ÚTGJÖLD vegna happdrættis eru hluti af vísitölu neysluverðs eins og önnur heimilisútgjöld sem mæld eru í neyslukönnun Hagstofu Íslands.

ÚTGJÖLD vegna happdrættis eru hluti af vísitölu neysluverðs eins og önnur heimilisútgjöld sem mæld eru í neyslukönnun Hagstofu Íslands.

Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands í tilefni af umræðu um áhrif af breytingum á verði lottómiða á vísitölu neysluverðs við síðustu mælingu.

"Sú aðferð sem Hagstofan beitir nú við útreikninginn var tekin upp í mars árið 2000. Í greinargerð Hagstofunnar sem birt var þá er aðferðinni lýst á eftirfarandi hátt: "Útreikningi á vogum fyrir happdrætti er breytt þannig að miðað er við nettóvogir sem eru tekjur happdrættanna að frádregnum vinningum og er miðað við þann hluta sem neytandinn greiðir happdrættunum fyrir þjónustu þeirra."

Verðbreyting happdrætta er metin eftir breytingum á verði happdrættismiða og lögbundnu vinningshlutfalli. Hækkun á lottóröðinni í ágústbyrjun var öll tekin með við útreikning vísitölunnar þar sem vinningshlutfallið var óbreytt. Með hliðstæðum hætti verða við næstu mælingu á neysluverðsvísitölunni í september tekin inn áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs af hækkun á vinningshlutfalli í lottóleiknum úr 40% í 45% sem dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið með reglugerð.

Vog fyrir happdrættin er endurskoðuð á ári hverju en er haldið óbreyttri þess á milli. Næsta endurskoðun verður í mars á næsta ári en þá verða í fyrsta sinn teknar með í grunninn niðurstöður af árlegri neyslukönnun Hagstofunnar sem staðið hefur yfir frá ársbyrjun 2000," segir ennfremur í frétt Hagstofunnar.