Klemens Einarsson
Klemens Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AF samtölum Morgunblaðsins við trillukarla á norðanverðum Vestfjörðum má merkja að mikil óvissa ríkir um útgerð smábáta. Þeir segja ljóst að ef lögin ganga óbreytt eftir dragi verulega úr útgerðinni og að línuútgerð þeirra muni að mestu leggjast af.

AF samtölum Morgunblaðsins við trillukarla á norðanverðum Vestfjörðum má merkja að mikil óvissa ríkir um útgerð smábáta. Þeir segja ljóst að ef lögin ganga óbreytt eftir dragi verulega úr útgerðinni og að línuútgerð þeirra muni að mestu leggjast af.

Klemens Einarsson, útgerðarmaður á Birtu Dís ÍS, sagðist ekki eiga margra kosta völ þegar Morgunblaðið ræddi við hann á höfninni á Suðureyri. "Ég fæ úthlutað um 9 tonnum af ýsu og það tekur því ekki að byrja með svo lítinn kvóta. Ég fékk um 130 tonn af ýsu á vertíðinni í vor en hef lítið verið að í sumar. Ég hef verið með fjóra til fimm menn í beitningu og það er erfitt að segja til um hvað verður. Ég á um 70 tonna þorskkvóta sem þá sennilega yrði tekinn á handfæri. Það er óvissan sem manni þykir svo slæm. Það á eftir enn að kynna niðurstöður endurskoðunarnefndarinnar. Ég bind hinsvegar ekki mjög miklar vonir við nefndina og hef á tilfinningunni að hún hafi aðeins átt að friða þá sem létu ófriðlega. Hún hefur hinsvegar engu skilað og þess vegna hefði átt að fresta lögunum."

Klemens sagði marga trillukarla í svipuðum sporum, fáir hafi nægan kvóta til að geta hafið línuveiðar. "Ég hef orðið var við mikla svartsýni og margir ræða um að flytja héðan," sagði Klemens.

Ef-in eru enn of mörg

Skarphéðinn Gíslason, fyrrum togaraskipstjóri á Ísafirði og nú útgerðarmaður Jóns Emils ÍS, tekur í sama streng. "Maður veit ekkert hvað verður, málin eiga eftir að skýrast. Ég hef aðeins róið á þessum bát í 18 mánuði og því með mjög litla viðmiðun í ýsu. Ég er með um 50 tonna þorskkvóta og það sjá allir að það er ekki grundvöllur fyrir að gera út á það. Ef-in eru hinsvegar enn of mörg til að maður geti sagt af eða á, það er til dæmis ekki ljóst hvað leiguverðið verður hátt og hvað kemur út úr endurskoðunarnefndinni," sagði Skarphéðinn.