HÁHYRNINGURINN Keikó er nú aftur kominn í Klettsvíkina í Vestmannaeyjum og verður hann þar í vetur.

HÁHYRNINGURINN Keikó er nú aftur kominn í Klettsvíkina í Vestmannaeyjum og verður hann þar í vetur. Síðustu þrjá mánuði hafa verið gerðar tilraunir til að sleppa honum út í villta náttúru, en Keikó er ekki talinn hafa samlagast öðrum háhyrningum nægilega vel, auk þess sem hann hefur ekki aflað sér fæðu sjálfur. Háhyrningar halda ekki lengur til við Vestmannaeyjar, þar sem sumri er farið að halla.

Hallur Hallsson, talsmaður Ocean Futures samtakanna, segir að því hafi verið ákveðið að hafa Keikó áfram í Klettsvíkinni í vetur, og verður tekin ákvörðun um framtíð hans á Íslandi á næstu vikum.

Aðspurður segir Hallur að það fylgi því mikill kostnaður að halda dýrinu áfram í Vestmannaeyjum. Hann segir að Ocean Futures hafi skuldbundið sig við íslensk stjórnvöld til að annast velferð dýrsins fari Keikó ekki út í villta náttúru. "Menn hafa alltaf gert sér grein fyrir því að það var engan veginn sjálfgefið og líkurnar ekkert endilega með okkur," segir hann.

Reynt verður að draga úr kostnaði

"Við þessa breytingu munum við reyna að straumlínulaga þetta og draga úr kostnaði eðli málsins samkvæmt. Það segir sig sjálft að ef hann verður þarna í Eyjum er líklegt að við munum fækka starfsfólki að einhverju leyti." Hallur segir að um 30 manns hafi unnið í tengslum við verkefnið í sumar, nú séu það um 15-18 manns. Hallur segir að þar af komi Íslendingar að öryggisgæslu, köfun og ýmsum öðrum störfum.

Hallur segir að þjálfarar Keikós telji að mikill árangur hafi náðst síðustu þrjá mánuði. Keikó hafi oft átt samskipti við háhyrninga, hann hafi synt að hópum og háhyrningar hafi nálgast hann. Einnig hafi hann að eigin frumkvæði yfirgefið þjálfara sína og dvalið langdvölum í hafi.

Samhliða tilraunum til að sleppa Keikó áttu sér stað í sumar víðtækar rannsóknir á háhyrningum við Vestmannaeyjar, í samvinnu við íslensk stjórnvöld og Hafrannsóknastofnun. Kennsl hafa verið borin á hátt í eitt hundrað dýr með ljósmyndum, hljóðsamskipti háhyrninga voru tekin upp á band, sendar hafa verið settir á háhyrninga til að fylgjast með ferðum þeirra, erfðasýni tekin úr dýrunum og hegðunarmynstur þeirra skrásett úr lofti.