Listamennirnir er taka þátt í sýningunni Sjálfbær þróun í Nýlistasafninu.
Listamennirnir er taka þátt í sýningunni Sjálfbær þróun í Nýlistasafninu.
SÝNINGIN Sjálfbær þróun (grasrót 2001) verður opnuð í Nýlistasafninu í dag.

SÝNINGIN Sjálfbær þróun (grasrót 2001) verður opnuð í Nýlistasafninu í dag. Sýningin er framlag safnsins til sjálfbærrar þróunar, liður í átaksverkefni safnsins sem kennt er við Grasrót og hefur að markmiði að kynna verk efnilegra listamanna sem eru að stíga sín fyrstu sjálfbæru þróunarskref á sviði listarinnar.

Um verk sín segir Heimir Björgúlfsson m.a.: "Þau fást við það hvernig maðurinn reynir að sigrast á náttúrunni, hvernig honum tekst og/eða mistekst. Ég er ekki að leita lausna heldur varpa fram spurningum."

Tilfinningalíf mannsins er uppsprettan að hugmyndum Gígju Reynisdóttur. Hún leitast við að skilgreina undirrót þess og eðli í verkum sínum.

Í verki Ólafar Helgu Guðmundsdóttur leitast hún við að andæfa klisjum eins og "sjálfbær þróun", dæmisögum, goðsögum, málsháttum, alþýðuspeki og öðru slíku sem menn éta upp hver eftir öðrum og taka í hugsunarleysi fyrir almenn sannindi.

Björk Guðnadóttir skoðar hvernig ímyndir og áreiti síast inn í hugann á líkamlegan hátt sem skynjun, með fullt af aukaskilaboðum á fleiri plönum - "semiology" - táknfræði og undirmeðvitund.

Til þess að njóta "fleka" Jóhannesar Hinrikssonar segir listamaðurinn m.a. að ef listunnandinn hafi týnt barninu hið innra geti hann einfaldlega séð gamla landið frá nýju sjónarhorni.

Aðrir sýnendur eru Darri Lorenzen, Jón Sæmundur Auðarson, Ólafur Árni Ólafsson, Bjargey Ólafsdóttir og Libia Péres de Siles de Castro.

Umsjónarmenn verkefnisins eru listamennirnir Ásmundur Ásmundsson og Ósk Vilhjálmsdóttir.

Sýningin stendur til 7.október.