VÍKVERJI sagði frá því sl. fimmtudag að Ríkisútvarpið gerði þá kröfu til fólks sem flytti úr landi að það skilaði farmskrá frá skipafélagi áður en stofnunin samþykkti uppsögn áskriftar að RÚV.

VÍKVERJI sagði frá því sl. fimmtudag að Ríkisútvarpið gerði þá kröfu til fólks sem flytti úr landi að það skilaði farmskrá frá skipafélagi áður en stofnunin samþykkti uppsögn áskriftar að RÚV. Víkverji spurði í pistli sínum hvort Ríkisútvarpið gæti ekki boðið viðskiptavinum sínum betri þjónustu. Halldór V. Kristjánsson, deildarstjóri afnotadeildar RÚV, sendi Víkverja svar af þessu tilefni:

Víkverji skrifar 30. ágúst sl. um kunningja sinn sem er að flytja til Svíþjóðar, en þarf að tilkynna um hvað verður um sjónvarpstækið sitt. Samkvæmt lögum er Ríkisútvarpið ekki áskriftarútvarp og ekki er heldur mælt fyrir í lögum um lögbundna skylduáskrift. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að segja upp áskrift og ekki heldur hægt að krefja alla um afnotagjald. Meginregla laganna um afnotagjöldin er að eigandi viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, skal greiða afnotagjald. Aðeins er greitt eitt afnotagjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Í því felst afnot af viðtækjum í einkabifreið og sumarbústað.

Ríkisútvarpið heldur skrá yfir öll viðtæki sem notuð eru hér á landi og í íslenskum skipum og flugvélum sem nota má til móttöku útvarpsefnis. Til þess að afmá viðtæki af skrá, skal færa sönnur á að tækið sé orðið ónýtt eða verði af öðrum ástæðum ekki lengur notað til móttöku útsendingar Ríkisútvarpsins.

Upplýsa má að tæki ganga kaupum og sölum og finnast rúmlega 3.000 óskráð sjónvarpstæki árlega, sem ekki hefur verið greitt lögboðið afnotagjald fyrir. Einnig má geta þess að þegar viðtæki eru lánuð öðrum ber að greiða afnotagjald af þeirri notkun. Eðlilegt er að sá sem notar tækið greiði afnotagjaldið en samkvæmt lögum er það þó eigandi tækisins sem ber ábyrgð á því að afnotagjaldið sé greitt, þess vegna viljum við vita hvað verður um viðkomandi tæki. Til þess að framfylgja lögum um skrá yfir öll viðtæki verðum við að vita hvað verður um tækið og þess vegna spyrjum við um ljósrit af farmskýrslu ef afmá á viðtæki af skrá.

Miðað við 1. desember sl. eru um 100.300 heimili á landinu. Samkvæmt könnun er talið að 2,5% heimila hafi hvorki sjónvarp eða útvarp. Heimilin sem eiga að greiða afnotagjald eru því 97.792, af þeim greiða 89.624 afnotagjald, sem þýðir að 8,4% heimila greiða ekki afnotagjald.

Hlutfall þeirra sem ekki greiða afnotagjald er nokkuð misjafnt milli landa.

Árangur innheimtu afnotagjalda er svipaður á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Með nýrri tækni getur vel verið að Ríkisútvarpið geti boðið viðskiptavinum sínum betri þjónustu í þessu sambandi, og er sjálfsagt að líta til þess án breytinga á lögum, en þangað til verðum við að krefja menn um farmskírteini, um leið vil ég nota tækifærið og þakka Víkverja ábendinguna."

VÍKVERJI þakkar Halldóri fyrir svarið. Það er athyglisvert ef fram er að koma tækni sem gerir stofnuninni fært að fylgjast með innheimtu afnotagjalda með skilvirkari hætti en gert hefur verið fram að þessu. Stofnunin hefur verið í þeirri stöðu að elta fólk uppi og tortryggja svör þess um notkun á sjónvarpi.