[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenski hesturinn hefur oft komið fram á sýningum í Bandaríkjunum ásamt öðrum hrossakynjum. En nú á að halda sérstaka hátíð honum til heiðurs með sýningum og námskeiðum hjá íslenskum úrvals reiðkennurum. Ásdís Haraldsdóttir ræddi við hugmyndasmiðinn Björn Ólafsson.

VERKEFNIÐ gengur undir nafninu The Great Icelandic Horse Fair og verður það haldið í Albuquerque í Nýju-Mexíkó um mánaðamótin september-október. Meðal þess sem boðið verður upp á eru námskeið hjá þeim Benedikt Líndal, Eyjólfi Ísólfssyni, Eysteini Leifssyni og Reyni Aðalsteinssyni auk þess sem Ágúst Sigurðsson, hrossaræktarráðunautur Bændasamtakanna, mun fræða fólk um kynbótastarfið.

Eitt þúsund klukkustundir í sjálfboðavinnu

Upphaflega áttu hrossabændurnir Björn Ólafsson og Guðríður Gunnarsdóttir, sem betur eru þekkt undir nöfnunum Bjössi og Bíbí og búa á Þúfu í Kjós, hugmyndina um að setja saman námskeið og kynningu á íslenska hestinum í Bandaríkjunum í samstarfi við fólk sem þau höfðu kynnst í Colorado. Þar var fyrirhugað að halda sýninguna en ýmislegt varð þó til þess að ekki var hægt að gera það og því var verkefnið flutt til Nýju-Mexíkó. Þau fengu til liðs við sig einstaklega áhugasamt fólk, að sögn Björns, þar á meðal Ken Jones eiganda The Colorado Center for Equestrian Learning, Thom Olsen, markaðssérfræðing sem rekur sitt eigið fyrirtæki með um 100 manns í vinnu, The ICEgaiters sem er hópur áhugafólks um íslenska hestinn og Flying Change Icelandics í Vestur-Virginíu, sem er m.a. í eigu Söndru Newkirk, dressur-kennara sem fékk áhuga á íslenska hestinum. Björn sagði að allt þetta fólk hefði lagt á sig ómælda vinnu og reiknast þeim til að þau hafi eytt um 1000 klukkustundum í sjálfboðastarf svo af þessum viðburði gæti orðið.

Verkefnið er því orðið mun umfangsmeira en upphaflega stóð til og er ákveðið að bjóða upp á ýmsar kynningar og sýningar í tengslum við það. Leigð hefur verið glæsileg aðstaða á New Mexico State Fair Grounds, m.a. tvær reiðhallir, kappreiðavöllur og önnur aðstaða utandyra. Námskeiðin hefjast 4. október og standa til 7. október, en ákveðið var að bjóða upp á sérstaka sýningu fyrir hóp af svokölluðum hunter-jumper reiðmönnum sem verða með ráðstefnu í borginni á þessum tíma. Sú sýning verður 30. september og sagði Björn ekki ónýtt ef hægt væri að snúa einhverjum þar og vekja áhuga þeirra á íslenska hestinum.

Þeim sem þora boðið að taka þátt í ístöltkeppni

Sjálft verkefnið hefst hins vegar með sýningu að kvöldi 3. október þar sem lögð verður áhersla á að sýna fjölhæfni íslenska gæðingsins auk þess sem fléttað verður inn í sýninguna ýmsum skemmti- og spennuatriðum. Sýningin verður opin almenningi.

Námskeiðin sjálf hefjast svo 4. október og verða fjögur námskeið í gangi á hverjum degi hjá hverjum kennara fyrir sig. Síðan skiptir fólk yfir í næsta hóp daginn eftir og svo koll af kolli. Björn sagði að þegar væri nánast orðið fullt á námskeiðin og meðal þeirra sem hafa skráð sig eru margir góðir reiðmenn. Að loknum námskeiðunum á sunnudag verður efnt til opins umræðufundar um stöðu og markaðssetningu íslenska hestsins í Norður-Ameríku. Námskeiðunum lýkur svo með því að boðið verður upp á einkakennslu næstu tvo daga á eftir.

