Samninginn  undirrituðu  Pétur Jónsson, formaður Ferðamálafélags V-Hún., og Jón Jónsson hjá Sögusmiðjunni.
Samninginn undirrituðu Pétur Jónsson, formaður Ferðamálafélags V-Hún., og Jón Jónsson hjá Sögusmiðjunni.
Á ÞESSU ári hefur áhugamannahópur, undir stjórn Byggðasafnsins á Reykjum og Ferðamálafélags V-Hún., unnið að hugmyndagerð að sögu- og menningartengdu verkefni sem hlotið hefur heitið Grettistak.

Á ÞESSU ári hefur áhugamannahópur, undir stjórn Byggðasafnsins á Reykjum og Ferðamálafélags V-Hún., unnið að hugmyndagerð að sögu- og menningartengdu verkefni sem hlotið hefur heitið Grettistak. Verkefnið byggist á Gretti sterka Ásmundarsyni og sögu hans - einkum í Húnaþingi. Margir sögustaðir í héraðinu og reyndar vítt um land eru tengdir Grettissögu og er áhugi almennings mjög vaxandi á þeim fræðum.

Á dögunum var undirritaður samningur milli Sögusmiðjunnar á Kirkjubóli á Ströndum og undirbúninshópsins. Eigandi Sögusmiðjunnar er Jón Jónsson þjóðháttafræðingur. Hann tekur að sér að vinna stefnumörkun, með skilgreiningu verkefnisins, uppbyggingu þess, fjármögnun og tímaáætlunum. Nú þegar hafa nokkur samtök og sjóðir styrkt þetta framtak með framlögum til að gera þessa undirbúningsvinnu mögulega.

Skýrsla verður samin og hún lögð fyrir fjárlaganefnd Alþingis, sveitarstjórn Húnaþings vestra svo og ýmsa landssjóði, sem styrkja nú þegar mörg slík verkefni vítt um land. Reikna má með að nokkur ár líði þar til uppbyggingu verður lokið en stefnt er að því að sitthvað verði sýnilegt strax á næsta sumri.

Í nóvember verður efnt til málþings í héraðinu um Gretti og sögu hans, en þungamiðja hennar er Miðfjörður.