Jón Ingiberg, á milli verka.
Jón Ingiberg, á milli verka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MENNINGARMIÐSTÖÐIN Hitt húsið hefur nú um árabil sinnt því vinalega hlutverki að opna dyrnar að umheiminum fyrir ungu skapandi fólki. Margir listamenn af yngri kynslóðinni hafa stigið sín fyrstu skref þarna.

MENNINGARMIÐSTÖÐIN Hitt húsið hefur nú um árabil sinnt því vinalega hlutverki að opna dyrnar að umheiminum fyrir ungu skapandi fólki. Margir listamenn af yngri kynslóðinni hafa stigið sín fyrstu skref þarna. Þó svo að þeir kalli sig tónlistar-, myndlistar-, leiklistar- eða fjöllistamenn.

Býr til myndasögur

Í dag fær svo ungur listamaður að nafni Jón Ingiberg Jónssteinsson að spreyta sig en kl. 16 opnar hann í Galleríi Geysi sína fyrstu einkasýningu. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem verkum hans er stillt upp fyrir almenningsaugu því áður hefur hann sýnt í samsýningum með Blek hópnum svokallaða. Það er áhugamannahópur um gerð myndasagna og hefur hópurinn gefið út ein sex blöð, stútfull af sögum eftir meðlimi hópsins.

"Já, ég hef verið meðlimur í Blekhópnum frá upphafi, eða frá árinu '96," svarar Jón aðspurður hvort hann skapi sínar eigin myndasögur. "Þar teiknar maður bara það sem manni dettur í hug hverju sinni. Þetta er einhver húmor, sem ég skil kannski bara einn."

Þó svo að áhugi piltsins fyrir myndasögum sé eins og ástríða eiga þær greinilega ekki hug hans allan.

"Verkin tengjast myndasögunum mínum ekkert. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu. Þetta er einhver "action", tjáning, grafík eitthvað. Ég nota bæði sprey og olíu. Svo eru líka grafísk lím- og pappaþrykk... og ein trérista."

Eins konar húsarústir

Jón Ingiberg ætlar að leiða gesti sína inn í heim sem er afar fjarri íslenskum raunveruleika sem betur fer.

"Sýningin heitir Vígvellir. Þetta eru byggingar sem hafa skemmst í stríðum. Eins konar húsarústir. Ég styðst við ljósmyndir en þetta er engin eftirherma af þeim. Svo leik ég mér bara og breyti. Á sýningunni eru 20 myndir, en þarna eru 6 stór málverk. Alveg tvisvar sinnum einn. Ég vann þetta allt á þessu ári, svona mestmegnis."

Það má eiginlega segja að það hafi einungis verið tímaspursmál hvenær þessi sýning kæmi sér upp í sýningarsalnum. Hún hefur í raun legið í dvala í tæpt ár.

"Ég ætlaði að setja upp sýningu árið 2000. Ég var búinn að ákveða það þegar ég var lítill patti, en svo var það víst eitthvert menningarár og ekki séns fyrir mann að fá að taka þátt í því! Þannig að ég beið bara í eitt ár. Ég er að reyna að losa mig frá þessu núna, ég ætla að taka mér smáfrí frá myndlist. Ég er í tónlistinni líka og mig langar til þess að prufa hana."

Jón er í hljómsveit sem hann segir leika "djassað pönk" og nefnir hljómsveitina No Means No sem áhrifavald. "Hljómsveitin heitir í dag ZÖÐ. Það er alveg örugglega engin önnur hljómsveit í heiminum sem heitir það, ekki með þessum stöfum."

Piltinum er greinilega margt til lista lagt því í fyrra samdi hann ljóðabókina Tálvon sem hann svo gaf vinum, ættingjum eða bara öllum þeim sem vildu eignast eintak. En í dag á að tjá sig í gegnum myndlist. Sýningin verður opnuð í dag kl. 16 en verður opin vegfarendum til 15. september á sama tíma og Hitt húsið. En eru verkin til sölu?

"Já, ég hugsa það. Ég verð að finna eitthvert verð á þau. Um að gera að hafa það bara nægilega hátt, það kaupir þetta hvort sem er enginn. Þá lítur þetta a.m.k. betur út," segir Jón og hlær létt að lokum.