Þannig var umhorfs við Víkurskóla í gær þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar þar að.
Þannig var umhorfs við Víkurskóla í gær þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar þar að.
HEILBRIGÐISEFTIRLIT Reykjavíkur hefur sett ákveðin skilyrði sem Víkurskóli þarf að uppfylla til að hægt verði að hefja fulla kennslu þar á mánudag eins og áætlað er.

HEILBRIGÐISEFTIRLIT Reykjavíkur hefur sett ákveðin skilyrði sem Víkurskóli þarf að uppfylla til að hægt verði að hefja fulla kennslu þar á mánudag eins og áætlað er. Fresta varð skólabyrjun hjá nemendum skólans vegna þess að skólinn var ekki tilbúinn fyrir tilskilinn tíma.

Að sögn Árnýjar Ingu Pálsdóttur skólastjóra byrjuðu þrjár elstu bekkjardeildirnar á þriðjudag með umhverfisfræðslu sem áður hafði verið skipulögð. Aðrir nemendur áttu að byrja á miðvikudag, tveimur dögum síðar en í öðrum grunnskólum, en þegar til kom þótti skólayfirvöldum ekki forsvaranlegt að láta börnin vera í skólanum. Voru börnin því ýmist sett í útikennslu eða flutt í aðra skóla með rútum en skólahúsnæðið var nýtt sem miðstöð fyrir kennslu 2. og 3. bekkjar skólans í gær og í fyrradag.

"Foreldrar treysta á skólann og þegar það var búið að ákveða að það ætti að hefja skólastarf á miðvikudegi þá lagði ég allt kapp á að það yrði staðið við það en samt þannig að öryggi barnanna yrði tryggt að fullu," segir Árný. "Þetta hefur sem betur fer gengið allt mjög vel og síðan fáum við þetta húsnæði í stand núna um helgina en við erum hérna stór hópur að koma okkur fyrir og undirbúa okkur til að geta tekið á móti börnunum hér á mánudag."

Betra en að fresta skólahaldi

Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri segir ástæður þess að skólinn sé ekki tilbúinn til notkunar vera seinkun á framkvæmdum. "Það er nú oft með framkvæmdir að þær standast ekki allar tímamörk. Menn voru kannski heldur bjartsýnir og verktakarnir sem tóku þetta að sér ætluðu að vera búnir fyrir fyrsta skóladag en það tókst ekki og þá þurftum við að taka til einhverra ráða."

Hún segist vera afar sátt við hvernig skólastjórnendur hafa leyst húsnæðisvandann þessa fyrstu daga. "Ég hvatti þær til að gera þetta og okkur fannst þetta betra en að fresta öllu skólahaldi um hálfan mánuð sem við hefðum getað gert. Ég mat það svo að foreldrar myndu ekki vilja að við frestuðum skólabyrjun um tvær vikur og því fannst mér betra að byrja með þessa umhverfisfræðslu," segir Gerður.

Fylgst verður með framgangi mála

Gunnar Kristinsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, sem fylgst hefur með húsnæðismálunum í Víkurskóla þessa viku, segist ekki gera athugasemdir við að skólinn hafi verið notaður í gær og í fyrradag fyrir hluta nemenda. "Hvað varðar þessa miðstöð og þessar kennslustofur sem hún var með krakkana í þá var það allt í lagi. Síðan á að byrja að kenna þarna á mánudaginn og það eiga að koma þarna 140 krakkar þannig að við vorum upp frá í gær og gengum frá ákveðnum skilyrðum sem skólinn verður að uppfylla til að geta kennt þarna," segir hann.

Aðspurður hvaða skilyrði sé um að ræða segir Gunnar það fyrst og fremst varða öryggismálin og að heilsu barnanna stafi hætta af umhverfinu. "Þá erum við að hugsa um allt þetta ryk sem er þarna inni þannig að það sé búið að rykbinda og ganga þannig frá að það stafi ekki hætta af þessu. Síðan vorum við að hugsa um bílastæðamálin og leggjum áherslu á að það verði reynt að draga úr umferðinni eins og mögulegt er uppi við skólann með því að færa girðingu sem þarna er. Þannig að þetta eru svona helstu kröfurnar sem við gerum," segir hann.

Gunnar segir það verða að koma í ljós hvernig gengur að uppfylla þessi skilyrði. "Við lögðum mikla áherslu á að þessi atriði þyrftu að vera í lagi og förum þarna á mánudaginn til að fylgjast með því. Og við gerum þær ráðstafanir sem þarf til ef á þarf að halda," segir hann.