HÓPUR íslenskra fjárfesta undir forystu Kaupþings hf. hefur fest kaup á um helmings hlut í breska tískuvörufyrirtækinu Karen Millen.

HÓPUR íslenskra fjárfesta undir forystu Kaupþings hf. hefur fest kaup á um helmings hlut í breska tískuvörufyrirtækinu Karen Millen.

Karen Millen hefur um árabil verið leiðandi í sölu og framleiðslu tískufatnaðar í Bretlandi og markað sér nokkra sérstöðu meðal framleiðanda kvenfatnaðar. Síðastliðin 5 ár hefur fyrirtækið verið rekið með hagnaði og veltuaukning verið að meðaltali 55% á ári. Um síðustu áramót voru 75 verslanir starfræktar undir merkjum Karen Millen og er sala á hvern fermetra með því hæsta sem gerist sé litið til sambærilegra verslana, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kaupþingi.

Áætluð velta fyrirtækisins á yfirstandandi rekstrarári nemur um 9 milljörðum íslenskra króna. Að undanförnu hefur verið lögð aukin áhersla á erlenda markaði en 10 verslanir undir nafni Karen Millen eru nú reknar utan heimamarkaðar félagsins. Meðal fjárfesta eru þeir Sigurður Bollason og Magnús Ármann sem munu samhliða kaupunum ráðast til starfa hjá félaginu. Stofnendur Karen Millen, þau Kevin Stanford og Karen Millen, munu eftir sem áður vera meirihlutaeigendur og helga fyrirtækinu starfskrafta sína.