GJALD fyrir talningu á íslenskri smámynt í bönkum er mismunandi eftir bankastofnunum og ekki gilda skýrar reglur um hvenær gjald er tekið af fólki sem kemur með uppsafnaða smámynt og óskar eftir að fá henni skipt í seðla heldur er það metið eftir magni...

GJALD fyrir talningu á íslenskri smámynt í bönkum er mismunandi eftir bankastofnunum og ekki gilda skýrar reglur um hvenær gjald er tekið af fólki sem kemur með uppsafnaða smámynt og óskar eftir að fá henni skipt í seðla heldur er það metið eftir magni hverju sinni. Í öllum bönkunum fá viðskiptavinir viðkomandi banka þjónustuna frítt.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka fer gjaldtaka fyrir talningu myntar mjög eftir aðstæðum. Jafnan sé ekki tekið gjald fyrir talningu myntar þegar um er að ræða einstaklinga með minni háttar fjárhæðir. Hins vegar er gjald tekið fyrir talningu myntar fyrir verslanir og fyrirtæki enda séu þau ekki að öðru leyti í viðskiptum við bankann og er útseld vinna bankamanns að lágmarki 600 krónur en talning myntar fellur undir lágmarksgjald. Bankinn segir ástæðuna fyrir þessari gjaldtöku vera þá að bankinn leggi til starfsmann, rekstur véla og umbúðir sé myntin hólkuð á staðnum. Auk þess komi til kostnaður vegna sendingar myntar til Seðlabanka Íslands.

Í Landsbanka fengust þær upplýsingar að gjaldtaka fyrir talningu á smámynt fari eftir því hversu mikið magn er um að ræða og hve mikill tími fer í að telja peningana. Komi fólk með nokkurt magn af mynt og tíma taki að telja hana sé gjald tekið fyrir það samkvæmt útseldri vinnu en lágmarksgjald er 500 krónur, en bankinn skoði þetta eftir því magni sem fólk kemur með hverju sinni.

Samkvæmt upplýsingum frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis er tekið 1.650 króna gjald fyrir talningu á smámynt en almennt séð gildi þetta þó einungis um verslunareigendur og fólk í fyrirtækjarekstri sem kemur reglulega með smámynt til skipta í bankanum. Bankinn hafi ekki tekið gjald af almenningi í þessum erindagjörðum.

Í Búnaðarbanka er hins vegar engin gjaldtaka fyrir talningu smámyntar og gildir þá engu hvort um er að ræða viðskiptavini bankans eða ekki.