Elísabet Unnardóttir hengir upp eitt verka sinna  í Listhúsinu.
Elísabet Unnardóttir hengir upp eitt verka sinna í Listhúsinu.
ELÍSABET Unnardóttir heitir myndlistarkona fædd á Íslandi en alin upp í Bandaríkjunum. Á fullorðinsárum ákvað hún að kynnast að nýju landi móður sinnar; - og það hefur hún gert með því að mála íslenska náttúru.

ELÍSABET Unnardóttir heitir myndlistarkona fædd á Íslandi en alin upp í Bandaríkjunum. Á fullorðinsárum ákvað hún að kynnast að nýju landi móður sinnar; - og það hefur hún gert með því að mála íslenska náttúru. Elísabet rekur galleríið Vintage House í Funkstown í Maryland-ríki, en leggur líka stund á ræktun íslenska fjárhundsins. Ytra er hún þekkt og virt fyrir myndlist sína og hefur haldið fjölmargar einkasýningar. En nú er komið að því að Elísabet Unnardóttir leyfi Íslendingum að sjá hvaða augum hún sér landið sem ól hana. Sýning á olíumálverkum hennar verður opnuð í Listhúsinu í Laugardal í dag og stendur til októberloka.

"Ég hef málað meira ein tvö hundruð myndir af Íslandi," segir Elísabet, "ég er búin að vera að mála Ísland í meira en fimm ár núna. Mér hefur fundist ég verða að gera þetta. Rætur mínar í Bandaríkjunum og hér togast á í mér og þessar tvær hliðará mér eru ólíkar. Hér finnst mér ég vera nærri náttúrunni; - kannski er það trjáleysið, - eitthvað er það. Veðrið hér í sumar hefur líka verið svo dæmalaust gott, að það hefur verið gaman að vera úti að mála." Á sýningunni nú verða eingöngu Íslandsmyndir. Reyndar hefur Elísabet sýnt Íslandsmyndir sínar vestra líka, og fyrir tveimur árum var hún með stóra sýningu með Íslandsmyndum sem gekk mjög vel.

Nýlega var settur upp skúlptúr eftir Elísabetu á hafnarsvæðinu í Baltimore. Verkið heitir Eric the Red Fish, og á það er grafið með rúnaletri: Leifur kom fyrstur.

Elísabet hefur komið sér upp heimasíðu þar sem hægt er að skoða myndir: http://www.elisabet.net.