Jón Guðbjartsson, útgerðarmaður á Bolungarvík.
Jón Guðbjartsson, útgerðarmaður á Bolungarvík.
JÓN Guðbjartsson, útgerðarmaður togbátsins Gunnbjörns ÍS frá Bolungarvík, segist afar ósáttur við þær lagabreytingar sem nú sé gripið til varðandi veiðistjórn krókabáta.

JÓN Guðbjartsson, útgerðarmaður togbátsins Gunnbjörns ÍS frá Bolungarvík, segist afar ósáttur við þær lagabreytingar sem nú sé gripið til varðandi veiðistjórn krókabáta. Hann segir að verið sé að hygla smábátum á kostnað aflamarksskipanna og þar beri þingmenn Vestfjarða mikla ábyrgð.

"Ef sjávarútvegsáðherra flytur aflaheimildir af aflamarksskipum yfir á trillur þá er það í mínum huga ekkert annað en þjófnaður," segir Jón. "Þetta eru atvinnuréttindi sem við höfum keypt fyrir okkar útgerðir, á grundvelli laga sem allir hafa samþykkt. Í mínu tilfelli verða tekin um 15 tonn af ýsu og um 8 tonn af steinbít. Þetta eru ekki háar tölur en staðreyndin er engu að síður sú að þennan kvóta keypti ég fyrir fáum árum fyrir dágóðan pening. Nú á að taka þetta af mér og færa öðrum."

Jón segist með þessum orðum alls ekki vera að beina spjótum sínum sérstaklega að trillukörlum í Bolungarvík eða annars staðar á landinu. Þeir hafi einungis nýtt þær glufur sem kerfið bauð. Það séu hinsvegar þingmennirnir sem hafi aldrei haft kjark til að koma málefnum smábáta í endanlegt horf. "Það má til dæmis bera þetta saman við landbúnað. Þar var málinu lokað með því að setja á einn kvóta. Það dytti engum í hug að færa mjólkurkvóta frá Vestfjörðum til Suðurlands. Þannig er þetta hinsvegar í sjávarútvegi. Þar hafa trillurnar nánast leikið lausum hala undanfarin ár."

Margir trillukarlar eru stórútgerðarmenn

Jón segir ábyrgðina einnig hvíla hjá fjölmiðlum, sem hafi undanfarin ár dregið upp ranga mynd af málum. "Menn með sterka áróðursmöguleika, líkt og talsmenn Landssambands smábátaeigenda með allan þennan flota á bak við sig, hafa fengið að sýna þjóðinni fram á það í fjölmiðlum að þeir séu minni máttar í þessu máli og að þeir hafi mest orðið fyrir barðinu á kerfinu. Staðreyndin er hinsvegar sú að það er sífellt verið að auka á heimildir smábátanna. Í hvert sinn sem gerðar hafa verið breytingar á þessu kerfi, sem er nánast alltaf þegar vestfirskur þingmaður opnar munninn, hefur kvóti eða atvinnumöguleikar þessa hóps útgerðarmanna verið aukinn. Þetta eru með sanni orðnir stórútgerðarmenn því margir þeirra eru að velta tvöfalt eða þrefalt á við mína útgerð sem er með nærri 200 tonna skip."

Hefði þurft að grípa fyrr í taumana

Jón segir að stjórnvöld hefðu þurft að grípa í taumana fyrir fimm til sex árum og setja kvóta á alla báta. "Þingmenn Vestfjarða bjarga ekki sjávarútvegi í landshlutanum með því að taka fisk af einum og láta annan hafa hann. Þeir hefðu betur horft fram á veginn og gert mönnum kleift að kaupa kvóta, í stað þess að stela honum frá öðrum. Það hefði t.d. mátt stofna hér uppbyggingarsjóð, hugsanlega með stuðningi ríkisins, með það að markmiði að aðstoða menn við að kaupa kvóta. Slíkur sjóður hefði getað staðið undir sér."

Jón segir þingmenn Vestfjarða hafa hvatt marga til að hefja smábátaútgerð á undanförnum árum. Staða margra þessara útgerða verði hinsvegar mjög slæm þegar breytingarnar verða á lögunum. "En það er ekki nóg með að þeir standi illa, heldur hefur staða annarra versnað einnig. Er til dæmis virkilega verið að taka 400 tonna ýsukvóta af Vestmannaeyingum? Hvar eru þingmenn Sunnlendinga núna? Þingmenn Vestfjarða hafa frá upphafi sagt mönnum að taka ekkert mark á kvótakerfinu og hafa gengið fram í því að reyna að eyðileggja kerfið. Núna höfum við meira að segja eignast prestlærðan þingmann sem finnst sjálfsagt að tekið sé af einum til að láta annan hafa. Ef ég man rétt þá kennir kristnin okkur að það sé rangt að stela.

Þeir fáu vestfirsku útgerðarmenn sem tóku á sínum tíma ekki mark á þingmönnunum og keyptu til sín kvóta standa núna einir og sterkir eftir, allir hinir farnir á hausinn.

Ég er í sjálfu sér óánægður með að þorskkvótinn skuli skerðast en það er ekkert við því að gera. Það er hinsvegar betl vestfirskra þingmanna sem ég er afar ósáttur við. Hvað biðja þeir um næst? Ég er ekki á móti trillukörlum sem slíkum eða því fólki sem er að berjast fyrir atvinnurétti sínum. Ég er hinsvegar á móti þeirri aðferðafræði sem notuð er við að byggja upp atvinnu á svæðinu," segir Jón.