Jón Rúnar Arason í hlutverki Turiddu í Cavaleria Rusticana eftir Mascagni við Gautaborgaróperuna. Helena Holmberg í hlutverki Santuzzu.
Jón Rúnar Arason í hlutverki Turiddu í Cavaleria Rusticana eftir Mascagni við Gautaborgaróperuna. Helena Holmberg í hlutverki Santuzzu.
JÓN Rúnar Arason tenorsöngvari hefur verið fastráðinn við óperuna í Nürnberg í Þýskalandi. Jón Rúnar hefur starfað í Svíþjóð síðustu ár og sungið við óperuna í Gautaborg.

JÓN Rúnar Arason tenorsöngvari hefur verið fastráðinn við óperuna í Nürnberg í Þýskalandi. Jón Rúnar hefur starfað í Svíþjóð síðustu ár og sungið við óperuna í Gautaborg.

"Ég var að syngja í Il Trovatore í Gautaborg og leikstjórinn þar var svo ánægður með mig að hann sendi mig í prufusöng í London. Þar var þá staddur aðalstjórnandi Nürnberg-óperunnar, Philippe Auguin, og hann vildi bara ráða mig strax. Ég fékk fax frá honum og fór og söng fyrir þau í Nürnberg og þannig er þetta til komið. Ég á að syngja tvö hlutverk í vetur: Don José í Carmen og Hoffmann í Ævintýrum Hoffmanns."

Óperuhúsið í Nürnberg er stórt hús - svokallað A-hús, og repertoire-hús, þar sem margar óperur eru í gangi í einu og sýndar yfir lengri tíma. "Það er allt þarna - þetta er líka ballett- og leikhús."

Jón Rúnar segist hlakka til að fara til Nürnberg. "Þeir eru mátulega léttir á bárunni svona sunnarlega og hlutverkin sem ég fæ eru náttúrulega frábær."

Samningur Jóns Rúnars er til eins árs og á samningstímanum hefur hann svigrúm til að syngja svolítið annars staðar. "Já, ég á að syngja í Sálumessu Verdis í Stuttgart, og svo er ég að vonast til að fá eitthvað meira að gera."

Jón Rúnar segist ekki hafa viljað ganga að svona samningum fyrr - en að í þetta sinn hafi samningurinn verið það hagstæður að hann hafi ekki getað hafnað honum.