Fræðimenn telja að fiskar "finni til" á einhvern hátt.
Fræðimenn telja að fiskar "finni til" á einhvern hátt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í vikunni sem er að líða fjallaði Vísindavefurinn um hvaða eldfjall hefur gosið mest, af hverju villikettir teljist ekki til landlægra spendýra hér á landi, í hvaða matvælum frumefnið litín sé helst að finna og hvað orðin sjálfbær þróun þýða svo fátt eitt sé nefnt.

Taugafræði fiska er, eftir því sem næst verður komist, mjög illa þekkt. En samt verður hér gerð tilraun til að svara spurningunni eftir fremsta megni.

Við getum á engan hátt sett okkur í spor svo fjarskyldra lífvera sem fiska hvað varðar tilfinningar eins og sársauka. Þó hafa rannsóknir sem fela í sér samanburð á taugakerfi fiska og spendýra sýnt að það svæði mannsheilans sem vinnur úr sársauka á sér ekki hliðstæðu í fiskum. Það svæði heilans í fiskum sem miðlar boðum um viðbragð, til dæmis þegar fiskurinn festist við öngul, reynir að rífa sig lausan úr kjafti afræningja eða lendir í öðrum aðstæðum sem okkur er tamt að tengja við "sársauka", er í afturhluta heilans en svæðið sem vinnur úr sársauka okkar er í framhluta heilans.

Vísindamenn sem hafa rannsakað fyrirbærið "sársauka" í ýmsum hópum dýra álykta sem svo: Uppbygging þeirra hluta taugakerfisins sem hafa með úrvinnslu áreitis að gera er í meginatriðum ólík milli fiska og spendýra. Þess vegna hljóta fiskar að skynja "sársauka" á allt annan hátt en við mannfólkið, enda er æði langt síðan við greindumst frá fiskum í þróunarsögunni.

Í þessum orðum felst þó það að þeir fræðimenn sem hafa mesta þekkingu á þessu sviði telja að fiskar "finni til" á einhvern hátt, það er að segja að einhver örvun á sér stað í taugakerfi þeirra þegar þeir eru "pyntaðir" af rannsóknarmönnum eða verða fyrir hliðstæðu áreiti í náttúrunni. Tilfinnanlega skortir þó á þekkingu fræðimanna á þessu sviði eins og áður segir.

Jón Már Halldórsson.

Munu sjórinn og vindurinn einhvern tímann brjóta Ísland niður þannig að það verði að engu? SVAR:

Ástæða þess að sjór og vindur munu ekki eyða Íslandi er sú að hér verður stöðug nýmyndun lands. Nýja landið er oft varanlegt ólíkt því sem gerist til dæmis í Surtsey en hún myndaðist í eldgosi fyrir tæpum 40 árum og verður sennilega horfin í hafið eftir 100-200 ár.

Þar til fyrir um 62 milljónum ára voru Bretlandseyjar og Grænland hluti af einu meginlandi. Síðan klofnaði meginlandið og Norður-Atlantshafið tók að myndast jafnframt því sem mikil eldgos urðu sem hlóðu basalti (blágrýti) ofan á meginlandsbrúnirnar sitt hvorum megin við hafið. Þær myndanir sjást nú í Skotlandi, Írlandi, Færeyjum og Austur-Grænlandi. Mest var eldvirknin þó á einum stað, þar sem nú er Ísland. Meðan Norður-Atlantshafið var mjórra en 300-400 km hefur verið landbrú milli Grænlands og Evrópu. En þegar hafið gleikkaði sukku þeir hlutar landbrúarinnar sem fjærstir voru kvikuuppsprettunni og Ísland varð að eyju.

Norður-Atlantshaf heldur enn áfram að gleikka og eldvirkni heldur áfram á Íslandi. Þannig gliðnar Ísland um 2 cm á ári í austur-vestur við það að ný skorpa myndast á rekbeltinu þvert yfir landið (einkum á beltinu frá Vestmannaeyjum norður í Axarfjörð) en að sama skapi eyðist af ströndinni, bæði vegna sjávarrofs og vegna þess að landið sekkur í sæ þegar skorpan dregst saman við kólnun. Þannig má ætla að Ísland hafi haldist nokkurn veginn jafnstórt í aldanna rás - myndun og eyðing landsins haldist í jafnvægi - og að svo muni verða meðan möttulstrókurinn undir landinu er virkur.

Um þetta efni má lesa frekar í grein eftir undirritaðan í Náttúrufræðingnum (57. árg., bls. 81-95, 1987) "Hraði landmyndunar og landeyðingar."

Sigurður Steinþórsson,

prófessor í jarðfræði.

Hvað þýðir "skortstaða" í hagfræði og viðskiptafræði? SVAR:

Skortstaða er íslensk þýðing á enska hugtakinu short position. Það er notað í fjármálum til að lýsa því þegar fyrirtæki eða einstaklingur hefur fengið eign að láni og selt hana til þriðja aðila. Til dæmis gæti Björn lánað Ara hlutabréf í Hlut hf. að nafnvirði ein milljón króna og Ari selt Dóru bréfin. Þar með hefur Ari skortstöðu í Hlut hf. Skortstaða Ara er sögð nafnverð bréfanna sem hann seldi en átti ekki, það er ein milljón.

Andstaðan við skortstöðu er gnóttstaða sem er íslensk þýðing á enska hugtakinu long position. Í dæminu að framan hafa bæði Björn og Dóra gnóttstöðu í Hlut hf.

Þeir sem taka skortstöðu í ákveðnum eignum, til dæmis hlutabréfum tiltekins fyrirtækis, eru í raun að veðja á að verðþróun þeirra verði óhagstæð, þau lækki í verði eða hækki að minnsta kosti minna en aðrar eignir. Ef bréfin hækka í verði verða þeir sem tekið hafa skortstöðu að greiða meira fyrir að losna úr skortstöðunni en þeir fengu þegar þeir seldu bréfin á sínum tíma. Það getur því verið áhættusamt að taka skortstöðu. Það getur líka verið áhættusamt að lána eignir til aðila sem ætlar að taka skortstöðu í þeim því að einhverjar líkur eru á því að sá sem tekur skortstöðuna geti ekki endurgreitt lánið.

Gylfi Magnússon,

dósent í hagfræði.