Skipulagsstofnun hefur kveðið upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði og fallizt á byggingu allt að 420 þúsund tonna álvers og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju þar.

Skipulagsstofnun hefur kveðið upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði og fallizt á byggingu allt að 420 þúsund tonna álvers og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju þar. Ekki er hægt að segja að þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar komi á óvart en hins vegar leiðir hún til þess að upp er komin sérstök staða vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar er henni lýst á þennan veg:

"Í úrskurði Skipulagsstofnunar þann 1. ágúst 2001 um Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW var lagst gegn framkvæmdinni eins og hún var lögð fram í tveimur áföngum og fjórum verkhlutum vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar. Þessi niðurstaða hefur í för með sér verulega óvissu um það, hvernig aflað verði nauðsynlegrar orku fyrir álverið."

Orðalagið vekur óneitanlega athygli. "...var lagst gegn framkvæmdinni eins og hún var lögð fram..." Þessi orð má skilja á þann veg að yrðu áform um Kárahnjúkavirkjun lögð fram með einhverjum öðrum hætti gæti niðurstaða stofnunarinnar orðið önnur.

En hvað sem því líður má telja líklegt að afstaða Skipulagsstofnunar til byggingar álvers og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði verði þeim aðilum í herbúðum ríkisstjórnarflokkanna sem vilja leita leiða til þess að snúa úrskurði Skipulagsstofnunar vegna Kárahnjúkavirkjunar við hvatning til þess að herða róðurinn í þeim efnum.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar nú veldur því að upp er komin áhugaverð staða í opinberum umræðum um þetta mál. Þeir sem hafa haldið því fram að afstaða Skipulagsstofnunar til Kárahnjúkavirkjunar hafi ekki byggzt á málefnalegum rökum munu eiga erfitt með að fagna niðurstöðu stofnunarinnar nú á þeirri forsendu að hún sé faglega unnin. Með sama hætti eiga þeir, sem fögnuðu úrskurði Skipulagsstofnunar vegna virkjunarinnar á þeirri forsendu að hún væri faglega unnin, erfitt með að halda því fram að sama fagmennska hafi ekki ráðið niðurstöðu stofnunarinnar varðandi álver í Reyðarfirði.

Það er erfitt að átta sig á hvers vegna meiri eða minni fagmennska hefði átt að ráða ferðinni í öðrum úrskurðinum en ekki hinum.

Miðað við þær athugasemdir, sem fram hafa komið hjá ráðherrum í ríkisstjórninni, má telja líklegt að af hálfu ríkisstjórnarinnar verði lögð mikil vinna í að finna efnisleg rök fyrir því að snúa úrskurði Skipulagsstofnunar vegna Kárahnjúkavirkjunar við. Þau rök þurfa að vera sterk til þess að slík niðurstaða yrði trúverðug gagnvart almenningi.

Það er hins vegar mikilvægt að fólk átti sig á að hér eru allt önnur vinnubrögð á ferðinni en í umræðum um Fljótsdalsvirkjun. Þá átti að nota gamalt virkjanaleyfi, sem veitt hafði verið löngu fyrir setningu laganna um mat á umhverfisáhrifum, til þess að byggja þá virkjun þótt öll viðhorf væru gjörbreytt.

Nú stendur yfir ferli sem er í samræmi við þau lög sem Alþingi hefur sett um þetta efni. Bæði fyrirhuguð virkjun og fyrirhugað álver hafa verið sett í umhverfismat lögum samkvæmt. Því ferli er ekki lokið. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum að hægt sé að kæra úrskurði Skipulagsstofnunar til ráðherra. Komizt ráðherra að annarri niðurstöðu en Skipulagsstofnun er það líka í samræmi við lögin. Hins vegar er ljóst að ráðherra þarf að færa rök fyrir máli sínu sem almenningur skynjar sem efnisleg rök en ekki pólitíska geðþóttaákvörðun. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að það eru ekki einungis þeir, sem eru andvígir úrskurði Skipulagsstofnunar vegna virkjunarinnar, sem geta kært til ráðherra. Þeir sem eru andsnúnir úrskurði stofnunarinnar vegna álversins sjálfs geta einnig kært til ráðherra.

Það er því verið að fylgja landslögum um mat á umhverfisáhrifum í einu og öllu í því ferli sem nú stendur yfir og því má fólk aldrei gleyma.

Ástæða er til að vekja athygli á að þetta er í fyrsta sinn sem verulega reynir á lögin um mat á umhverfisáhrifum. Í ljósi þess hvað þau hafa verið mikill kjarni í þjóðfélagsumræðum á Íslandi síðustu árin er það umhugsunarefni hvað umræður um lögin voru litlar á Alþingi þegar þau voru sett. Það er of mikið að segja að þau hafi verið samþykkt án umræðna en þær umræður voru mjög takmarkaðar þegar haft er í huga um hve mikilvæga lagasetningu var að ræða. Hvað skyldi hafa valdið því? Skilningsleysi þingmanna á mikilvægi málsins eða áhugaleysi?

Nú þegar hafa komið upp ábendingar um nauðsyn breytinga á lögunum og hefur Aðalheiður Jóhannsdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur í umhverfisrétti, m.a. vakið athygli á nauðsyn þess í samtölum við Morgunblaðið. Það er full ástæða til að veita þeim athugasemdum athygli og eðlilegt væri að þingnefnd fjallaði um þær ábendingar og aðrar sem fram hafa komið um hina lagalegu hlið málsins.

Hér er að sjálfsögðu um stórpólitískt mál að ræða. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa lagt mikið undir, að þessi áform og önnur um stóriðju gangi upp. Og það er rétt sem Þórður Friðjónsson, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, hefur bent á að þetta er í fyrsta sinn sem umtalsverð eftirspurn virðist vera eftir aðstöðu til þess að byggja álver á Íslandi. Þrír aðilar hafa nú lýst slíkum áhuga, þ.e. Norsk Hydro, Norðurál og móðurfyrirtæki ÍSALs í Straumsvík. Hins vegar er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir að engir samningar eru í höfn, hvorki um byggingu álvers á Reyðarfirði eða um stækkun á Grundartanga og í Straumsvík. Við höfum áður verið nærri því að ná slíkum samningum en þeir farið út um þúfur.

En óneitanlega eru aðstæður breyttar frá því sem var fyrir nokkrum misserum þegar Fljótsdalsvirkjun var á dagskrá. Efnahagslífið er að síga niður í öldudal og mikil þörf á nýju fjármagni inn í atvinnulífið.