SÍF samstæðan skilaði 180 milljóna króna hagnaði á fyrri hluta ársins og batnaði afkoman um 755 milljónir króna frá fyrri árshelmingi ársins 2000, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

SÍF samstæðan skilaði 180 milljóna króna hagnaði á fyrri hluta ársins og batnaði afkoman um 755 milljónir króna frá fyrri árshelmingi ársins 2000, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 797 milljónum króna en var 159 milljónir á sama tíma árið áður.

Iða Brá Benediktsdóttir hjá greiningadeild Kaupþings segir afkomu SÍF í takt við væntingar deildarinnar. "Við gerðum ráð fyrir 620 milljóna króna EBITDA án tillits til 122 milljóna króna söluhagnaðar af m/s Hvítanesi. Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstrinum frá því í fyrra sem sést á auknum EBITDA hagnaði og veltufé frá rekstri.

Félagið hefur breytt um uppgjörsaðferð og er gengismunur á erlendum lánum vegna fjármögnunar á kaupum á dótturfélögum erlendis færður yfir á eigið fé, sem ekki er óeðlilegt fyrir félag þar sem reksturinn fer að mestu leyti fram erlendis og eignirnar eru í erlendum myntum.

Á heildina litið er um ágætis uppgjör að ræða, einkum þegar haft er í huga að annar ársfjórðungur er venjulega slakastur hjá félaginu og vonandi er það til marks um að samlegðaráhrifin vegna sameiningarinnar við ÍS séu farin að skila sér. Rekstraraðstæður hafa verið félaginu ágætlega hagstæðar á árinu og það ríður á miklu að félagið nái að halda þessum rekstrarárangri á næstu misserum enda eiginfjárhlutfall félagsins 16,1%."