"Þegar við fórum svo fram á að leigja íshokkíhöllina, The Outpost Ice Arena, héldu margir að við værum eitthvað skrítin," sagði Björn. "Þeir spurðu hvað þeir ættu að breiða yfir ísinn þegar þeir fréttu að við værum að leigja höllina undir hestasýningu og urðu steinhissa þegar við sögðum að hrossunum yrði riðið á ísnum enda höfðu þeir aldrei heyrt um slíkt. Líklega verður þetta í fyrsta sinn sem það er gert í Bandaríkjunum, en við ætlum að vera með sýningu á svellinu og setja upp ístöltkeppni þar sem þeim sem þora er boðin þátttaka. Á eftir verður krýndur fyrsti ístöltmeistari Bandaríkjanna."

Markaðssérfræðingur með kynningarherferð

Á sama tíma og The Great Icelandic Horse Fair stendur yfir fer fram The Kodak International Balloon Fiesta sem er sá viðburður sem er hvað mest ljósmyndaður í heiminum. Aðstandendur kynningarátaksins hugsa því gott til glóðarinnar að vekja athygli á íslenska hestinum meðal þess gífurlega fjölda fólks sem kemur til að mynda loftbelgina. Annars sagði Björn að Thom Olsen hefði stjórnað mikilli kynningarherferð. Meðal annars mun forsíðugrein næsta tölublaðs tímaritsins The Horsemen´s Voice fjalla um Íslandshestasýninguna auk þess sem fjallað verður um hana í útvarpi. Þá hefur verið samið um að sjónvarpað verði frá a.m.k. tveimur sýningum, m.a. sýningunni á ísnum. Dreifibréfum hefur verið dreift í þúsundavís og fulltrúar hátíðarinnar hafa talað beint við alla helstu fjölmiðla í Nýju-Mexíkó, Colorado og Arizona.

Verkefnið hefur ekki notið styrkja úr neinum sjóðum en íslenska sendiráðið í Washington DC hefur veitt mikla aðstoð við undirbúninginn. Nokkur íslensk fyrirtæki ætla að nota tækifærið og kynna vörur sýnar og þjónustu á sýningunni, svo sem Íshestar, Benni´s Harmony og Ástund. Einnig standa yfir viðræður við Flugleiðir og Ferðamálaráð um stuðning og þá jafnframt kynningu. En Björn segir að þetta ævintýri sé ákaflega dýrt og hann vonist bara til að árangurinn verði í samræmi við það og alla vinnuna sem lögð hefur verið fram. Enn sé tími fyrir íslenska hrossaræktendur og fyrirtæki, svo sem í ferðaþjónustu, að koma sér á framfæri á sýningunni.

Alvöru gæðingar á íslenskan mælikvarða

Ákveðið hefur verið að senda út 10-11 hross til að nota á námskeiðunum og í sýningum. Björn segir að nöfn ýmissa frægra hesta hafi komið upp, en ekki sé alveg ljóst enn hverjir fari, þó sé öruggt að aðeins verði farið með úrvals hross. Það sé vissulega erfitt að fara út með óseld hross þar sem mikill kostnaður kemur á þau strax og út er komið, en þau ætli að taka þessa áhættu. Hins vegar hefur verið ákveðið að taka ekki þá áhættu að fara út með óselda rándýra stóðhesta. Hann sagði að ekki verði farið með hross sem flokkast sem fjölskylduhross þarna úti, heldur alvöru gæðinga á íslenskan mælikvarða. Kynningin á íslenska hestinum mun miðast við þannig hross.

"Þegar er farið að undirbúa fleiri uppákomur á vegum þessa hóps, m.a. svipaða hátíð í Maryland eða Vestur-Virginíu næsta vor og vonandi í Colorado að ári," sagði Björn að lokum.