Francisco Rabal
Francisco Rabal
YFIRLITSSÝNING á verkum spænska listamannsins Eduardo Chillida stendur þessa dagana yfir í Jeu de Paume-listasafninu í París en Chillida telst til þekktari núlifandi listamanna Spánverja.

YFIRLITSSÝNING á verkum spænska listamannsins Eduardo Chillida stendur þessa dagana yfir í Jeu de Paume-listasafninu í París en Chillida telst til þekktari núlifandi listamanna Spánverja.

Chillida sem er á áttræðisaldri hefur gjarnan unnið skúlptúra sína úr járni enda er hann þekktur í heimalandi sínu sem járnmaðurinn. Granít, viður, marmari, stál og alabastur hafa þó einnig reynst honum efniviður í verk sín líkt og yfirlitssýningin á rúmlega 100 skúlptúrum og teikningum Chillida gefur til kynna. Við gerð skúlptúra sinna virðist þessi baskneski listamaður gjarnan horfa til fortíðar, til tíma abstraktforma módernismans en þó ekki án klassískra tilvitnana. "Ég vinn með efnivið mínum, en efnið vinnur líka með mér," sagði Chillida í viðtali nokkru. "Ég spyr efniviðinn hvort hann sé mér sammála því að efnið getur líka tjáð sig. Og ef það hefur eitthvað að segja reyni ég að hjálpa því. Ég vil ekki vera grófur og ákveða allt sjálfur."

Yfirlitssýningin hefur fengið góða dóma hjá frönskum gagnrýnendum enda þykir Chillida einstaklega aðgengilegur listamaður.

Paco Rabal látinn

SPÆNSKI leikarinn Francisco Rabal, einnig þekktur sem Paco Rabal, lést nú í vikunni.

Rabal, sem var 75 ára gamall er hann lést, var afkastamikill á leikferli sínum og Spánverjum vel kunnur. Hann var þó einna þekktastur fyrir samvinnu sína með Luis Buñuel í myndinni Fegurð dagsins þar sem hann lék á móti Catherine Deneuve. Rabal kom þá einnig fram í myndum þeirra Michelangelo Antonioni og Pedro Almodovar en hann hlaut viðurkenningu sem besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Cannes 1984 fyrir leik sinn í Heilögu einfeldingunum.

Snyrtivörur og list

SNYRTIVÖRUR virðast nú reynast nokkrum listakonum verðugt viðfangsefni að sögn danska dagblaðsins Berlingske Tidende sem telur sýningu listakonunnar Christine Melchiors bera merki þessa.

Melchiors, sem nú sýnir í sýningaraðstöðu danska menningarmálaráðuneytisins í Overgaden í Kaupmannahöfn, nær með sýningu sinni "...under opbygning" að sameina þennan heim kvennaarkitektúr. Nýtir hún sér karlmannlegan efnivið - vinnupalla, en heldur rýminu í kring bæði ljóðrænu og kvenlegu. Erfitt er hins vegar að festa fingur á þessi blæbrigði að mati blaðsins sem segir rýmið, lýsinguna og skáldagift sýningargesta þar eiga sinn hlut að máli. Melchior einfaldlega nái fram samsvörun milli vinnupallanna og snyrtivarningsins. Berlingske Tidende segir listakonuna Grete Dalum-Tilds þá einnig vera í svipuðum hugleiðingum með ljósmyndaseríu sinni "Poetry in Motion" sem einnig er til sýnis í Overgaden.