Susanne Riess-Passer, formaður FPÖ og varakanzlari Austurríkis, og þingflokksformaðurinn Peter Westenthaler á blaðamannafundi í Vín.
Susanne Riess-Passer, formaður FPÖ og varakanzlari Austurríkis, og þingflokksformaðurinn Peter Westenthaler á blaðamannafundi í Vín.
ÁRATUGA gömul hefð Austurríkismanna fyrir því að halda frið á vinnumarkaðnum með hagsmunabandalagi atvinnurekenda og verkalýðsfélaga riðar nú til falls, eftir atlögu frelsisflokksmanna sem halda nú um stjórnartaumana í Austurríki í samstarfi við hinn...

ÁRATUGA gömul hefð Austurríkismanna fyrir því að halda frið á vinnumarkaðnum með hagsmunabandalagi atvinnurekenda og verkalýðsfélaga riðar nú til falls, eftir atlögu frelsisflokksmanna sem halda nú um stjórnartaumana í Austurríki í samstarfi við hinn íhaldssama Þjóðarflokk.

Hinn 20. ágúst sl. tókst Frelsisflokknum (FPÖ), sem þar til í fyrra laut forystu hins umdeilda Jörgs Haiders, að þrýsta Hans Georg Dörfler, formanni verkalýðsfélags starfsmanna póstþjónustunnar, og fleiri verkalýðsforkólfum til að segja af sér, eftir að uppvíst varð að þeir hefðu fengið ríkulegar kauphækkanir á sama tíma og ákveðið var að loka þriðja hverju pósthúsi í landinu.

Þegar Frelsisflokkurinn hóf stjórnarsamstarf við Þjóðarflokkinn í febrúar 2000 gerði hann það meðal annars undir þeim formerkjum að segja rótgrónu bitlinga-spillingarneti - afrakstri áratugalangra "helmingaskipta" jafnaðarmanna og íhaldsmanna - stríð á hendur.

Frelsisflokkurinn er nú að reyna að bylta fleiri verkalýðsforingjum úr sessi, sem eiga því ekki að venjast að þurfa að færa opinberlega rök fyrir því hvað þeir þiggja sjálfir í laun, enda hefur stéttabarátta sjaldan komið upp á yfirborðið í austurrísku þjóðlífi frá því lýðveldið var endurstofnað eftir síðari heimsstyrjöld.

Verkalýðsleiðtogar hafa reynt að verjast þessari atlögu að hinu rótgróna skipulagi, en tekizt misvel upp. Margir óbreyttir meðlimir verkalýðsfélaganna hafa tekið undir með Frelsisflokknum og krafizt þess að tekjur verkalýðsforkólfanna verði gerðar opinberar, eins og tíðkast í Svíþjóð; það sé nauðsynlegt til að endurreisa traust hins almenna launamanns á stéttarfélagsforystunni.

Talsmenn verkalýðsfélaganna hafa sakað Frelsisflokkinn um að kynda undir deilunni um laun verkalýðsforingjanna í því skyni að grafa undan víðtækri skoðanakönnun sem austurríska alþýðusambandið, ÖGB, er nú að skipuleggja, þar sem til stendur að inna alla félagsmenn eftir skoðunum þeirra á nokkrum lykilspurningum um hvernig launabarátta skuli rekin og hvernig hagsmunir launafólks gagnvart ríkisvaldinu verði bezt varðir.

Að yfirleitt skuli efnt til slíkrar skoðanakönnunar í landi þar sem friður á vinnumarkaði hefur verið einn af hornsteinum þjóðskipulagsins í 50 ár er út af fyrir sig byltingu líkast. Á þessari hálfu öld hefur að meðaltali tapast innan við ein vinnumínúta á ári vegna verkfalla.

Verkalýðsforystan svipt neitunarvaldi við löggjöf

Sú hefð skapaðist í austurríska lýðveldinu eftir stríð að öll stjórnarfrumvörp að löggjöf á sviði vinnumarkaðsmála voru borin undir hagsmunaaðila vinnumarkaðarins áður en þau voru lögð fyrir þingið. Þannig hlutu verkalýðsfélög svo að segja neitunarvald í stefnumótun ríkisstjórna Austurríkis í félags- og efnahagsmálum. Um áratugaskeið áður en núverandi stjórn tók við fyrir einu og hálfu ári var samsteypustjórn jafnaðarmanna - sem gætti hagsmuna verkalýðsfélaganna - og íhaldsmanna - sem gættu hagsmuna vinnuveitenda - óslitið við völd og festi þetta kerfi í sessi, sem fyrir tilstilli Frelsisflokksins hriktir nú í.

Á síðustu árum "helmingaskiptastjórnarinnar" óx óánægja einkum í röðum atvinnurekenda og hægrimanna, sem skynjuðu þetta rígbundna kerfi æ meir sem "spennitreyju" fyrir atvinnulífið sem gerði því erfiðara um vik að aðlagast kröfum hins alþjóðavædda hagkerfis og aðildinni að Evrópusambandinu, sem varð að veruleika árið 1995.

Samsteypustjórn Þjóðarflokksins og Frelsisflokksins hefur breytt reglunum þannig, að álits verkalýðsfélaganna er leitað, en þau hafa ekki lengur neitunarvald og hinn hægrisinnaði þingmeirihluti hikar ekki við að hundsa athugasemdir þeirra. Þannig hefur tekizt að hrinda í framkvæmd óvinsælum aðgerðum sem eru atvinnulífinu mikilvæg, svo sem að hækka aftur eftirlaunaaldur og skera niður velferðarstyrki.

Fram til þessa hefur þó barátta Frelsisflokksins gegn því sem forystumenn hans kalla "rauð vígi" að mestu takmarkast við hneyksli í eigin röðum og mistök þeirra eigin reynslulausu ráðherra. Í vor sem leið mistókst til að mynda félagsmálaráðherranum Herbert Haupt er hann reyndi að reka vinstrisinnaðan yfirmann austurríska félagsmálakerfisins. Var ráðherrann talinn hafa staðið ólöglega að málinu og það kallaði á hörð viðbrögð verkalýðsfélaganna - en að austurrískum hætti. Í atkvæðagreiðslunni meðal félagsmanna alþýðusambandsins, sem framkvæmd verður dagana 24. september til 15. október, gengu skipuleggjendur ekki svo langt að leggja til að gripið yrði til verkfalla.

Vínarborg. AFP.