"Eðla", 100 x 70 eftir Guðna Harðarson, málara og jarðvegsörverufræðing.
"Eðla", 100 x 70 eftir Guðna Harðarson, málara og jarðvegsörverufræðing.
UM síðustu helgi opnaði Guðni Harðarson málverkasýningu í baksal Gallerís Foldar. Yfirskrift sýningarinnar er "Íhugun", og er þar að finna um tuttugu verk unnin með sandblönduðum akrýllitum á striga.

UM síðustu helgi opnaði Guðni Harðarson málverkasýningu í baksal Gallerís Foldar. Yfirskrift sýningarinnar er "Íhugun", og er þar að finna um tuttugu verk unnin með sandblönduðum akrýllitum á striga.

Guðni er prófessor í jarðvegsörverufræði og hefur verið búsettur í Baden í Austurríki um tveggja áratuga skeið, en hann gegnir þar stöðu deildarstjóra jarðvegsdeildar á rannsóknarstofu Sameinuðu þjóðanna. Sem myndlistarmaður er Guðni sjálfmenntaður. Hann segir rannsóknir og líffræði vera sitt aðaláhugamál í lífinu, en einnig hafi myndlistin verið áhugamál hjá honum allt frá barnaskólaárum. "Ég byrjaði að mála að einhverju ráði fyrir 12 árum og fann mig fljótt í akrýllitunum. Síðan hef ég verið að þróa myndlistina mína, og finnst mér ég nú fyrst hafa náð tökum á henni. Ég hef líklega þróað allt annars konar aðferðir en almennt eru notaðar, og þess vegna eru myndirnar kannski svolítið öðruvísi en það sem aðrir eru að gera."

Aðspurður segir Guðni að óvenjulegur ferill hans hafi eflaust mótað þau viðfangsefni og þann stíl sem hann hefur tileinkað sér í myndlistinni. "Starf mitt felst fyrst og fremst í rannsóknum á niturnámi belgjurta, það er að segja eiginleika baunajurta til að vinna náttúrulegt köfnunarefni úr jarðveginum, og sækja sér þannig næringu sem kemur í stað tilbúins áburðar. Við höfum verið að gera tilraunir með þessar ræktunaraðferðir í þróunarlöndunum, en þær stuðla að betri nýtingu jarðarinnar, hindra notkun tilbúins áburðar sem er skaðlegur jarðveginum og eru auk þess hagkvæm leið til ræktunar fyrir bændur í þessum löndum. Skynsamleg nýting og verndun jarðarinnar er mér mjög hugleikin, og hef ég miklar áhyggjur af jarðvegseyðingu og náttúruspjöllum í heiminum." Jörðin er grundvallarþema í myndum Guðna á sýningunni, áhrif mannsins á náttúruna og samskipti hans við hana. Litanotkun og stíll eru jafnframt frábrugðin hinni evrópsku hefð, ef til vill má greina örlítil suður-amerísk áhrif, auk áhrifa frá graffitílist. "Mitt umhverfi hefur auðvitað áhrif á það sem ég geri, þótt ég reyni að fara aldrei troðnar slóðir. Í starfi mínu kynnist ég fólki alls staðar að úr heiminum, auk þess sem ég ferðast mikið, m.a. til Suður-Ameríku. En ég fylgist auðvitað líka með því sem er að gerast í myndlistinni í Austurríki," segir hann.

Með málverk í langferð

Guðni hefur náð góðum árangri sem myndlistarmaður í Austurríki, en þar sýnir hann reglulega hjá tveimur galleríum, Galerie Peithner-Lichtenfels og Galerie Menotti. Auk þess hefur Guðni haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um heim. "Það er nokkuð langt síðan ég sýndi heima á Íslandi síðast. Það er nú fjölskyldu minni að þakka, sem og aðstandendum gallerísins hérna, að ég lét verða af því. Ég hef eiginlega verið að safna kjarki í að flytja myndirnar alla þessa leið."

Guðni lýsir nú fyrir blaðamanni því ferðalagi sem hann og myndirnar eiga að baki, fyrst hafi hann ekið á flutningabíl frá Austurríki til Danmerkur, þaðan tók hann Norrænu til Seyðisfjarðar og ók svo með myndirnar til Reykjavíkur. "Það er töluvert fyrir því haft að flytja svona sýningu milli landa, því verð ég að láta í ljós þá von mína að fólk noti tækifærið og líti á sýninguna hjá mér," segir Guðni að lokum.

Sýning Guðna Harðarsonar í baksal Gallerís Foldar stendur til 9. september næstkomandi.