"ÞAÐ þarf allt að ganga upp hjá okkur til að við eigum möguleika," sagði Árni Gautur Arason, markvörður Íslands, um viðureign liðsins gegn Tékkum á laugardag. Liðið tapaði sem kunnugt er 4:0 ytra og og hefur því til mikils að vinna hér heima.

"ÞAÐ þarf allt að ganga upp hjá okkur til að við eigum möguleika," sagði Árni Gautur Arason, markvörður Íslands, um viðureign liðsins gegn Tékkum á laugardag. Liðið tapaði sem kunnugt er 4:0 ytra og og hefur því til mikils að vinna hér heima. "Ég held að menn séu staðráðnir í að gera betur núna."

Eigum við enn möguleika á að komast upp úr riðlinum?

"Við verðum bara að sjá til hvernig gengur nú í þessum tveimur leikjum sem framundan eru. Þetta verður mjög erfitt, menn gera sér alveg grein fyrir því. Við ætlum hins vegar að reyna að gera okkar besta og sjá svo til."

Árni Gautur leikur með Rosenborg í norsku knattspyrnunni. Liðið er enn í toppbaráttu í norsku deildinni og er sem stendur í efsta sæti. Nýlega var dregið í riðla í meistaradeild Evrópu og þar hafnaði Rosenborg með Porto, Juventus og Celtic. "Mér líst svona þokkalega á riðilinn og við teljum okkur eiga góða möguleika. Við vorum að vonast til að sleppa við Juventus. Við höfum spilað tvisvar við þá áður. Menn voru því að vonast eftir ensku liði en það er svo sem allt í lagi. Okkur hefur gengið mjög vel að undanförnu í norsku deildinni. Við vitum að það verður erfiðara núna en nokkru sinni áður að ná í titilinn. Það hefur sjaldan verið svona mikil spenna í þessu," sagði Árni Gautur Arason.