AUGU mín opnuðust ekki fyrr en ég sá auglýsinguna innan á skáphurðinni. Það var árla morguns, ég var að verða of seinn í hjólatíma og tíndi af mér spjarirnar í flýti.

AUGU mín opnuðust ekki fyrr en ég sá auglýsinguna innan á skáphurðinni. Það var árla morguns, ég var að verða of seinn í hjólatíma og tíndi af mér spjarirnar í flýti. Ég leit í kringum mig og sá að sama auglýsing hafði verið límd innan á allar aðrar skáphurðir í búningsklefanum. Þetta var auglýsing frá þekktum veitingastað í miðbænum; hugmyndin væntanlega sú að þeir sem stundi líkamsrækt séu ginnkeyptir fyrir góðum mat - þeir hafi efni á nokkrum kaloríum.

Og nú voru augu mín opin fyrir öllu umhverfinu. Þegar ég kom fram í æfingasalinn velti ég fyrir mér hvert fermetraverðið væri fyrir þessar flennistóru veggauglýsingar sem hvarvetna blöstu við: farsímaþjónusta, svalardrykkir, já meira að segja ábending frá tóbaksvarnarráði. Í einu horninu voru innrömmuð auglýsingaspjöld frá nokkrum kvikmyndahúsum sem gáfu til kynna hvaða myndir væri verið að sýna á hverjum stað.

Það var ekki fyrr en ég kom inn í hliðarsalinn, þar sem svartlökkuð trimmhjólin stóðu í skipulegum röðum, að mér virtist að hlé yrði á þessu auglýsingaflóði. Þarna inni voru gljáfægðir speglar frekastir á veggplássið. Þjálfarinn bauð góðan dag, tíminn hófst og mér gafst tóm til að velta fyrir mér hvað allar þessar auglýsingar merktu. Mér var orðið ljóst að heilsuræktarstöðin mín var annað og meira en rúmgóð aðstaða til leikfimiiðkana. Upp í hugann kom stutt grein sem Ævar Kjartansson birti í Skírni vorið 1993 undir fyrirsögninni "Ljósvakamiðlar á markaðstorgi".

Í greininni bendir Ævar á að í nútímafjölmiðlarekstri er ekki aðeins verið að bjóða lesendum, hlustendum eða áhorfendum tiltekið efni heldur einnig verið að selja auglýsendum aðgang að tilteknum hópi neytenda. Hvergi er þessi tilhneiging jafnljós og í frjálsum útvarpsrekstri þar sem hlustandinn er hin eiginlega söluvara: "Auglýsingakaupandinn er að kaupa dagskrá handa hlustendum eða auglýsingaseljandinn (fjölmiðlaeigandinn) er að selja ákveðinn fjölda dagskrárneytenda." Í þessu samhengi fær hugtakið fjölmiðill tvíræða merkingu þar sem ekki er aðeins verið að miðla tilteknu efni til fjöldans, heldur einnig og ekki síður að miðla fjöldanum til auglýsenda.

Ef gengið er út frá þessari skilgreiningu er heilsuræktarstöðin mín fjölmiðill. Ekki er nóg með að hún selji fjölda fólks aðgang að áhöldum, þjálfurum, búningsklefum og böðum heldur selur hún einnig auglýsendum aðgang að viðskiptavinum sínum. Í þann mund sem ég komst að þessari niðurstöðu leit þjálfarinn brosandi yfir kófsveittan hópinn, lyfti drykkjarflöskunni sinni og sagði, eins og alltaf í lok hvers tíma: "Skál í xxxx!" Það kom á óvart að hann skyldi ekki bæta við að tíminn hefði verið kostaður af framleiðanda drykkjarins.

Ég leit í spegilinn og mér brá í brún. Á öðru hverju hjóli mátti sjá aðframkomnar auglýsingar fyrir ýmis fyrirtæki eða varning; stuttermaboli sem merktir voru í bak og fyrir. Ég hafði fengið minn bol í Reykjavíkurmaraþoni fyrir fáum árum. Framan á honum blasti við vörumerki xxxx.

JÓN KARL HELGASON