SKIPULAGSSTOFNUN hefur fallist á byggingu álvers og rafskautaverksmiðju í tveimur áföngum í Reyðarfirði þar sem gert er ráð fyrir allt að 420.000 tonna álframleiðslu og 233.000 tonna framleiðslu á rafskautum á ári.

SKIPULAGSSTOFNUN hefur fallist á byggingu álvers og rafskautaverksmiðju í tveimur áföngum í Reyðarfirði þar sem gert er ráð fyrir allt að 420.000 tonna álframleiðslu og 233.000 tonna framleiðslu á rafskautum á ári. Hins vegar setur Skipulagsstofnun tvö skilyrði fyrir framkvæmdum vegna umtalsverðrar mengunar sem af álverinu og rafskautaverksmiðjunni muni hljótast.

Skilyrðin eru í fyrsta lagi þau að engin búseta verði innan ákveðinna marka í kringum álverið og rafskautaverksmiðjuna og í öðru lagi að fylgst verði náið með styrk mengandi efna í lofti, á jörðu og í sjó innan og utan skilgreindra þynningarsvæða umhverfis álverið.

Að mati Skipulagsstofnunar verða umhverfisáhrif álverksmiðju í Reyðarfirði margvísleg en þyngst vegi þar annars vegar áhrif á loft og sjó og hins vegar áhrif á samfélagið. Fyrirhuguð rafskautaverksmiðja er talin hafa í för með sér umtalsverða losun mengunarefna en samkvæmt upplýsingum Reyðaráls hf. er slík verksmiðja skilyrði fyrir hagkvæmni þess að starfrækja álver af þeirri stærðargráðu sem um ræðir.

Að mati Skipulagsstofnunar ætti að vera hægt að uppfylla gildandi kröfur samkvæmt íslenskum reglugerðum og kröfum Evrópusambandsins varðandi mengunarviðmið í sjó og andrúmslofti í Reyðarfirði að því skilyrði uppfylltu að engin búseta verði innan marka þynningarsvæðis verksmiðjunnar.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar kemur fram að bygging og rekstur álversins muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf á Austurlandi, sem m.a. verða fólgin í fjölda nýrra starfa við álverið. Gert er ráð fyrir að um 610 manns vinni í álverinu þegar seinni hluta framkvæmda lýkur árið 2012. Þá gerir Skipulagsstofnun ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu og rekstur álversins muni leiða til samþjöppunar byggðar í Fjarðabyggð og öðrum sveitarfélögum á Mið-Austurlandi. Það verði hins vegar hugsanlega á kostnað jaðarsvæða á Austurlandi.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist gleðjast yfir úrskurði Skipulagsstofnunar varðandi byggingu álvers í Reyðarfirði. Hún telur úrskurðinn ekki óeðlilegan og að skilyrðin séu ekki óyfirstíganleg sem þar eru sett fram. "Það má segja að það sé komin upp svolítið sérkennileg staða þegar maður horfir á Noral-verkefnið sem slíkt. Hvað varðar úrskurð Skipulagsstofnunar þá er álverið jákvætt og höfnin, línan og vegurinn, en hins vegar virkjunin ekki. En það er náttúrlega með þennan úrskurð eins og aðra að það er ekki þar með sagt að þetta sé niðurstaðan, því nú á eftir að koma í ljós hvort um kæru verður að ræða og þá er það ráðherra sem á síðasta orðið," sagði Valgerður.