Gerrit Schuil og Sólrún Bragadóttir.
Gerrit Schuil og Sólrún Bragadóttir.
FYRSTA starfsár tónlistarhússins Ýmis hefst um helgina, með tónleikum Sólrúnar Bragadóttur, sópransöngkonu og Gerrits Schuil, píanóleikara, á morgun kl. 14.30. Á efnisskránni verða verk eftir Fauré, Duparc, Korngold, Sibelius og Grieg.

FYRSTA starfsár tónlistarhússins Ýmis hefst um helgina, með tónleikum Sólrúnar Bragadóttur, sópransöngkonu og Gerrits Schuil, píanóleikara, á morgun kl. 14.30. Á efnisskránni verða verk eftir Fauré, Duparc, Korngold, Sibelius og Grieg. Þetta eru fyrstu tónleikarnir í tónleikaröðinni Sunnudags-matinée, en þetta verða alls þrettán tónleikar þar sem fram koma margir af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar, auk nokkurra erlendra gesta. Gerrit Schuil, listrænn stjórnandi tónlistarhússins Ýmis, hefur skipulagt röðina og mun jafnframt verða meðal flytjenda.

Sólrún Bragadóttir sópransöngkona hefur sungið við óperuhús erlendis um árabil og sungið öll helstu hlutverk fyrir sína rödd. Í dag býr hún í Danmörku, en þaðan er leiðin greið hvort sem er til óperuhúsa Mið-Evrópu eða heim til Íslands. Sólrún segir að verkefnavalið á tónleikunum í Ými hafi ráðist af því að þetta eru uppáhaldslög. "Ég verð alltaf æ ástfangnari af ljóðunum og var ég þó ástfangin af þeim fyrir. Fyrir hlé eru frönsk lög; hver perlan á fætur annarri, eftir Fauré og Duparc, en eftir hlé syng ég lög sem allir þekkja, eftir Grieg; minna þekkt lög eftir Sibelius, þar af þrjú sem ég syng á finnsku, og loks lítinn lagaflokk eftir Eric Korngold."

Lautartúrar undir sólhlíf

Sólrún segist ekki frá því að finna svolítið annan andblæ í frönsku ljóðasöngvunum en þeim norrænu. "Ég hef alltaf hrifist mjög af frönsku tónlistinni. Frönsku tónskáldin velja sér svo góð ljóð að semja við, þannig að ég er eiginlega alveg jafn ástfangin af textunum og tónlistinni. En Skandinavarnir eru líka mjög spes. Náttúran spilar svo sterkt inn í þeirra list og maður finnur líka meiri samhljóm með þeim og íslensku tónskáldunum. Hvorir tveggju, Frakkarnir og Skandinavarnir, eru þó mjög lýrískir. Frakkarnir eru sérstaklega rómantískir og maður sér fyrir sér lautartúra undir sólhlífum á slegnum túnum, en raunveruleiki Skandinavanna er talsvert harðari. Ég kann vel við mig með báðum, og get samsamað mig hvorum sem er."

Sólrún segir salinn í Ými lofa góðu. "Ég veit ekki hvernig þetta verður þegar fólk er komið í salinn, ég hef bara sungið í honum tómum; en hann lofar góðu og er mjög fallegur. Ég held að þessi tónleikaröð verði líka mjög áhugaverð."

Krafa um að allt sé svo skemmtilegt

Sólrún segist ánægð með hvað ljóðasöngshefðin heldur velli hér miðað við Evrópu. "Ljóðasöngur er hverfandi list í Evrópu. Ég veit ekki hvort þetta eru markaðslögmálin að verki, en söngvarar segja að það sé enginn peningur í þessu, og fólk mætir ekki nema það séu þekkt nöfn að syngja. Í Þýskalandi er óperan líka svo sterk, og tónlistarmenn snúa sér frekar að stærri konsertum og tónleikahaldi með hljómsveitum, frekar en að snúa sér að ljóðasöng, sem virðist fara halloka. Ljóðasöngurinn er ekki entertainment eða skemmtun í sama skilningi og getur gilt um óperur til dæmis. Þetta er innræn tónlist höfðar beint til hlustandans. Það er svo mikil krafa í dag, um að allt eigi að vera svo létt og kátt og skemmtilegt og höfða til allra, og það er eins og það sé einhver ótti við að vera á dýpri nótunum. Ljóðasöngurinn stendur fyrir sínu og þarf ekkert skrum í kringum sig. Þegar þú ert á óperusviði ertu hluti af heild og hefur alltaf eitthvað að skýla þér á bak við. Í ljóðasöngnum ertu einn með hlustandanum og sambandið er miklu persónulegra. Það eru margir söngvarar sem óttast þetta, og leggja ekki í að syngja ljóð; þeir eru svo naktir. En þegar vel tekst til í ljóðasöngnum og maður nær hlustandanum og tengist honum, þá er ekkert sem gefur manni jafn mikið til baka."

Gerrit Schuil þarf vart að kynna, en auk þess að vera listrænn stjórnandi tónlistarhússins Ýmis er hann mikilvirkur sjálfstætt starfandi tónlistarmaður. Hann starfar jöfnum höndum á meginlandi Evrópu og á Íslandi og er sem fyrr greinir listrænn stjórnandi tónleikahalds í tónlistarhúsinu Ými.