Jóhann Þórhallsson vinnur boltann í vítateig Stjörnunnar og skorar fyrsta mark Þórs í leiknum á Akureyrarvellinum í gærkvöld. Þórsarar standa vel að vígi í deildinni eftir sigur, 3:2.
Jóhann Þórhallsson vinnur boltann í vítateig Stjörnunnar og skorar fyrsta mark Þórs í leiknum á Akureyrarvellinum í gærkvöld. Þórsarar standa vel að vígi í deildinni eftir sigur, 3:2.
ÞÓR innbyrti sigur gegn Stjörnunni á elleftu stundu í gær, 3:2, og er liðið því í góðri stöðu þegar tveimur umferðum er ólokið í 1. deild. Þórsarar eru með 35 stig, stigi á eftir KA.

ÞÓR innbyrti sigur gegn Stjörnunni á elleftu stundu í gær, 3:2, og er liðið því í góðri stöðu þegar tveimur umferðum er ólokið í 1. deild. Þórsarar eru með 35 stig, stigi á eftir KA. Stjarnan situr eftir með 29 stig og er væntanlega úr leik í baráttunni um sæti í efstu deild. Þar geta Þróttarar hins vegar sett strik í reikning Akureyrarliðanna en Þróttur er með 31 stig og á eftir að mæta KA og Stjörnunni. Í næstu umferð mætast Þór og KA og er líklegt að það verði úrslitaleikurinn um sigur í deildinni.

Þórsarar byrjuðu af miklum krafti við ágætar aðstæður á Akureyrarvelli. Jóhann Þórhallsson fékk knöttinn inn fyrir vörn Stjörnunnar eftir innkast á 3. mínútu og renndi knettinum í netið. Laglega gert en Jóhann virtist þó rangstæður þegar knötturinn var sendur inn á hann. Á 17. mín. vann Orri Hjaltalín knöttinn af Stjörnumönnum og sendi hann inn á Jóhann sem skoraði af stuttu færi. Staðan orðin 2:0. Stjarnan náði snarpri sókn á 18. mínútu, knötturinn barst inn á vítateig á Garðar Jóhannsson sem skilaði honum í netið, 2:1. Stjarnan var mun sterkara liðið það sem eftir lifði hálfleiksins en tókst ekki að jafna. Undir lokin voru Þórsarar síðan aðgangsharðir og vildu fá vítaspyrnu þegar Orri virtist felldur.

Seinni hálfleikur var daufari. Stjarnan byrjaði betur en síðan var jafnræði með liðunum. Það var varla ósanngjarnt að Stjarnan skyldi jafna á 76. mín. en markið var umdeilt. Ólafur Páll Snorrason sendi á Adólf Sveinsson sem skoraði en varnarmaður Þórs lá eftir og töldu heimamenn að brotið hefði verið á honum. Halldór Áskelsson fyrirliði fékk rautt spjald fyrir munnsöfnuð en hann var þá reyndar kominn af velli. Það var komið fram yfir venjulegan leiktíma þegar Jóhann Þórhallsson fór vel með boltann við vítateig Stjörnunnar og sendi á Orra sem gaf á Júlíus Tryggvason. Hann þrumaði knettinum í bláhornið og 3:2 sigur Þórs var í höfn.

"Það var sætt að sjá þennan bolta liggja í netinu. Þetta var orðið ansi tæpt. Staða okkar er vissulega góð eftir sigurinn en það eru tveir erfiðir leikir eftir. Ég trúi ekki öðru en að menn hafi vilja til að klára þetta og það verður gaman að mæta KA í næsta leik," sagði Júlíus, sem kom inn á fyrir Halldór Áskelsson í upphafi síðari hálfleiks.

Arnór Guðjohnsen þjálfari Stjörnunnar átti góðan leik og liðið spilaði vel á köflum. "Við höldum auðvitað áfram að berjast en sæti í efstu deild er nú fjarlægur möguleiki. Þórsarar eru sex stigum á undan og með mun betra markahlutfall. Það var óþarfi að fá á sig þessi tvö mörk í byrjun. Þórsarar eru með tvo flinka stráka frammi en við erum að mínu mati með betur spilandi lið," sagði Arnór.

Maður leiksins: Jóhann Þórhallsson, Þór.

Leiftur á lygnari sjó

Leiftursmenn þokuðu sér af mesta hættusvæðinu með góðum 4:1 sigri á Víkingum á Ólafsfirði. Víkingar náðu forystu um miðjan fyrri hálfleik. Daníel Hafliðason átti þá magnaða rispu sem endaði með skoti sem fór í Jón Grétar Ólafsson og í mark. Víkingar voru klaufar að bæta ekki við mörkum en Þorvaldur Jónsson í marki Leifturs varði oft stórkostlega. Leiftur komst yfir skömmu síðar. Fyrst skoraði Alexandre Santos og síðan lagði hann upp annað mark fyrir Michael Carter. Leiftursliðið lá aftarlega á vellinum í seinni hálfleik og skoraði úr tveimur stórhættulegum skyndiupphlaupum. Fyrst John MacDonald eftir gríðarlanga sendingu frá Da Silva og Santos innsiglaði sigurinn. Enginn bar af hjá Víkingum en Daníel sýndi skemmtilega takta. Þorvaldur Jónsson markvörður og Santos voru þeir sem skiptu sköpum fyrir heimamenn. Sum úthlaupin hjá Þorvaldi voru ævintýraleg og Santos skapaði ávallt hættu, þá sjaldan hann fékk boltann.

Maður leiksins : Þorvaldur Jónsson, Leiftri.

Stefán Þór Sæmundsson skrifar