[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MÉR finnst sjálfum næsta furðulegt að lesa hugleiðingar á þann veg að ég sé að verða einn helsti talsmaður ríkisrekstrar á útvarpi. Þetta segir Björn Bjarnason menntamálaráðherra m.a. á vefsíðu sinni nýlega.

Engar kvartanir

Á vefsíðu sinni segir Björn Bjarnason m.a.:

"Skólarnir taka til starfa hver af öðrum. Ég gat þess fyrr í sumar, að ég hefði fengið heldur sóðalegar kveðjur frá nokkrum grunnskólanemum, vegna þess að grunnskólinn hefst nú fyrr en áður vegna nýrra kjarasamninga kennara. Nú þegar skólinn hefst fæ ég ekki neinn slíkan tölvupóst og raunar ekki neinar kvartanir vegna skólanna."

BBC

"Menn eru helst að skrifa mér núna vegna umræðnanna um RÚV. Sýnist sitt hverjum um það hvernig eigi að laga þessa stofnun að nýjum kröfum. Í því sambandi er athyglisvert að fylgjast með umræðunum í Bretlandi, en æ fleiri, þeirra á meðal vikuritið The Economist, hallast nú að því, að tími BBC sem ríkisfyrirtækis sé á enda kominn, BBC hafi ekki þá sérstöðu lengur, sem réttlæti að ríkið reki það."

Stangast á

"Af þeim ráðum sem ég fæ send í tölvupósti vegna framtíðar RÚV dreg ég helst þá ályktun, að annaðhvort vilji menn óbreytt ástand eða að RÚV hverfi alveg úr ríkiseign. Mér finnst sjálfum næsta furðulegt að lesa hugleiðingar á þann veg að ég sé að verða einn helsti talsmaður ríkisrekstrar á útvarpi. Stangast það að minnsta kosti allrækilega á við það sem Jón Ásgeir Sigurðsson, formaður starfsmannasamtaka RÚV, hélt fram á málþingi um fjölmiðla fyrir nokkru í Háskóla Íslands, þegar hann leitaðist við að sýna fram á einstaka óvild mína í garð RÚV."