslendingasögum. Karnivalið er einkenni á bókmenntategundinni."

Kynferði og karnival

Á seinni hluta áttunda áratugarins tók Helga sem sagt að snúa sér að íslenskum fornbókmenntum. Hún segist fljótlega hafa misst áhugann á íslenskum samtímaskáldsögum eftir karla, ekki fundist textinn nógu spennandi.

"En Íslendingasögur eru bókmenntir á heimsmælikvarða og ótrúlega auðugur, myndrænn og skapandi texti. Það sem einkennir þennan texta er karnivalið og hvernig það tengist kynferði. Hvað varðar karnivalið styðst ég við kenningar rússneska formalistans Mikhail Bakhtin um karnivalska menningu miðalda og endurreisnartímabilsins sem hann setur fram í klassísku riti sínu um franska höfundinn Rabelais. Karnival er sjónarspil þar sem öllu ægir saman og það einkennist af ýkjum, ofgnótt og fantasíu. Hátt verður lágt, andlegt verður líkamlegt, upp verður niður. Megineinkenni á karnivölskum texta er gróteskt myndmál sem leggur sérstaka áherslu á líkamann, einkum neðri hluta hans, líkamsparta og líkamsstarfsemi, það sem á líkamanum dynur, í hann fer og úr honum gengur. Mikið er um limlestingar og aflimanir, hamskipti, gervi, pretti og plat. Í karnivalinu er einnig mikið um sennur og munnsöfnuð, heitstrengingar, skopstælingar, írónu og slúður. Samnefnarinn sem öll atriði karnivalsins og jafnframt gróteskunnar ganga upp í er hláturinn. Karnivalið snýr opinberri menningu samfélagsins á haus og skopast að valdinu. Eins og margir aðrir fræðikarlar er Bakhtin haldinn þeirri kynblindu að honum dettur ekki í hug að tengja karnivalið við kynferði. Og því sér hann hvorki kvenlega uppsprettu þess né þá afbyggingu á karlasamfélaginu sem í karnivalinu felst. Í íslendingasögum tengjast hláturinn og slúðrið en hvort tveggja á sér uppsprettu hjá konum. Það eru þær sem bæði hlæja að körlum og slúðra um þá og bera slúðrið milli bæja þar sem það verður að sögum."

Höfundur Njálu er ekki til

Í titli síðustu greinarinnar í Speglunum, "Mikið skáld og hámenntaður maður," sem fjallar um íslenska skólann í íslenskri bókmenntafræði, vísar Helga írónískt til orða Sigurðar Nordals um höfund Hrafnkelssögu. Í þessari grein heldur Helga því fram að íslensk bókmenntafræði hafi allt fram á þennan dag einkum snúist um höfundarhugtakið og að þessi höfundur sé vitaskuld alltaf karlkyns. "Íslensk bókmenntafræði er mjög íslensk," segir í greininni, og "fæst svo til eingöngu við íslenskar bókmenntir, og þá einkum íslenskar fornbókmenntir sem löngum hafa verið taldar "merkasta framlag Íslendinga til heimsbókmenntanna"." Að mati Helgu hefur þessi bókmenntasögulega sjálfsánægja íslenskra bókmenntafræðinga gert þá frábitna teoríu sem sé bæði útlensk og erfið, ef ekki hættuleg. "Ef menn fara að setja sig inn í teoríu kunna þeir nefnilega að þurfa að hugsa ýmislegt upp á nýtt," segir hún og brosir við. Til áréttingar tekur hún dæmi af hinum svokallaða "íslenska skóla" íslenskrar sagnaritunar í greininni, en hann breytti höfundarlausum Íslendingasögum í höfundarverk.

"Höfundurinn varð aðalmarkmið rannsóknanna og um leið endanleg merking þeirra," segir Helga, "snilld hans, viska, menntun, siðfræði, boðskapur og ætlun með verkinu. Höfundarnir sem komu í leitirnar, með eða án nafns, eru undantekningarlaust lærðir karlar, menntaðir í útlöndum sem vegna ættjarðarástar snúa aftur heim til að skrifa þessar miklu bókmenntir."

Leitin að höfundi Njálu hefur verið eins konar leiðarstef íslenskar bókmenntafræði. Hefur það verk verið til einskis?

