[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BREIÐHENT eða breiðhenda er afar reglulegur háttur. Allar línur hans eru með fjórum kveðum (réttum tvíliðum) og ríma tíðast á víxl.

BREIÐHENT eða breiðhenda er afar reglulegur háttur. Allar línur hans eru með fjórum kveðum (réttum tvíliðum) og ríma tíðast á víxl. Jón Helgason orti kvæði sitt Á fjöllum undir þessum hætti en það hefst svo:

Ofar stend ég efstu grösum,

allt hið græna land er horfið.

Hreggsins þjöl á hörðum snösum

hefur gneypar myndir sorfið.

Regluleg hrynjandi þessa háttar var ekki ný af nálinni í íslensku. Af henni hafði hrynhendur háttur þegið nafn sitt en undir honum sungu Íslendingar drottni lof um aldir. Hrynhenda er annars ólík breiðhendu þar sem hún er dróttkvæður háttur með hendingarími og átta braglínum. Erlendir hættir sumir sýnast ekki síður skyldir breiðhendu, til dæmis Kalevalahátturinn finnski og spænska romansan. Hvorugur þeirra hátta hefur þó endarím en sá finnski hefur óreglulega stuðlasetningu og sérhljóðarím er nokkurt einkenni á spænsku rómönsunni og undir þeim hætti orti skáldið Federico Garcia Lorca mörg sinna bestu ljóða.

Breiðhenda er tiltölulega ungur rímnaháttur. Mun séra Jón Magnússon í Laufási (1601-1675) hafa orðið einna fyrstur til að yrkja undir henni heila rímu en það var ekki fyrr en með Sigurði Breiðfjörð á fyrri hluta 19. aldar sem farið var að kveða að ráði undir þessum hætti og það var einmitt Sigurður sem lék sér að flestum afbrigum breiðhendunnar. Varð hringhenda breiðhend fljótlega vinsæl og er þessi aðsenda vísa útnesjamanns dæmi þess háttar:

Fjörðinn skára votir vindar,

villtar bárur ýfa sæinn,

hrikta rár og háir tindar,

herðir Kári veðraslaginn.

Breiðhenda frumhend var einnig nokkuð notuð og undir þeim hætti kvað Skúli Guðmundsson alþingismaður þessa afmælisvísu til Baldurs bónda á Ófeigsstöðum:

Þú átt mætra manna hylli,

margar gleðistundir vísar.

Ágætt sæti átt þú milli

eiginkonu og ljóðadísar.

Stafhent eða stafhenda er ferkvæður háttur eins og breiðhent en sá er munurinn að allar braglínur hennar eru stýfðar auk þess sem rímið er ekki víxlrím heldur runurím eða kannski réttara sagt parrím. Þar ríma fyrsta og önnur lína annars vegar og hins vegar þriðja og fjórða lína. Er þessi aðsenda vísa útnesjamanns dæmi um háttinn óbreyttan:

Senn mér líður svefn á brá,

sígur nóttin yfir þá.

Dökka, höfga draumaveig

drukkin skal í einum teig.

Hátturinn kemur þegar fyrir í gömlum rímum og er ekki ólíklegt að hann eigi rætur að rekja til runhends háttar. Fjölmörg afbrigði urðu til af honum. Stafhent mishent varð til dæmis algengur háttur en undir honum er þessi vísa síra Hannesar Bjarnasonar á Ríp:

Höfði jalli hærri sá

hann á palli fyrri lá,

kufli sveipast svörtum réð

svarðar reipi gyrtur með.

Og Sveinbjörn Beinteinsson yrkir í Háttatali sínu eftirfarandi stafhendu framsneidda:

Ljósa dísin ljóðamáls,

lokkar stukku þér um háls;

bjarma hvörmum fríðum frá

fagurlogar sendu þá.

Skylt er að lokum að biðjast afsökunar á leiðri villu sem slæddist inn í seinasta þátt þar sem myndir víxluðust milli langhendu óbreyttrar og nýhendu óbreyttrar.

Vísur frá lesendum

Lesendur eru hvattir til að senda inn vísur undir ofangreindum bragar-

háttum í gegnum vefsíðuna www.ferskeytlan.is eða í pósti með

utanáskriftinni:

Vísnaþáttur Ferskeytlunnar,

Ferskeytlan,

Háholti 14,

270 Mosfellsbær

Kristján er íslenskufræðingur og Jón Bragi verkfræðingur.