HAGNAÐUR Sparisjóðsins í Keflavík var 82 milljónir á fyrstu sex mánuðum þessa árs, að teknu tilliti til skatta, samanborið við 69 milljónir á sama tímabili í fyrra, sem er um 17% hækkun á milli ára.

HAGNAÐUR Sparisjóðsins í Keflavík var 82 milljónir á fyrstu sex mánuðum þessa árs, að teknu tilliti til skatta, samanborið við 69 milljónir á sama tímabili í fyrra, sem er um 17% hækkun á milli ára. Hagnaður fyrir skatta var 114 milljónir, jókst um 13% frá fyrra ári.

Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, segist vera ánægður með afkomuna á fyrstu sex mánuðum ársins. Afkoman sé umfram áætlanir af reglulegri starfsemi sjóðsins. Hann segir að grunnurinn að bættri afkomu sé að vaxtatekjur Sparisjóðsins af útlánum hafi aukist um 442 milljónir króna milli ára. Sparisjóðurinn hafi lánað mikið í fyrra og það skili sér í árshlutareikningnum nú. Verðbólgan hjálpi reyndar til í þeim efnum. Geirmundur segir að vanskil lántakenda hafi ekki aukist en framlag í afskriftarreikning útlána var 53 milljónir á fyrstu sex mánuðum þessa árs samanborið við 42 milljónir á sama tíma árið 2000.

Heildarinnlán Sparisjóðsins í Keflavík ásamt lántöku námu um 11.578 milljónum króna, jukust um 4,9%. Útlán Sparisjóðsins ásamt markaðsskuldabréfum námu 12.787 milljónum, sem er 8,4% aukning frá fyrra ári. Vaxtatekjur af útlánum jukust um 442 milljónir króna milli ára, námu 761 milljón á fyrstu sex mánuðum síðasta árs en 1.153 milljónum á sama tímabili í ár.

Í júnílok var niðurstöðutala efnahagsreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 15.540 milljónir króna og hafði hún hækkað á árinu um 963 milljónir. Eigið fé nam 1.637 m.kr. og hafði það aukist um 115 milljónir frá áramótum. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 10,8%. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum er 10,06% en má lægst vera 8%.

Þann 30. júní 2001 var stofnfé Sparisjóðsins í Keflavík 600 milljónir króna að nafnvirði og dreifðist það niður á 565 aðila.

Sparisjóðurinn í Keflavík rekur fjórar afgreiðslur sem starfræktar eru í Keflavík, Njarðvík, Garði og Grindavík.