SalmanRushdie
SalmanRushdie
NÝJASTA skáldsaga Salmans Rushdie, Fury (Heift) kom út í gær og hlýtur hún fremur misjafna dóma.

NÝJASTA skáldsaga Salmans Rushdie, Fury (Heift) kom út í gær og hlýtur hún fremur misjafna dóma. Eru flestir sammála um að bókin fölni í samanburði við hinar frjóu og meistaralega ofnu söguheima Rushdies í skáldsögum á borð við Midnight's Children og The Moor's Last Sigh (Hinsta andvarp márans). Bókagagnrýnandi The New York Times er óvæginn í dómi sínum og segir hann rétt votta fyrir þeim áhugaverðu hugmyndum um borgarlíf sem Rushdie leggur upp með í bókinni. Telur hann persónusköpun ósannfærandi og söguna gloppótta í meira lagi, sem honum þykir einkar ósæmandi hinum virta höfundi. Gagnrýnandi The Sunday Times er öllu jákvæðari og telur bókina hafa áhugaverða fleti þótt ólík sé mörgum fyrri bókum höfundarins. Tengir hann ritstíl bókarinnar huga og persónuleika höfundarins. "Hugur Rushdies er fullur af eldmóði en um leið er eitthvað ómstrítt við hann. Einmitt þetta hverfist bókin um og sviðsetur, en útkoman er eins og sambland af vondum draumi og ummerkjum um rithöfundarkreppu," segir gagnrýnandinn.

Djöfullegar sögur Crace

Ný bók, The Devil's Larder (Búr djöfulsins) er væntanleg frá rithöfundinum Jim Crace í október næstkomandi.

Jim Crace vakti mikla athygli á síðasta ári fyrir skáldsöguna Being Dead og vann höfundurinn í kjölfarið til verðlauna bresku gagnrýnendasamtakanna eða National Book Critics Circle Award. Höfundurinn þykir einn efnilegasti sinnar kynslóðar í Bretlandi og stíll hans fágaður og skarpur. Jim Crace hefur jafnframt vakið athygli fyrir skrif sín sem blaðamaður.

Í bókarlýsingu nýju skáldsögunnar segir m.a. "Sagt er að allar stórar máltíðir, veki ýmist upp umræður um kynlíf eða dauða. Í The Devil's Larder leiðir hún til beggja umræðuefna, á hátt sem aðeins er að vænta af Crace." Í bókinni er að finna sextíu stuttar sögur sem sagðar eru einkennast af annarlegu fegurðarskyni.

Greinaskrif Kermodes

Í ÁGÚSTMÁNUÐI sendi breski fræðimaðurinn Frank Kermode frá sér greinasafn með úrvali blaðagreina sem hann skrifaði á árunum 1990 til 2000. Safnið nefnir höfundur Pleasing Myself og er þar um að ræða 29 umsagnir um allt frá nýrri þýðingu Seamus Heaney á Beowulf (Bjólfskviðu) til dóms um Sabbath's Theater eftir Philip Roth, sem Kermode segir "dásamlega illskeytta bók". Þá fjallar Kermode um aðdáun sína á ljóðskáldunum W.B. Yeats og T.S. Eliot en andmælir síðar sjónarmiðum þeirra sem gagnrýndenda, að því er segir í ritstjórnarumsögn í Bretlandsdeild netbókaverslunarinnar og upplýsingamiðilsins Amazon.

Frank Kermode er einn virtasti bókmenntafræðingur Bretlands, en hann hefur kennt bókmenntir bæði á Bretlandi og í Bandaríkjunum. Hann hefur ritað fjölda merkra ritverka um bókmenntir og bókmenntahefð, en síðast kom út eftir hann ritið Shakespeare's Language.