STERKASTA einkenni á tónlist Bjarkar hefur alltaf verið sú fjölbreytni tónmiðla sem hún notar í verkum sínum.

STERKASTA einkenni á tónlist Bjarkar hefur alltaf verið sú fjölbreytni tónmiðla sem hún notar í verkum sínum. Björk virðist hafa ótakmarkað hugarflug þegar kemur að sköpun eigin hljóðheims og hvort sem það er strengjakvartett, grænlenskur stúlknakór eða annað tekst henni að nota þessa miðla þannig að þeir þjóna eingöngu og algjörlega hennar sköpun. Strengirnir verða öðruvísi en strengir hafa nokkurn tíma verið; stúlknakórinn hljómar öðruvísi en annað sem maður hefur heyrt frá stúlknakórum; venjuleg harpa verður Bjarkarharpa og aldagamalt japanskt koto verður nýtt og ferskt. Björk hefur valdið og snýr því venjulega á hvaða veg sem er til að það þjóni hennar óvenjulegu leiðum. Notkun hennar á rafhljóðfærum er að sama skapi frumleg en þó úthugsuð og lýtur sköpun Bjarkar fullkomlega. Það sem skilur tónlist Bjarkar frá annarri popptónlist er hvernig Björk hugsar verk sín. Lög hennar eru ekki melódíur eða hljómaraðir sem tónskáldið raðar svo hljóðfærum og hljóðum utan á eftir smekk. Hvert lag Bjarkar er hugsað sem hljóðverk þar sem hvert "element" er nauðsynlegur partur af heildinni. Hvert lag eða verk er eigin hljóðheimur, ólíkur öðrum. Fjölbreytnin í hljóðheimum Bjarkar er mikil. Þótt þar ægi saman ótrúlegustu og sundurleitustu hljóðmyndum lánast henni að skapa hverju verki sínu og hverri plötu sinni sterkan heildarsvip. Það sem bindur fjölbreytnina saman eru markvissar og frjóar tónsmíðaaðferðir hennar og auðvitað röddin sem er einstök.

Tónsmíðaaðferðir Bjarkar gera hana frjálsa og hátt hafna yfir meðalmennsku hversdagspoppsins. Frjór hugur og takmarkalaus könnun í heimi hljóða og tóna gefa henni forskot. Hjá henni er allur hljóðheimurinn undir og með einföldustu útskýringu má segja að tónsmíðaaðferðir hennar séu bara spurning um hvað eigi að velja saman í veröld hvers verks fyrir sig. Hljómar einfalt, er það ekki? Þótt maður viti að hjá Björk sé allur hljóðheimurinn undir og að maður geti átt von á hverju sem er er list hennar fólgin í því hvernig hún dregur spottana saman, hvernig hún velur og raðar saman hljóðum og tónum. Og þrátt fyrir allt kemur hún manni stöðugt á óvart með hugmyndaauðgi sinni.

Það má líta á aðferðir Bjarkar sem nýja leið í tónsmíðum. Hún er ekki bundin af hefðum, þótt tónlist hennar sé sprottin jafnt úr raftónlist, poppi og klassík. Björk er ekki bundin af því að skrásetja tónlist sína á nótur og því verða verk hennar ekki svo glatt flutt af öðrum. Þótt Björk eigi klassískt tónlistarnám að baki hefur það ekki heft hana. Klassísk hefð er mjög heyranleg í verkum hennar, en hún forðast það sem bindur hana. Björk notar það sem henni hentar. Frá poppinu kemur rytminn og frelsið til að skapa tónlist án þess að þurfa endilega að skrá hana. Það gildir líka um raftónlistina og þaðan hefur hún líka könnunaráráttuna. Úr djassinum hefur hún kannski spunann og að þreyta tónmálið í þaula

Leið Bjarkar í tónsmíðum er fyrst og fremst bundin því hvernig hún hugsar tónlistina. Lög hennar eru ekki ferli eða hreyfing frá A til B eins og í annarri tónlist. Þau eru ekki göngutúrinn frá einum pól til annars, með fyrirfram ákveðnum stoppistöðvum sem heita ýmist impró, kadensa eða sóló, eftir því í hvaða tónlist þú ert. Lög hennar eru það sem þú sérð þegar þú opnar dyrnar á hnettinum, gengur inn og sérð allan heiminn í sviphendingu sem heildstæða mynd í allri sinni dýrð með ólýsanlegu litrófi tóna og hljóða.

BERGÞÓRA JÓNSDÓTTIR