I Íslensk menning! Hvað er nú það? Sigurður Nordal hafði svör á reiðum höndum, eins og svo oft, og ritaði mikla bók um efnið, og áætlaði reyndar heilan bókaflokk sem ekkert varð úr.

I Íslensk menning! Hvað er nú það? Sigurður Nordal hafði svör á reiðum höndum, eins og svo oft, og ritaði mikla bók um efnið, og áætlaði reyndar heilan bókaflokk sem ekkert varð úr. Í bók sinni fjallar Nordal um rætur íslenskrar menningar í fornum kvæðum og sögum. Að mati Nordals og annarra fylgismanna hins svokallaða "íslenska skóla" í íslenskri sagnaritun var íslensk menning afurð höfundanna miklu á miðöldum sem færðu í letur eðlisþætti íslenskrar þjóðar, gáfu henni sjálfsmynd og sjálfstraust sem hún hefur síðan byggt á.

II Í viðtali við Lesbók í dag bendir Helga Kress prófessor á að þessir höfundar voru að mati íslenska skólans "undantekningarlaust lærðir karlar, menntaðir í útlöndum sem vegna ættjarðarástar snúa aftur heim til að skrifa þessar miklu bókmenntir". Helga heldur því fram að höfundar fornsagnanna séu tilbúningur karlabókmenntafræðinnar. Sögurnar voru og eru, að mati Helgu, höfundarlausar og margradda, sprottnar úr munnmælum alþýðunnar, einkum slúðri kvenna.

III Kannski hafa einhverjir átt bágt með að sætta sig við þann skilning að höfundarhugtakið er fyrst og fremst hugmynd og rannsóknarforsenda sem varð til í ákveðnu hugmyndafræðilegu samhengi fyrir um tvöhundruð árum. Það hefur verið notadrjúgt í bókmenntarannsóknum og á fleiri sviðum mannlífsins en hefur á síðustu árum þurft að víkja meir og meir fyrir öðrum og nýrri forsendum. Helga hefur í þrjátíu ár unnið mikið og merkilegt starf við að kynna nýjar kenningar í íslenskri bókmenntafræði, nýja nálgun við íslenskar bókmenntir, fornar sem nýjar. Í viðtalinu talar hún um að nýjar kenningar mæti iðulega fjandskap í íslenskum bókmennta- og fræðiheimi. Kannski er fullsterkt til orða tekið hjá Helgu en engum þarf þó að dyljast að nýjar kenningar og ný hugtök mæta ákveðinni tregðu í íslenskri fræðiumræðu. Hvað veldur er erfitt að segja en Helga bendir á að kenningarnar komi iðulega að utan, þær séu útlenskar og því séu þær ef til vill ekki álitnar æskilegar eða viðeigandi.

IV Þetta leiðir hugann að því að íslensk menning (og íslensk fræði) stendur vissulega á ákveðnum krossgötum um þessar mundir. Eins og menning annarra fámennissamfélaga og fámennistungna þarf hún að glíma við það verkefni að aðlaga sig hnatt- og alþjóðavæðingu samtímans. Spurningin er hvort hún geri það með því að leita æ meir inn á við, jafnvel með því að einangra sig, eða með því að taka aukinn og virkari þátt í alþjóðamenningunni. Ef til vill hefur of mikil áhersla verið lögð á að varðveita og verja íslenska menningu þegar slík samræða við erlenda menningu er annarsvegar. Þar hefur ein rödd kannski verið of hávær, ekki óskyld rödd íslenska skólans, og athyglinni ekki beint að kostum margradda samræðu sem fjölmörg dæmi eru þó um, til að mynda í tónlist Bjarkar Guðmundsdóttur.