TAP Íslenska járnblendifélagsins hf. nam 165 milljónum króna á fyrri hluta ársins. Dregið hefur úr tapi félagsins frá sama tímabili í fyrra en þá nam það 275 milljónum króna.

TAP Íslenska járnblendifélagsins hf. nam 165 milljónum króna á fyrri hluta ársins. Dregið hefur úr tapi félagsins frá sama tímabili í fyrra en þá nam það 275 milljónum króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nam 22 milljónum króna en 95 milljóna króna tap varð í fyrra.

Í tilkynningu til VÞÍ segir að afkoma félagsins sé enn áhyggjuefni. Félaginu hafi tekist að lækka rekstrarkostnað á fyrri helmingi ársins en gengistap vegna lækkunar íslensku krónunnar hafi numið 629 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 176 milljónir árið áður. Ennfremur segir að eftirspurn eftir kísiljárni í Evrópu hafi verið viðunandi á fyrri hluta árs vegna niðurskurðar á kísiljárnframleiðslu í Skandinavíu og bræðsluofnar félagsins hafi verið reknir með fullum afköstum á tímabilinu. Heimsmarkaðsverð sé þó enn afar lágt.

Eigið fé félagsins var tæpir 4,5 milljarðar um mitt ár og hafði aukist úr 4,1 milljarði um áramót. Eiginfjárhlutfall var 44,2% í lok júní miðað við 44,6% um áramót.

Afkoman á seinni hluta ársins er sögð háð þróun kísiljárnmarkaðarins í Evrópu að verulegu leyti. Búast megi við auknum þrýstingi til verðlækkunar á kísiljárni í Evrópu á tímabilinu vegna afnáms undirboðstolla á innflutningi kísiljárns til landa Evrópubandalagsins.