"Það segir auðvitað mikið um mentalítet fræðanna en það segir ekkert um bókmenntirnar. Njáluhöfundur er ekki til. Hann er tilbúningur og nauðsyn þeirra sem vilja sýna fram á að Íslendingar, þótt fáir séu og smáir, hafi átt sér snillinga. Það er einhver einstaklingshyggja og mikilmennskudýrkun í þessu. En Njála er eins og aðrar Íslendingasögur sprottin úr munnmælum alþýðunnar, eins og þeim sem Bakhtin segir að karnivalið og gróteskan séu sprottin úr. Þessar sögur eiga sér gamlar rætur og þær berast og breytast í munnmælum þar til þær eru skráðar niður seint á þrettándu öld af sagnariturum sem ritstýra þeim og færa í stílinn, fella burt eða bæta við. Þar með er ekki sagt að sögurnar séu sagnfræðilega sannar, þær eru fyrst og fremst skáldskapur þótt sumar þeirra kunni að einhverju leyti að byggja á þekktum atburðum eða persónum, svona á svipaðan hátt og sögulegar skáldsögur síðari tíma. Í Íslendingasögum er mikill hlátur og það er hlegið að hetjuhugmyndinni og valdinu, og karlmennskunni sem heldur þessu uppi.

Textinn er því ekki bara fyndinn og skemmtilegur, hann er hættulegur valdinu þar sem hann rífur það niður með skopi og sýnir fram á fáránleika þess og hvernig það er búið til. Hetjurnar eru ekki hetjur, þær eru að leika hetjur. Með öllu sínu sprelli, húmor og fantasíu verða sögurnar fyrir bragðið miklu betri en ef þær eru lesnar sem alvarlegar og einradda hetjubókmenntir sem lokar á aðrar túlkunarleiðir."

Mengun teoríunnar

Í þessari grein um íslenska skólann í íslenskri bókmenntafræði sem er frá 1994 talar þú um að áherslan á höfundinn hafi útilokað aðra teoríu og að í raun og veru einkennist íslensk umræða um bókmenntir af teoríufjandskap. Telur þú að þetta eigi við enn?

"Það gerist því miður ekki mikið á sjö árum, og umfjöllun um íslenskar bókmenntir er þar að auki mjög íhaldssöm. Enn er teoría talin útlensk og ekki eiga við íslenskar bókmenntir, gott ef hún ekki mengar þær. Svo er einhver mikil tilhneiging til að líta á bókmenntir sem veruleika, það er litið fram hjá tungumálinu sem þær eru búnar til úr en einblínt á atburðarás og persónur eins og þær eigi heima í næsta húsi. Þannig er til að mynda enn talað um persónur Njálu eins og þær hafi verið til og Njála sé bara skýrsla um þær, í stað þess að líta á þær sem táknmyndir í texta. Voru þeir Gunnar og Njáll ekki í rauninni samkynhneigðir? Var Hallgerður ekki í rauninni femínisti? Elskaði Guðrún ekki í rauninni Bolla? Jón Karl Helgason hefur í sinni ágætu bók Hetjan og höfundurinn haldið því fram að höfundurinn hafi tekið við af hetjunni sem aðalpersóna íslenskrar bókmenntasögu og á þetta mjög vel við um íslenska skólann. Mér sýnist hins vegar þessi færsla vera að ganga til baka.

Annars er heimur íslenskrar bókmenntafræði afskaplega lítill og takmarkaður. Það eru fáir sem fást við bókmenntafræði sem byggist á rannsóknum og heimildavinnu. Miklu fleiri fást við að kynna bókmenntir, ritdæma þær og rabba um þær í fjölmiðlum. Segja hvað þeim finnst. Þannig geta allir verið bókmenntafræðingar. Í umræðunni er ekki gerður mikill greinarmunur á þessu. Fámennið háir okkur á þessu sviði eins og mörgum öðrum. Fræðileg samræða er almennt lítil sem engin, að ekki sé minnst á umræðu um femínskar rannsóknir sem er ansi frumstæð. Það er eins og alltaf þurfi að byrja upp á nýtt. Það er enn verið að mótmæla því að konur hafi verið kúgaðar og enn þarf að vera að útskýra það. Í alþjóðlegu samhengi er söguleg kúgun kvenna útgangspunktur sem ekki þarf lengur að ræða. Og svo er það lummman: Ertu karlhatari? Þetta getur verið alveg ótrúlega þreytandi og leiðinlegt."

Aðgreiningin

Menn spyrja líka iðulega hvort aðgreining milli karla- og kvennabókmennta sé nauðsynleg?

"Þetta er einmitt ein af spurningunum sem alltaf þarf að vera að svara. Það er eins og femínisminn standi fyrir aðgreiningunni. Hér er hlutunum snúið á hvolf. Aðgreining og mismunun kynjanna er til staðar í menningunni og sköpuð af henni og markmið femínismans er einmitt að upphefja þessa aðgreiningu og eyða mismununinni. Svo að tekið sé dæmi af íslenskri kvennabókmenntasögu, sem hefur lengi verið annað meginrannsóknasvið mitt, þá er auðvelt að sjá að konur og bókmenntir þeirra hafa verið gerðar ósýnilegar í hinni opinberu og viðurkenndu bókmenntasögu. Þar er ekki fjallað um þær frekar en þær séu ekki til. Þegar best lætur er einnar konu getið sem "fulltrúa kynsins". Hér held ég þó að skrif kvennabókmenntafræðinnar hafi haft áhrif því að þetta er að breytast.

