Bjarni Sigurbjörnsson kemur verkum sínum fyrir í Hafnarborg.
Bjarni Sigurbjörnsson kemur verkum sínum fyrir í Hafnarborg.
SÝNING á nýjum verkum eftir Bjarna Sigurbjörnsson verður opnuð í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar í dag, laugardag, kl. 16. Þetta er umfangsmesta sýning Bjarna til þessa og verður hún í öllum sýningarsölum hússins.

SÝNING á nýjum verkum eftir Bjarna Sigurbjörnsson verður opnuð í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar í dag, laugardag, kl. 16. Þetta er umfangsmesta sýning Bjarna til þessa og verður hún í öllum sýningarsölum hússins. Sýninguna nefnir hann Ekkert.

"Í verkum Bjarna má sjá kröftuga tjáningu. Hann málar á plexigler með blöndu af olíulitum og vatni, efnum sem hrinda hvort öðru frá sér og skilja svo eftir ummerki um þau átök á myndfletinum sem í mörgum verkanna er gríðarstór," segir í kynningu safnsins.

Um aðferð sína segir Bjarni: "Ég lít á mig sem eins konar garðyrkjumann sem kemur gróðri af stað og reynir síðan að hlú að honum eftir bestu getu. Ég aðstoða málverkið þar sem það er að vaxa fram en reyni ekki að halda algerri stjórn á því. Hver hreyfing mín ákvarðast af hreyfingunni á undan og þær mynda net hreyfinga á gegnsæjum fletinum gegn teikningu vatnsins. Það er engin áætlun, ekkert uppkast, og ekkert er fyrirfram ákveðið nema stærðin og efnis- og litavalið."

Í sýningarskrá er einnig inngangur eftir Jón Proppé þar sem verk Bjarna eru sett í listsögulegt samhengi og fjallað um erindi þeirra til samtímans.

Bjarni hefur haldið allmargar einkasýningar í listhúsum hér á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur líka tekið þátt í samsýningum. Sýningin í Hafnarborg nýtur fjárstuðnings frá Marel hf. sem jafnframt kostar gerð sýningarskrár.

Ljósmyndasýning í kaffistofunni

Í kaffistofu Hafnarborgar verður Andri Egilitis frá Lettlandi með ljósmyndir. Viðfangsefni hans er landslagið.

Sýningarnar standa til 24. september og er opin alla daga nema þriðjudaga frá 11-17.