Guðmundur Halldórsson, formaður Eldingar, félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum.
Guðmundur Halldórsson, formaður Eldingar, félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum.
Umdeild lög um kvótasetningu í ýsu og steinbít hjá smábátum taka gildi í dag, á nýju fiskveiðiári. Lögin hafa mikil áhrif á útgerð krókabáta á norðanverðum Vestfjörðum og Helgi Mar Árnason heyrði á Vestfirðingum að þar ríkir mikil óvissa um framtíð smábátaútgerðar.

NÝTT fiskveiðiár hefst í dag og um leið taka gildi umdeild lög um veiðistjórn krókabáta. Í lögunum felst að krókabátar eru nú flestir sameinaðir undir eitt kerfi, svokallað krókaaflamark, og úthlutað kvóta í ýsu, ufsa og steinbít. Áður höfðu flestir bátanna aðeins kvóta í þorski en gátu veitt frjálst í áðurnefndu tegundunum. Þessum breytingum hefur verið harðlega mótmælt og hvað harðast meðal smábátaeigenda á Vestfjörðum, en þar hefur smábátaútgerð verið hvað mest og því ljóst að þar munu lagabeytingarnar hafa hvað mest áhrif.

Guðmundur Halldórsson, smábátaeigandi í Bolungarvík og formaður Eldingar, félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum, hefur gengið einna harðast fram í mótmælum gegn lagabreytingunum og um leið í baráttunni gegn fiskveiðistjórnunarkerfinu, kvótakerfinu. Hann segir ljóst að gangi lögin óbreytt eftir dragi verulega úr umsvifum smábáta á Vestfjörðum. "Þeir trillukarlar sem ekki hætta línuveiðum munu fækka hjá sér beitningarmönnum eða beita jafnvel sjálfir. Í kringum hverja útgerð eru að jafnaði þrír til fjórir beitningarmenn í landi. Þessu fólki verður sagt upp störfum. Þetta mun taka tíma en að lokum þurfa menn að hagræða hjá sér og enn aðrir verða hreinlega gjaldþrota. Smábátar eru eini útgerðarflokkurinn sem er stjórnað með svæðanýtingu. Hér á Vestfjörðum erum við að nýta svæði sem Vestfirðingar hafa nýtt um aldir og kunna það þess vegna best og gera það best. Nú er okkur sagt að Vestmannaeyingar eigi ýsuna sem syndir hér inn á flóum og fjörðum. Ég held hinsvegar að kerfið lifi þessar hræringar ekki af, það verður ekki látið líðast að kerfið fái að leggja landsbyggðina í rúst. Þegar afleiðingarnar verða fólki ljósar, hrynur kerfið."

Guðmundur leggur áherslu á að hann sé ekki í stríði við stórútgerðarmenn, heldur sé hann að berjast gegn kerfinu, enda veiki kvótakerfið verulega stöðu sjávarbyggða víðsvegar um land og í því sé fólgin eyðing á fiskistofnunum. Hvorttveggja sé andstætt fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaganna. Hann telur þörf á algerri uppstokkun. "Þorskstofninn er í dag 70% af því sem hann var þegar landhelgin var færð út í 200 mílur. Hann er í dag um 80% af því sem hann var þegar kvótakerfið var tekið upp árið 1984. Um þessar mundir eru því alvarlegir hlutir að gerast með þorskstofninn."

Kvótakerfið er skömmtunarkerfi

Guðmundur telur kvótakerfið vera skömmtunarkerfi en stjórna ekki veiðum. "Það er engin veiðarfærastýring innbyggð í kerfið, það stjórnar ekki nýtingu miðanna sjálfra eða samsetningu flotans. Gott dæmi um nýtingu er ýsan á grunnslóð á Vestfjarðarmiðum. Þeir sem eru hæfastir til að nýta þessa auðlind er strandveiðifloti Vestfjarða.

Kvótakerfið ýtir auk þess undir brask, býr til brauðfótafyrirtæki sem springa eins og blöðrur þegar þau hafa náð þeirri stærð sem þanþolið leyfir. Enginn hefur hugsað þá hugsun til enda hvað verður um íslenska peningakerfið þegar þau verða gjaldþrota hvert á fætur öðru því framkvæmd kvótakerfisins felur í sér eyðingu fiskistofna. Sjávarútvegurinn hefur aldrei verið jafn skuldugur, skuldar nú vel yfir 200 milljarða króna. Það er því blekking að í kerfinu sé hagræðing."

