HELSTA bókmenntastjarna Frakka um þessar mundir, Michel Houellebecq, hefur sætt gífurlega harðri gagnrýni fyrir nýjustu skáldsögu sína og lýsingar sínar á múhameðstrú sem "heimskulegum" og "hættulegum" trúarbrögðum.

HELSTA bókmenntastjarna Frakka um þessar mundir, Michel Houellebecq, hefur sætt gífurlega harðri gagnrýni fyrir nýjustu skáldsögu sína og lýsingar sínar á múhameðstrú sem "heimskulegum" og "hættulegum" trúarbrögðum.

Houellebecq öðlaðist heimsfrægð 1998 fyrir skáldsögu sína Öreindirnar, sem komið hefur út í íslenskri þýðingu. Múslimar í Frakklandi, sem eru um fjórar milljónir, hafa verið harðastir í gagnrýni sinni á höfundinn, og hóta því að draga hann fyrir dómstóla.

Deilurnar snúast fyrst og fremst um orð sem Houellebecq lét falla í viðtali við franska bókmenntatímaritið Lire. "Islam er jú heimskulegustu trúarbrögðin," sagði rithöfundurinn, en móðir hans snerist til múhameðstrúar. Houellebecq sagði ennfremur að múhameðstrú hefði verið "hættuleg trú frá því hún varð til".

Dalil Boubakeur, rektor Parísarmoskunnar, sagði ummæli Houellebecq hneykslanleg, og bætti við að svona kynþáttahatur væri refsivert nú á dögum. Boubakeur hélt því ennfremur fram, að orð rithöfundarins væru til þess gerð að auka sölu á nýjustu skáldsögu hans, sem kom út í síðasta mánuði.

Sú bók hefur líka valdið nokkrum deilum vegna málsgreina í henni er varða aðalpersónuna, sem er haldin miklu hatri á aröbum. Viðbrögð í franska bókmenntaheiminum við orðum Houellebecqs hafa verið á ýmsa lund. "Það þarf meira en þetta til að koma mér úr jafnvægi," sagði rithöfundurinn Philippe Solers. Jerome Garcin, blaðamaður Le Nouvel Observateur, sagði viðhorf Houellebecqs til múhameðstrúar vera "hneykslanleg ... eiginlega sjálfstortímandi".

Rithöfundurinn Francois Nourissier kom til varnar Houellebecq og sagði að allir nytu tjáningarfrelsis og að á endanum yrði að dæma Houellebecq af verkum hans. "Eina spurningin er sú, hvort Houellebecq sé góður rithöfundur, og er [nýja skáldsagan hans] góð bók?"

París. AFP.