DRENGJAKÓR Laugarneskirkju, sem undanfarin ellefu ár hefur verið starfræktur og kenndur við Laugarneskirkju í Reykjavík, flytur sig um set eftir ellefu ára starf í Laugarnessöfnuði og verður Neskirkja í Reykjavík framtíðarheimili kórsins.

DRENGJAKÓR Laugarneskirkju, sem undanfarin ellefu ár hefur verið starfræktur og kenndur við Laugarneskirkju í Reykjavík, flytur sig um set eftir ellefu ára starf í Laugarnessöfnuði og verður Neskirkja í Reykjavík framtíðarheimili kórsins. Nafn kórsins breytist þar með í Drengjakór Neskirkju. Ástæða búferlaflutninganna er sú að Neskirkja er, hvað húsnæði og aðra aðstöðu varðar, betur í stakk búin til að hýsa svo umfangsmikla starfsemi sem kórnum fylgir. Drengjakór Neskirkju er kirkjukór og eini drengjakórinn hér á landi. Hann hefur á ferli sínum flutt bæði trúarlega og veraldlega tónlist. Þar að auki hefur kórinn skapað sér nafn sem tónlistar- og uppeldisstofnun fyrir unga drengi.

Drengjakórinn var stofnaður árið 1990 af Bandaríkjamanninum Ronald V. Turner, sem þá starfaði sem organisti við Laugarneskirkju. Stofnfélagar voru 15 drengir víðs vegar að af höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hafa u.þ.b. 200 drengir, á aldrinum 6-20 ára, verið skráðir kórfélagar um lengri eða skemmri tíma. Í dag starfa í kórnum rúmlega þrjátíu drengir auk þess sem starfrækt er deild eldri félaga sem nú telur ellefu unga menn.

Núverandi kórstjóri er Friðrik S. Kristinsson en hann hefur stýrt kórnum frá árinu 1994. Friðrik stjórnar einnig Karlakór Reykjavíkur og Snæfellingakórnum í Reykjavík. Drengjakórinn hefur komið fram við margvísleg tækifæri hér á landi sem og erlendis auk þess sem hann hefur gefið út tvo geisladiska.

Í október mun Drengjakórinn taka þátt í dagskrá í tilefni af heimsókn Vínardrengjakórsins til Íslands í október. Inntökupróf verða haldin í Neskirkju mánudaginn 3. september frá kl. 17-19.