Þjóðarsátt um fiskveiðistjórn í Færeyjum

Guðmundur segir að kvótakerfið skapi ósætti innan greinarinnar á milli byggðarlaga. Það sé mikilvægt að um fiskveiðistjórnunina skapist sátt meðal þjóðarinnar. Hann segir að horfa megi til Færeyja í þessum efnum. "Kvótakerfið er ekki náttúrulögmál, heldur óhæft skömmtunarkerfi sem mikill meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn og verður því að leggja af ef við viljum lifa í þessu landi.

Færeyingar voru píndir af Dönum til að taka upp íslenska kvótakerfið en Færeyingar lögðu það fljótlega af, þrátt fyrir hörð mótmæli Dana. Þeir tóku upp sitt eigið fiskveiðistjórnunarkerfi og hefur vegnað svo vel að á fáum árum hefur gerst efnahagsundur í Færeyjum. Færeyingar hafa gert áætlun um að draga úr dönskum styrkjum og færa sig í átt til sjálfstæðis. Það er auk þess þjóðarsátt um færeyska kerfið. Þar leggur sjávarútvegsráðherra til skiptingu sóknardaga og þingið verður að samþykkja skiptinguna. Færeyska þingið samþykkti tillögur ráðherrans samhljóða á síðasta ári. Allt þetta hefur gerst á fjórum til fimm árum með skynsamlegri fiskveiðistjórn og fiskeldi."

Kvótakerfið er eins og alkóhólismi

Guðmundur segir að koma þurfi á nýrri hugsun og nýju kerfi sem taki mið af færeyska kerfinu. Markmið þess kerfis þurfi að vera að byggja upp fiskistofna og fiskveiðiplássin víðs vegar um landið, reisa útgerðina úr þeirri rúst sem hún er í og byggja upp hagsæld í íslensku þjóðfélagi. Síðast en ekki síst þurfi að skapa frið innan greinarinnar. "Íslenska kvótakerfið er eins og alkahólmismi. Ef sjúklingurinn gerir ekkert í sínum málum og bendir aðeins á aðra verri til að réttlæta sjálfan sig, þá er aðeins ein leið og hún er niður á við. Sjúklingurinn þarf að viðurkenna vandann fyrir sjálfum sér og takast svo á við hann. Það getur enginn gert fyrir hann."

Kerfið úrelt á 10 árum

"Ég legg til að kerfið verði lagt niður á tíu árum. Það mætti nota til að mynda úreldingasjóð til að úrelda kvótann. Sjóðurinn gæti, með ríkisábyrgð, borgað upp öll óhagkvæm erlend lán með einu stóru erlendu láni á hagkvæmum kjörum. Það sama á við um innlend lán. Sá sem síðan kaupir sér kvóta er um leið að kaupa sér nýtingarrétt til tíu ára. Hafi hann hinsvegar nýtt átta af þessum tíu árum fær hann aðeins tveggja ára nýtingarrétt. Sá sem hinsvegar keypti bát í fyrra fær hinsvegar mestan rétt. Þannig verður kvótinn úreltur á tiltölulega skömmum tíma. Þetta eru reyndar enn ómótaðar hugmyndir sem ég hef engu að síður borið undir marga og fengið mjög jákvæð viðbrögð."

Guðmundur segir að með baráttu sinni séu trillukarlar að berjast fyrir að fá að halda þeim rétti sem þeir hafi búið að í gegnum aldirnar. "Við erum að berjast fyrir lífi okkar. Kerfið hefur hinsvegar skapað stöðuna eins og hún er í dag, að það skyldi vera hægt að selja undan okkur atvinnuna og nýtingarréttinn á miðunum í kringum okkur. Ég er hinsvegar ekki að fella neinn dóm yfir mönnunum sem seldu aflaheimildirnar héðan. Þeir fóru aðeins eftir lögunum. Það voru alþingismenn sem bjuggu til kerfið.

Markmið fiskveiðistjórnunarlaganna er að byggja upp fiskistofnana og byggja með því upp atvinnu og byggð í landinu. Við erum aðeins að reyna að framfylgja markmiði laganna, að byggja upp atvinnu og byggð í landinu," segir Guðmundur Halldórsson.