Enn eru þó konur teknar saman í eina kippu aftast í umfjöllunum og meir rætt um þær sem konur en rithöfunda. Mestan áhuga vekja þær sem fjalla um kynlíf. Viðhorf til bókmennta eftir konur endurspeglast ágætlega í viðtökum sem ég fékk þegar ég leitaði að útgefanda að Sérherbergi eftir Virginiu Woolf, en það er klassískt rit um konur og bókmenntir eftir heimsfrægan breskan rithöfund, að vísu konu, og grundvallarrit um femínískar bókmenntarannsóknir. Ég sendi virðulegu og rótgrónu útgáfufélagi bókina á ensku með tillögu um að hún yrði gefin út í fræðiritaflokki þess en höfundar þeirra rita voru og eru enn eingöngu karlar.

Ég fékk bókina snarlega til baka með þeim ummælum skrifuðum á bréfsefni félagsins að það væri nóg þýtt af lélegum rómönum fyrir kerlingarnar í frystihúsunum þótt þessi bættist ekki við. Það var augljóst að þetta menntaða forlag hafði ekki hugmynd um hver Virginia Woolf var og vafasamt að bókin hafi svo mikið sem verið opnuð. En þýðingin var síðan gefin út af öðru forlagi og seldist strax upp, hvort sem það hafa verið kerlingarnar í frystihúsunum sem keyptu hana eða einhverjar aðrar kerlingar."

Þöggunin

Sú opna andstaða sem femínískar bókmenntarannsóknir mættu í upphafi hefur að mati Helgu breyst í það sem hún kallar þöggun.

"Hana er erfiðara við að eiga þar sem hún kemur ekki eins skýrt upp á yfirborðið og því síður hægt að takast á við hana. Þessi þöggun á ýmislegt skylt við þöggun á kvenrithöfundum og konum í texta og hún kemur fram með ýmsu móti. Þegar best lætur nýta karlar sér rannsóknaspurningar og kenningar kvennafræðinnar og innlima þær þannig í fræði sín, en nota bene án þess að geta þess hið minnsta. Algengast er þó að femínískar bókmenntarannsóknir séu algerlega sniðgengnar, jafnvel eins og þær séu bara alls ekki til. Hvort tveggja þetta minnir óneitanlega á orð hetjunnar Þorgeirs Hávarssonar í Fóstbræðrasögu sem taldi það svívirðingu síns krafts "að hokra að konum".

Það er undantekning ef vitnað er til kvennabókmenntafræðinga í viðurkenndum fræðiritum hefðarinnar, eða tekið nokkurt mið af þeim. það þýðir til að mynda lítið fyrir femíníska bókmenntafræðinga, en hingað til eru þær svo til eingöngu konur, hvernig sem á því stendur, að leiðrétta bókmenntasögulegar villur. Það er ekki tekið neitt mark á því. Best að hafa þetta allt eins og það var og karlarnir ákváðu. Sem dæmi má nefna tilraun mína til að leiðrétta eina frægustu málvillu íslenskrar bókmenntasögu sem fyrirfinnst í kvæðinu "Eldgamla Ísafold" eftir Bjarna Thorarensen, sem lengi var notað sem þjóðsöngur Íslendinga. Í öllum prentuðum útgáfum kvæðisins segir á mjög svo merkingarbærum stað að "gumar girnast mær", það er að segja karlar girnast konur og er þá nefnifallið mær útskýrt sem málvilla hjá Bjarna sem hafi verið ósýnt um rétt mál og ruglað saman nefnifalli eintölu og þolfalli fleirtölu. Í eiginhandarriti hans stendur hins vegar skýrum stöfum að "guma girnist mær", það er að konan girnist karlana. Í greininni "Guma girnist mær" í Speglunum sýni ég fram á þetta og að mærin í kvæðinu sé fjallkonan sem elski syni sína og vilji fá þá aftur til sín frá útlöndum. Þessi rétti og upprunalegi lesháttur er því ekki nein "ósmekkleg hugsun" eins og Sigurður Nordal og fleiri töldu þegar þeir höfnuðu leshættinum og völdu málvilluna, mærin er ekki nein gleðikona sem girnist karla eins eftirsóknarverðir og þeir nú eru, heldur landið sjálft. Hér hefur kynblindan villt um fyrir útgefendum. Svo óhugsandi hefur það verið að kona gæti verið gerandi í texta. Karl skal það vera."