Arngunnur Ýr Gylfadóttir myndlistarkona við eitt verka sinna.
Arngunnur Ýr Gylfadóttir myndlistarkona við eitt verka sinna.
ÞAÐ er bjartur og rómantískur heimur sem opnast manni í bílskúr í Breiðholtinu.

ÞAÐ er bjartur og rómantískur heimur sem opnast manni í bílskúr í Breiðholtinu. Skapari þessa heims er Arngunnur Ýr Gylfadóttir, en í gærkvöldi flutti hún þessa tólf mynda veröld sína með sér niðrí Bankastræti, þar sem hún verður til sýnis á veggjum Sævars Karls. Þetta eru tólf myndir málaðar með olíulitum, flestar á tré en nokkrar á striga. "Það þýðir ekkert fyrir mig að vinna lengur á striga því ég vinn myndirnar svo í þaula, að striginn þolir það ekki. Mér finnst líka skemmtilegt að vinna á tré, því það er svolítið í anda gömlu málaranna og aldagamalla hefða."

Viðfangsefni Arngunnar Ýrar er líkt og tálsýnir; - bjartir draumar sem við vitum ekki hvort nokkrun tíma muni rætast. "Það er markviss boðskapur að baki myndanna minna og ég er búin að þaulhugsa þær áður en ég byrja að vinna þær. En þá leyfi ég líka tilviljunum að gerast og það er mikilvægt fyrir mig. Þessar myndir er ég gagngert að gera rómantískar vegna þess að ég vil vekja upp spurninguna um það hvort það þýði nokkuð að vera rómantískur. Þú sérð að rómantíkin er öll að eyðast og breytast, og spurningin um rómantíkina er sú að við erum stöðugt að láta okkur dreyma og vona; - gera okkur væntingar um fólk, staði, aðstæður og slíkt; en svo verða hlutirnir kannski öðru vísi en við vonuðumst til. Þetta er ekki svartsýni hjá mér; - meira hugsað sem húmor. Það er allt fallvalt. Ég hef gaman af því að tefla saman andstæðum; bæði hugmyndafræðilegum andstæðum og andstæðum í efni og myndefni. Og fyrir mig er það mikilvægt að þetta sé spennandi og sé svolítill leikur. Þetta eru líka vangaveltur um tíma. Allt er breytingum háð og hlutirnir þróast.

Allt og ekkert

Sem dæmi um andstæðurnar reyni ég mjög markvisst að láta myndirnar tæla áhorfandann inn, en um leið að gera þær fráhrindandi, þannig að það er stöðugt verið að varpa fram spurningum til áhorfandans. Þess vegna kalla ég sýninguna Allt og ekkert. Það er hægt að horfa á þessar myndir og sjá í þeim margt djúpt og flókið, en um leið er hægt að horfa á þær og sjá eitthvað sem er ekki mjög merkilegt. Enn annað sem ég velti fyrir mér er verðmætamat og verðgildi listarinnar. Listaverk eru auðvitað ekkert nema hlutir sem eiga eftir að eyðast og sjálf er ég þannig sinnuð, að mér finnst fólk ekki þurfa að eiga alla hluti. Sjálf vil ég frekar upplifa hluti í lífi mínu. Þannig er líka tvískinnungur í því að ég sé að búa til hluti sem eru dýrir og ekki hver sem er hefur efni á að kaupa. Það þykir fínt að eiga málverk. Þannig að hæðnin í verkunum snýr líka að þessu gildismati eins og rómantíkinni." Á myndum Arngunnar Ýrar sést móta fyrir sjóndeildarhring þar sem haf og himinn mætast langt í fjarska. Óvænt skemmdarský trufla þessar rómantísku víddir, og maður er ekki lengur viss hvort myndin sé að tærast upp eða hverfa. "Það er ekkert land að sjá, og engin festa. Maður getur upplifað það eins og maður sé týndur, - eða að maður viti ekki hvert ferðinni sé heitið; - það er mikið frelsi í því."

Sýning Arngunnar Ýrar verður opnuð kl. 14 í dag og stendur í þrjár vikur.