Rokk og ról.
Rokk og ról.
Jú, ég er anzi mikið í fræðimannsherberginu og vinn einkum að efni sem ég átti ókarað og hef verið að ljúka við. Þetta er mest ljóðakyns en ég hef einnig alltaf haft áhuga á því að skrifa leikþætti sem ég kalla leiksögur. [...

Jú, ég er anzi mikið í fræðimannsherberginu og vinn einkum að efni sem ég átti ókarað og hef verið að ljúka við. Þetta er mest ljóðakyns en ég hef einnig alltaf haft áhuga á því að skrifa leikþætti sem ég kalla leiksögur.

[...]

Sumt af þessu er í tengslum við kynni mín af fólki og þá ekki sízt sem blaðamaður. Þetta hefur verið svona forðabúr eða fyrningar í hlöðu og nú er ég byrjaður að gefa á garðann, moka út og nota það sjálfur sem hráefni í sýn mína á mannlífið, hvernig svo sem til tekst um það skal ég ekkert segja. En ég hef núna meiri áhuga á fjarstæðuleiklist heldur en raunsæisleikritum og það sem ég hef verið að skrifa núna er "markerað" af því.

[...]

Ég hef alltaf þurft að hafa jarðsamband þegar ég hef skrifað skáldskap og í tengslum við þetta jarðsamband hef ég yfirleitt fjallað um eigin reynsluheim og hvernig ég hef kynnzt fólki og umhverfinu í gegnum skáldskapinn og þá að sjálfsögðu einnig í gegnum mitt eigið líf.

[...]

Ég hef áreiðanlega hugsað mikið um tilvistarmál en þó einkum þannig að ég hafi ekki hugsað um þau! Það er kveikja að öllum skáldskap. Hann byrjar með neista. Ég veit ekki hvar þessi neisti kviknar. Hann kviknar á ýmsum stöðum. Við erum hluti af umhverfinu og þetta gerist hvarvetna í náttúrunni. Allt hefur sinn tíma. Farfuglarnir eru ekki að verpa allt árið eins og þú veizt!

[...]

Ég hef aldrei skrifað annað en það sem mig hefur langað til og ég hef alltaf skrifað af mikilli ástríðu. Ég hef alltaf haft tíma til að gera það sem mig hefur langað til eða ég viljað gera vegna þess að ég var sjálfur ritstjóri og það var því enginn ritstjóri sem gat verið að þvæla mér út og suður. Ég ákvað það bara sjálfur.

[...]

Það var ekki tekið gilt að skáld væri ekki vinstri maður. Ég var náttúrlega borgaralegt skáld, ég hef alltaf verið borgaralegt skáld og er stoltur af því. Þú þarft ekki annað en líta í kringum þig, hér heima og annars staðar í heiminum, þá sérðu hverjir hafa verið borgaraleg skáld. Þú þarft ekki að vera einhver Che Guevara til að vera gott skáld. En Maó var gott skáld. Ég hef þýtt mörg kvæði eftir hann. Ég er sannfærður um að hans verður minnst sem skálds löngu eftir að allir verða búnir að gleyma Formanninum. Hann hefur óskaplega fínar metafórur og merkilega aðferð.

[...]

Fyrir mér er rennandi vatn einna mikilvægast alls en ég forðast frosið vatn. Það er eins og ímynd okkar um dauðann. Rennandi vatn og vængir eru ímynd okkar um lífið.

Matthías Johannessen

Mannlíf