Mótahópur Átaksverkefnisins í hestamennsku ætlar að halda kappreiðar og gleðimót á félagssvæði Fáks á Víðivöllum í Reykjavík. Mótið verður haldið 14. - 15. september nk. og er þar með enn verið að lengja keppnistímabilið í hestamennskunni.

Mótahópur Átaksverkefnisins í hestamennsku ætlar að halda kappreiðar og gleðimót á félagssvæði Fáks á Víðivöllum í Reykjavík. Mótið verður haldið 14. - 15. september nk. og er þar með enn verið að lengja keppnistímabilið í hestamennskunni.

Í fréttatilkynningu frá Átaksverkefninu kemur fram að ákveðið sé að prófa nýjar keppnisgreinar saman við gamlar og eru hugmyndir um að keppt verði í 250 m skeiði, 150 m skeiði, fljúgandi skeiði, léttum fjórgangi og tölti fyrir þá sem eru að byrja að keppa, tvígangi og tölti í pollaflokki, léttum fjórgangi í barnaflokki, fjórgangi í unglinga- og ungmennaflokki, A-flokki gæðinga, fjórgangi og tölti án einkunnarmarka í meistaraflokki, þrautareið, fánareið og þríþraut.

Nánari upplýsingar um nýjar greinar munu verða birtar síðar, en ef ekki næst næg þátttaka í ákveðnar greinar áskilja mótshaldarar sér rétt til að hætta við þær. Nokkrum dögum fyrir mótið verður sett upp þrautabraut á Brekkubraut svo væntanlegir keppendur geti æft sig.

Gert er ráð fyrir að keppni hefjist um kl. 16.00 föstudaginn 14. september og ljúki laugardagskvöldið 15. september. Veitingar verða seldar í félagsheimili Fáks.

Hægt verður að skrá sig til þriðjudagsins 11. september og er skráningargjald 1.500 krónur. Ekkert kostar að keppa í polla- og barnaflokki en 500 kr. í skemmtigreinum. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Huldu Gústafsdóttur í síma 897 1744 og Sigurði Ævarssyni í síma 866 1932.