LAGADEILD Háskóla Íslands hefur borist bréf frá lögfræðingi sem er til rannsóknar innan Háskólans fyrir meintan ritstuld í kandídatsritgerð í lögfræði.

LAGADEILD Háskóla Íslands hefur borist bréf frá lögfræðingi sem er til rannsóknar innan Háskólans fyrir meintan ritstuld í kandídatsritgerð í lögfræði. Í bréfinu fer hann fram á að einkunn hans fyrir ritgerðina verði afmáð en það þýðir jafnframt að kandídatstitill hans fellur brott. Jafnframt kemur fram í bréfinu að ef orðið verði við þessu óski hann eftir að innritast aftur í Háskólann til þess að skrifa nýja ritgerð.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. miðvikudag kom þetta mál upp í framhaldi af erindi sem sent var Háskólanum. Lögfræðingurinn er sakaður um að hafa tekið efni upp úr ritgerð sem skrifuð var við félagsvísindadeild. Hlutar ritgerðarinnar birtust síðar sem blaðagreinar en lögfræðingurinn mun hafa fengið þær í tölvupósti frá þriðja aðila og notað í ritgerð sína.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er málið stórt að því leyti að stór hluti ritgerðar lögfræðingsins er orðrétt upp úr ritgerðinni sem skrifuð var við félagsvísindadeild.

Málsaðilar, þar á meðal leiðbeinandi lögfræðingsins og prófdómari, hafa verið beðnir um greinargerðir um málið. Páll sagði að þegar málið væri fullrannsakað yrði það lagt fyrir deildarfund þar sem ákvörðun yrði tekin. Hann tók fram að samráð yrði haft við háskólayfirvöld um málið.

Engin fordæmi fyrir máli sem þessu

Páll Sigurðsson, forseti lagadeildar, sagði að engin fordæmi væru fyrir máli af þessu tagi innan Háskólans. Það væri skýrt ákvæði í háskólareglugerð að það mætti ekki nýta efni eftir aðra höfunda nema vitna beint í það og geta heimilda. Hann sagði að það væri almenn heimild í lögum að afturkalla stjórnsýslugerðir undir sérstökum kringumstæðum en viðurkenning prófa og útbýting akademískra gráða fellur undir stjórnsýslugerning. Páll sagði að lögfræðingurinn hefði í bréfinu til Háskólans rökstutt beiðni sína um að fá að skrifa nýja ritgerð. Hann sagðist á þessu stigi ekki geta fullyrt um hvernig málið endaði en útilokaði ekki að orðið yrði við beiðninni.

Þess má geta að sá sem vakti athygli Háskólans á því að lögfræðingurinn hefði nýtt sér hluta úr ritgerð hans hefur skrifað lagadeildinni annað bréf þar sem hann segir að eftir samtöl við lögfræðinginn sjái hann ekki ástæðu til frekari aðgerða í málinu. Þetta bréf mun engu hafa breytt um rannsókn Háskólans.